01.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 417 í B-deild Alþingistíðinda. (1120)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Pétur Jónsson:

Sparnaðarhljóm er nú að heyra í þingsalnum úr öllum áttum. Lætur sá hljómur mjög vel í eyrum gjaldþegnanna víðsvegar um land, og það er sannarlega engin vanþörf að gæta þess, að þeim sé eigi ofþyngt með gjöldum. Mér er líka fyrir mitt leyti óhætt að tala um sparnað. Það er ekkert á hættu fyrir mig sérstaklega eða mitt kjördæmi, því eg hefi ekkert slíkt á þessu fjárlagafrumv. Sömuleiðis geta þeir og talað um sparnað, sem eru öruggir um það sem þeim er sárt um af fyrirliggjandi fjárveitingum og till. Öðru máli er að gegna um hina, sem berjast fyrir áhugamálum í þrá við meiri hlutann. En eigi sparnaðartalið að vera meira en hljómur, þarf að fylgja glögg þekking og víðsýni í fjármálunum yfir höfuð á fjárhagsútlitinu eins og það nú er. Og umfram alt: sá sem vill, að sparnaðarmál sitt sé tekið til greina, verður sjálfur að geta sýnt sjálfsafneitun þá, sem sparnaðurinn ætíð kostar einhverja. Þrátt fyrir alt sparnaðartalið liggja nú fyrir einungis 2 sparnaðartill.; það er: að fella burt Eyjafjarðarbrautina 10 þús. á ári og alla símana, yfir 200 þús. kr. Eg tel nefnilega ekki till. um Eiðaskólann, því það er að eins tylli-sparnaður. Það mun nú ekki vera nein sérleg sjálfsafneitun fyrir hinn ráðandi flokk, að fella Eyjafjarðarbrautina. Þar hafa helzt um sárt að binda hinn fráfarandi ráðherra (H. H.) og 2. þm. Eyf. (St. St.)

Þá eru hinar sparnaðartill. frá 1. þm. Rvk. (J. Þ.) Sá þm. á nú allmargar hækkunartill. og hefir átt við fjárlögin og ætlar nú að borga það ríflega með því að fella alla símana. En ekki er hægt að telja honum þetta mikla sjálfsafneitun. Hans kjördæmi má á líku standa um ýmsar símalínur hinar smærri út um land. Þar á móti eru aðrar till. hans mjög í fjáreyðsluáttina, t. d. sú, að taka kvennaskóla Reykjavíkur nærfelt að öllu leyti upp á landssjóð.

Háttv. þm. A.-Sk. (Þ. J.) hélt sparnaðarræðu og var hlyntur þessum símasparnaði. Hann flytur þó ásamt fleirum þá till. að skella Flensborgarskólanum að öllu upp á landssjóð. Fyrir mitt leyti er eg ekkert á móti þessum skóla, og eg vil hann þrífist. En hann er einungis unglingaskóli alveg einsog t. d. Hvítárbakkaskólinn, Heydalsárskólinn og aðrir unglingaskólar víðsvegar um land, þótt hann sé stærstur þeirra og hafi 2 vetra námsskeið. — Hann er eins og hv. þm. A.-Sk. (Þ. J.) komst að orði, nauðsynlegur vegur hinnar »smávægilegri« mentunar. Eg meina það ekki í niðrandi skilningi. En þar af leiðir, að hann má ekki fremur en aðrir unglingaskólar leggjast að öllu leyti upp á landssjóð. Héraðið og kaupstaðurinn, og enda sumir nemendur geta alveg eins lagt fram til kostnaðar hans einhvern hluta, t. d. þriðjung, eins og gert er við aðra unglingaskóla. Það hefir verið kvartað um, að engin gagnfræðaskóli væri til hér á Suðurlandi, nema gagnfræðadeild hins almenna mentaskóla og hún væri ekki fyrir almenning. Þess vegna væri skylt að halda uppi Flensborgarskólanum sem gagnfræðaskóla. En hann er það ekki. Og hvers vegna er það ekki reynt að fá gagnfræðadeild mentaskólans lagaða svo, að hún verði við hæfi og eftir þörfum almennings engu síður en gagnfræðaskólinn á Akureyri?

Þá talaði hv. þm. Sfjk. (B. Þ.) um sparnað og sagði, að ekki mætti ganga í landssjóð eins og hross-skrokk. Hann tjáði sig samþ. sparnaði í símalagningum. Enga breyt.till. hefir hann samt til sparnaðar, og hefir verið einn aðalmaðurinn í því, að varpa Eiðaskólanum að mestu á náðir landssjóðs og nú mælir hann með Flensborgarskólanum. Miðar það nú til sparnaðaðar fyrir landssjóð, að bæta þriðja bændaskólanum á landssjóð?

Háttv. 2. þm. Húnv. (B. S.) talaði fagurlegast af öllum um sparnað og sjálfsafneitun. Þó mælti hann með þessari helmingshækkun á ársstyrk til Flensborgarskólans, og hann gat ekki stilt sig um, að víkja að Blönduóssskólanum, eiginlega í þá átt, að landssjóður ætti að sjá honum fyrir nógu fé.

Háttv. 1. þm. G.-K. (B. K.) talaði á móti lagningu Vestmannaeyjasímans, og sagði jafnvel, að það væri ranglátt að fara fram á hana. Ef til vill þykir honum réttlátast, að endurreistar væru hans föllnu fjáreyðslutill. við 2. umr. í staðinn.

Það er nauðsynlegt, að gera verulegan greinarmun á fjárhagslegu tilliti á fjárveitingum til fyrirtækja, sem auka eign landssjóðs og eru arðberandi beint eða óbeint fyrir hann, og þannig veita tekjur landssjóði eða lækka gjöld hans, eða hafa bein áhrif á gjaldþol til landssjóðs, ellegar hinum, þótt þörf sé, sem engan peningalegan arð bera. Og enn fremur þarf að greina að fjárveitingar, sem standa einstakar um eitt ár eða svo í fjárlögunum, og hinar, sem binda landssjóði á herðar að mestu eða öllu fyrirtæki, sem þurfa árlegan kostnað. Þau fyrirtæki eru upp frá því eins og skylduómegð landssjóðs — eg meina það ekki í neinum niðrandi skilningi — og ársútgjöldin verður að skoða eins og rentu af kapitali. Fyrirtæki þessi kosta því kapítal, sem svarar til ársútgjaldanna sem rentu, ef þau eru borin saman við hin eiginlegu kapítalfyrirtæki.

Nú hefir sparnaðarhugurinn nær eingöngu beinst að símalagningunum. En símarnir eru helztu arðsemdarfyrirtækin á fjárlögunum. Símareikningur landsins fyrir 1908 sýnir, að tekjur af öllum símum landsins hafa numið 20 þús. kr. um fram rekstur og viðhaldskostnað. Nú auka símar þeir, er hér er ráðgert að leggja reksturkostnað landssjóðs mjög lítið, en tekjurnar þar á móti að tiltölu við hina. Það er því sennilegt, að þeir borgi að mestu beint kostnaðinn og rentur af höfuðstólnum. Þetta vilja sparnaðarmennirnir spara. En sömu mennirnir eru fylgjandi ýmsum smá fjárveitingum, sem engan arð bera landssjóði heldur auka árlega útgjöld hans framvegis og hafa því tiltölulega meiri verkun í eyðsluáttina. Í stað þess að draga kraftana saman til hins verulega og arðsama er verið að dreifa þeim í smámuni, sem hjá mætti komast. — Þannig fer eyðslan kring um sparnaðinn. Hún kann aðferðina: dreifðu og drottnaðu.