01.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 448 í B-deild Alþingistíðinda. (1125)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Björn Sigfússon:

Þó að mér sé nauðugt að bæta miklu við þessar afarlöngu fjárlagaumræður, finn eg mig knúðan til að ávarpa háttv. þm. S.-Þing. (P. J.) og svara honum nokkrum orðum. Eg mundi þó ekki hafa gert það, ef hann hefði ekki beint ræðu sinni að nokkru leyti til mín. Hann talaði um »sparnaðarhljóm« í ræðu minni, en að eg sýndi þó enga »sjálfsafneitun«. Þetta þótti mér kynlegt, og mér kom mjög á óvart að heyra þessi orð af hans vörum. Honum ætti þó ekki að vera liðið það úr minni, að eg hefi frá upphafi haldið því fram í fjárlaganefndinni, að við ættum að kappkosta að skila fjárlagafrumv. til deildarinnar með sem minstum tekjuhalla. Hann veit það vel, að til þess að gera mitt til að ná þessu takmarki og einungis í því skyni að fá aðra til að gera slíkt hið sama, hefi eg dregið úr sanngjörnum fjárbænum og alveg slept sumum fyrir mitt kjördæmi. Þannig er flutningabrautin um Húnavatnssýslu búin að bíða í 15 ár, og eg vildi þó sætta mig við 11 þús. kr. fjárveiting til hennar í þetta sinn í stað 21 þús. kr., sem verkfræðingurinn lagði til að veitt væri. Ennfremur slepti eg alveg að svo stöddu, að fara fram á styrk til að mæla 2 hafnir, og loks hvarf eg frá að biðja um styrk til að leggja tvær símalínur um sýsluna, sem bæði eru áhugamál sýslubúa og nytsemdarfyrirtæki. Getur nú hinn háttv. þm. sagt með sanni að hann hafi sýnt slíka sjálfsafneitun? Hann hefir verið í náðinni hjá fráfarandi stjórn og líklega þess vegna verið svo heppinn að fá allálitlega fjárhæð handa kjördæmi sínu. En nú skal eg sýna, hvernig hans sparnaði er varið og hans sjálfsafneitun. Hann hefir ekki slegið einum einasta eyri af fjárkröfum sínum. Meira að segja kom hann því til leiðar, að þær 15,000 kr., er hans kjördæmi voru ætluð í fjárlögunum til vega voru sett inn á aukafjárlögin, svo að hann gæti notað þær strax í sumar. Hann gat ómögulega beðið eins lengi og stjórnin ætlaðist til. Í þessu er fólgin hans sjálfsafneitun! Um fjárveitingar til vega og flutningabrauta í Þingeyjarsýslu og Húnavatnssýslu er það að segja, að hinni fyrnefndu eru áætluð 25 þús. og hinni síðarnefndu 16 þús. Eg geymi mér rétt til að koma fram með aðrar till. síðar, ef aðrir háttv. þm. vilja ekki draga úr sínum kröfum, sem ekki er enn útlit fyrir.

Hv. sami þm. sagði að eg vildi hækka tillag til tveggja skóla. Hvað Blönduósskólann snertir hefi eg áður sýnt fram á, að bæði þarf sá skóli hærri fjárveiting og á það fyllilega skilið. Það væri ranglæti að hafa hann lengur að olnbogabarni, og Reykjavíkur kvennaskóli á ekki að vera þar rétthærri, þó svo hafi áður verið.

Eg hefi áður gert grein fyrir, hvers vegna eg hefi fallist á að hækka styrkinn til Flensborgarskólans, nefnilega að það er víst, að sá skóli er góður og ódýr fyrir alþýðu og svo er önnur ástæðan sú, að eg vil bæta fyrir syndir síðasta þings, sem fór svo hraparlega að ráði sinu, að taka í burtu kennarafræðslu í Flensborgarskólanum og stofna afardýran kennaraskóla hér í Reykjavík, í stað þess að hafa sameinaðan alþýðu- og kennaraskóla í Hafnarfirði, sem bæði var miklu ódýrara og að öðru leyti hollara. Meðal annars var það háttv. þm. S.-Þing. (P. J.), sem vann þetta óþarfaverk (Stefán Stefánsson 6. kgk. þm.: Þetta er alt rangt!) Það er ekki sérlega þingmenskulegt atferli að utandeildarþm. skuli rápa hér fram og aftur um salinn, og vera að grípa fram í hvað eftir annað. En eg skal víkja því að honum, að hann ætti að blygðast sín fyrir hans látlausu baráttu fyrir því að slíta skólana úr sveitunum og demba þeim í kaupstaðina. Hann hefir getið sér þann orðstír fyrir það, sem hann á skilið, og eg öfunda hann ekki af. Það var einmitt sá herra, sem kom með þá fáránlegu uppást. fyrir nokkrum árum að setja einnig búnaðarskólana í Reykjavík, og sömuleiðis má það ekki gleymast, að hann barðist fyrir því með hnúum og hnefum að gera Skagafjarðarsýslu, sem hann var þá að nafninu fulltrúi fyrir, það hagræði að svifta hana Hólaskóla og flytja hann norður á Akureyri. Hann hefir orðið frægur fyrir það.

Eg hefi annars átt örðugt með að átta mig á stefnu háttv. þm. S.-Þing. (P. J.) í þessum skólamálum. En þegar dregin eru saman öll atvik fer að skýrast fyrir manni. Hann getur ekki litið Eiðaskólann réttu auga, enda er hann í sveit. Þá lítur út fyrir, að honum sé í nöp við Hólaskóla, þennan skóla, sem er mjög ódýr í samanburði við aðra skóla og hefir gert stórgagn. Hinn háttv. þm. vill koma þessum skóla í burt — í kaupstað, eða kaupstaðarjaðar. Hann lætur sér einnig ant um, að koma kvennaskólanum á Blönduósi fyrir kattarnef — sjálfsagt af sömu ástæðum, Og eins og áður er sagt, hefir hann líka unnið að því að setja kennaraskólann hér í Reykjavík. Þetta bendir ótvírætt á það, að hann — eins og hv. 6. kgk. (St. St.) — vill fyrir hvern mun, að allir skólar séu rótfastir í kaupstöðum. Þetta er nokkurn veginn þveröfugt við það, sem eg vil vera láta, og eg fæ ekki betur séð, en að það sé óholt og algerlega rangt gagnvart þjóðinni. Skoðanamunur okkar er svo mikill í þessu efni, að það er ekki furða, þótt hinum háttv. þm. geðjist ekki að þessum aths. mínum.

Eg þykist vita, að háttv. þm. S.-Þing. muni þykja eg hafa orðið nokkuð harðorður í sinn garð, en hann má þar sjálfum sér um kenna. Það var gersamlega ástæðulaust af honum, að fara að beinast að mér persónulega; eg hafði ekki gefið neitt tilefni til þess.