01.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 432 í B-deild Alþingistíðinda. (1123)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Benedikt Sveinsson:

Eg verð að gera stutta grein fyrir breyt.till. mínum á þingskj. 394. — Eg þykist vita, að nýjar fjárkvaðir muni mælast lítt fyrir, þar sem ræður flestra háttv. þm. hneigjast að sparnaði. Eg er þeim að mörgu leyti samdóma, enda bera þessar breyt.till. mínar ljóst vitni þess, að eg hefi haft sparnaðarviðleitnina ríkt í huga, svo eru þær hóglegar og fara fram á lítið. Eg hef þá leyft mér, að koma tram með þá breyt.till. við 13. gr. A. 1. b, að fyrir 4900 kr. komi 5000 kr., og liðurinn hækki um einar 100 kr. Þessi tillaga fer fram á það, að tveir starfsmenn við pósthúsið í Reykjavík fái jafn há laun fyrir jafnt starf, 1500 kr. hvor. Þetta eitt sýnist sanngjarnt og rétt, en ekki hitt, að verið sé að gera upp á milli manna, er vinna nákvæmlega sömu störf, — enda er því síður ástæða til, að sjá eftir þessum 100 krónum, þegar þess er gætt, að þetta mun vera sú lægsta borgun, sem landssjóður greiðir nokkrum föstum starfsmanni sínum. Starfið er erfitt, sífeldlega mikið að gera og langur vinnutími og þrásinnis unnið um nætur og á helgum dögum, og engin aukaborgun fyrir. Eg verð því að álíta, að þótt það sé vilji allra að spara, þá sjá menn jafnframt og viðurkenni, að verður sé verkamaðurinn launanna, og að mishá borgun til þessara manna sé ekki sanngjörn eða rétt.

Háttv. 1. þm. S.-Múl. (J. J.) hefir mælt fram með styrknum til Jóhanns skálds Sigurjónssonar, og því engin nauðsyn á, að eg tali langt mál um hann. Þó vil eg geta þess, að hér er ekki að ræða um fjárveiting að staðaldri, heldur er að eins farið fram á, að veittar séu 1000 kr. fyrra árið. — Maðurinn er mjög efnilegur og enginn efi á því, að frá honum má vænta góðra skáldverka, og þótt höf. hafi ekki skrifað nema tvær bækur enn, þá er rangt, að áfellast hann fyrir það. Maðurinn er ungur að aldri og eg tel auk þess gersamlega rangt, að meta menn eftir því, hvað miklu þeir afkasta, heldur er á það að líta, hvernig bækurnar eru. Eg heyri reyndar ýmsa háttvirta þingmenn telja sumum þeim skáldum, er alþingi hefir styrkt að undanförnu, einna mest til gildis, hvað þau afkasti miklu, nýjum bókum rigni frá þeim eins og skæðadrífu yfir landið, en eg tel það einmitt mjög skaðlegt, að þingið sé að hotta á höfundana, að rubba sem mestu á pappírinn og kalla til þeirra: Skrifaðu skáld! skrifaðu skáld! — Mér þætti miklu fremur ástæða til, að óska þess, að það sem skáldin semja sé stutt og gott. Ritdómarnir benda einmitt á, að sum skáld fjárlaganna skrifi of mikið — afkasti of miklu til þess, að fá fé —, og þar af leiðandi sé margt af því mjög gallað, málið á mörgum bókunum óvandað, kjarnlaust og langdregið, einmitt af því, að höfundarnir bafa engan tíma til þess að vanda verk sín, enda sjá, að það er bezt launað, að rubba sem mestu af. — Hjá þessum annmörkum hefir Jóhann Sigurjónsson sneitt og skarar mjög fram úr öðrum, að því að rita mergjað og vel hugsað mál. Slík eru einkenni beztu rita vorra, og ætti þingið að meta þá kosti.

Það er alment viðurkent, að skáldskapurinn hafi mjög mikið menningargildi, og það hefir alþingi viðurkent með fjárveitingum sínum til ýmissa skálda, en þess þarf þá að gæta, að hann komi að sem beztum notum þjóðinni. Á öldinni sem leið voru mörg góðskáld hér í landi, en engin bókmentasaga er til á íslenzka tungu um verk þeirra. Eg hef því leyft mér að bera fram tillögu um það, að einu skáldi voru sé veittur styrkur til þess, að rita kenslubók í bókmentasögu Íslands á 19. öld. Kennarar kvarta mjög yfir því, að slíka bók vanti, og maður sá, sem farið er fram á að styrkja, mun vel fallinn til þessa starfa. Hann hefir þegar byrjað á verkinu, og flutti í vetur nokkra alþýðufyrirlestra um þetta efni fyrir Stúdentafélagið.

Þá er eg einn af flutningsm. breyt.-till. á þgskj. 389, er fer fram á að Jóni H. Ísleifssyni sé veittar 450 kr. á ári til þess að ljúka námi sínu á mannvirkjaskólanum í Niðarósi. Hann hefir lagt stund á vatnamannvirki, og eru það t. d. hafnir, brimgarðar, vatnsveituskurðir, notkan fossa o fl. — Það er engum efa bundið, að kunnátta um slíka hluti er mjög nytsöm og þarfleg hér í landi, og því nauðsynlegt að hafa mann, sem vit hefir á þessum hlutum, og þarf ekki annað en að benda á þingsályktanir háttv. deildar, þar sem skorað er á stjórnina að láta ransaka allskonar mannvirkjastæði í öllum áttum, til að sanna það að svo er sem eg segi, að þörfin er brýn. Landstjórnin hefir að vísu einn verkfræðing í þessari grein, en eins og reynslan sýnir, þá getur hann ekki komist yfir að rannsaka, það sem þörf er á að ransakað sé, og veitir því ekki af að bæta öðrum við. Meðal margs annars er t. d. eftir að rannsaka hafnarstæði við suðurströnd landsins þrátt fyrir ítrekaðar óskir héraðsbúa, er hlut eiga þar að málum. Má slíkt eigi dragast til langframa.

Það er einnig mjög mikils vert, að íslenzkir verkfræðingar læri þessi störf í Noregi, því að staðhættir eru þar næsta líkir sem hér á landi, og nám þeirra kemur því að fullu haldi. Hingað til höfum vér að eins átt kost á mönnum, sem lært hafa í Danmörku og þótt þeir séu í ýmsa staði færir í námsgreinum sínum, einkum bóklega, þá eru þeir þó alt of ókunnugir landsháttum hér sem von er, þar sem þeir hafa alla sína þekking úr landi, þar sem alt annan veg hagar til.

Styrkur sá, sem hér er farið fram á nemur ekki meira en mánaðarkaupi eins manns, sem landið þyrfti að fá frá útlöndum, svo að ef hann er feldur, þá er það hið sama sem að spara eyrinn en fleygja krónunni.

Að lokum vil eg minnast á styrkinn til Þorvalds bónda frá Þorvaldseyri. Það hafa heyrst hér raddir um það, að varasamt væri að láta landssjóð fara að greiða bændum eftirlaun. Eg vildi óska, að vér ættum marga bændur slíka, sem Þorvaldur var, og mundi eg þá ekki telja eftir þeim lítilfjörlega viðurkenningu úr landssjóði, ef þeir þyrftu á að halda. Finst mér það ekki nema vel til fallið, að alþingi veiti á hverju ári tveim eða þrem afreksbændum dálitla viðurkenning, ef þeir eru ellimóðir og farnir að fé, en hafa um langan aldur verið stoð og stytta sveitar sinnar og héraðs, og prýði sinnar stéttar í landinu fyrir dugnað og rausn, eins og Þorvaldur bóndi. Eg get því ekki séð, að það sé neitt hættulegt, þótt hér væri riðið á vaðið með 1000 kr., og vona að bændur hér á þinginu virði sína stétt svo mikils, að þeir vilji sýna henni sömu sanngirni sem þeim, sem hafa lagakröfur til árlegra eftirlauna, enda þótt þeir hafi lítið til unnið sumir, annað en lafa nokkur ár í embætti við lítinn orðstír.