29.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 478 í B-deild Alþingistíðinda. (1133)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Björn Kristjánsson:

Eg skal geta þess, að ef breyt.till. á þskj. 659 kemst hér að, tek eg aftur breyt.till, á þskj. ; 671, Eg skal fara fáeinum orðum um breyt.till. mína á þskj. 659 í sambandi við aths. á breyt.till. á þskj. 674 um styrk til gufuskipaferða. Þar er til þess ætlast, að samið sé um ferðirnar til að eins tveggja ára. Þetta er sama sem að segja, að ekki verði samið við neitt annað félag en Sameinaða félagið. Það getur ekkert félag kept við það um ferðir, sem bundnar eru við tvö ár. Ekkert félag mun áræða að umbyggja eða byggja skip til tveggja ára. Enn fremur er þar tekið fram, að farmgjöld og fargjöld megi hækka. — Sömuleiðis er gert ráð fyrir því, að Botnía eða viðlíka hraðskreitt skip, verði haft til ferðanna. En þess er ekki gætt, að þótt Botnía hafi verið sæmilega hraðskreið fyrir 18 árum, færi þá 12 mílur eins og Laura, í upphafi, þá er ekki að búast við sama hraða nú. Laura hefir nú ekki neina 9—10 mílna hraða, stafar það sérstaklega af því að þrykkið á katlinum hefir þrisvar verið sett niður. Með Botníu hefir auðvitað verið farið eins að. 18 ára ketill getur ekki haft sömu þenslumótstöðu eins og fyrstu árin. Auk þess hefir skipið verið sagað í sundur og lengt, passar því vélin alls ekki lengur fyrir skipið, og gæti af þeim ástæðum ekki haft lengur 12 mílna ferð. Það er undarlegt að hækka taxtann, þegar skipin eru ekki hraðskreiðari en þetta. Í áætluninni er gert ráð fyrir, að skipið komi að eins einu sinni á Ólafsvík, 3—4 sinnum á hafnirnar við Breiðafjörð, og sjá allir, hversu ófullnægjandi það er.

Af þessum ástæðum hefi eg komið með breyt.till. á þskj. 659. Eins og menn muna, sýndi eg fram á í umr. um annað mál, hversu miklu Íslendingar tapa á því að hafa ekki beinar samgöngur við Hamborg. Úr þessu bætir breyt.till. mín. Eg hefi ekki ástæður til þess að fara fleiri orðum um brt.; eg vona, að háttv. deild samþ. hana.

Eg sé hér breyt.till. um að fella fjárveitingu til vegar suður með sjó. Sú fjárveiting hefir lengi staðið óhögguð, og því var beint lofað í fjárlaganefnd á síðasta þingi, að hún héldist. Eg vona því, að deildin felli þá till.