01.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 456 í B-deild Alþingistíðinda. (1129)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Þorleifur Jónsson:

Það eru að eins örfáar aths. Háttv. þm. S.-Þing. (P. J.) byrjaði ræðu sína í gær með því að taka það fram, að menn þyrftu að sýna víðsýni og fjármálaþekkingu í umr. um fjárlögin og virtist mér hann beina því að mér, því úr því fór hann að taka ræðu mína til bæna. Eg skal nú játa það, að hann er mér miklu fremri bæði að þingmenskualdri og sjálfsagt fjármálaþekkingu, en þótt eg sé óvanur, tel eg mér heimilt að leggja orð í belg, þegar mér býður svo við að horfa. Honum þótti undarlegt, að eg væri að tala um sparnað, þar sem eg þó væri fylgjandi till. um aukinn styrk handa Flensborgarskólanum, til þess að hann gæti lifað. Hann áleit, að Hafnarfirði og næstu sýslum bæri að kosta þennan skóla. Eg efast um, að þær mundu taka því vel. En þar sem hér er um að ræða nauðsynlega fjárveitingu að því leyti sem alþýðu er þar með gefinn kostur á ódýrum skóla með hæfilega stuttu kensluskeiði, vona eg, að háttvirt þingdeild kannist við að hún sé réttmæt og að hún fái góðan byr.

Líka talaði hinn sami háttv. þm. um að menn ættu ekki að ganga í till. stjórnarinnar eins og hvalskrokk, og taldi bandvitlaust að breyta »plani« stjórnarinnar um vegi og síma. En hvernig er nú þetta »plan«? Eg hygg, að það sé ekki neitt sérlega staðfast. Verkfræðingurinn taldi 1907, að Eyjafjarðarbrautin ætti að koma með þeim seinni, en nú leggur hann til að hún verði með hinum fyrstu. Ekki sýnir þetta staðfestu.

Þá talaði háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ó.) um hversu fráleitt væri að hugsa um að koma á loftskeytasambandi við Vestmannaeyjar. Hann sagði að eg vildi kasta í sjóinn einni loftskeytastöð, Það er nú ekki rétt hjá honum. En hitt vakti fyrir mér, að koma í veg fyrir að vír væri kastað í sjóinn milli Vestmannaeyja og lands, fyrir 30—40 þús. kr. — eins og hann og fleiri vilja gera — að órannsökuðu máli. Ef rannsóknir leiddu það í ljós, að loftskeytasamband yrði hagkvæmara og ódýrara á þessum stað, myndu menn iðra þess að vera búnir að leggja sæsíma út í Eyjar.

Þetta voru þær aths., sem eg vildi leyfa mér að gera.