29.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 479 í B-deild Alþingistíðinda. (1134)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Stefán Stefánsson:

Eins og kunnugt er, fóru fjárlögin héðan svo, að 10 þús. kr. hvort árið voru veittar til akbrautarinnar inn Eyjafjörð. Þessi fjárveiting hefir verið feld í hv. Ed., en eg ber það traust til deildarmanna, að þeir breyti ekki atkv. sínu frá því, sem þau féllu hér áður í deildinni. — Eg skýrði þá frá því, að til þessa vegar hefði ekki verið veitt fé nú um síðustu 10 ár, þrátt fyrir það þótt hér sé um lögákveðna akbrautarlagning að ræða, og því skylda landssjóðs að leggja hana svo fljótt sem kostur er á, enda verkfræðingurinn, Jón Þorláksson, lagt eindregið með því, að fé yrði veitt til hennar nú á fjárlögum. Eg þarf ekki að lýsa, hversu hennar er mikil þörf; það hefi eg gert áður, og vænti eg því þeirrar sanngirni af hv, deild, að hún taki fjárveitinguna upp aftur og samþ. breyt.till. þá, er við þm. Eyfirðinga höfum leyft okkur að koma fram með.

Þá eru það að eins nokkur orð um þá — mér liggur við að segja — óskiljanlegu till., sem hér er komin fram, að fella hinn litla styrk til akvegarins í Svarfaðardal. Sá styrkur var samþ. hér með c. 20 atkv. og enginn hefir mælt orð á móti honum við allar undanfarandi umr. fjárlaganna í báðum deildum, en svo kemur þessi kynlega sending úr þeirri átt, er eg hafði sízt ætlað, þar sem er hinn háttv. þm. S.-Þing. (P. J.). Þessi háttv. þm. áleit eg, að mundi þó ekki verða seinastur til þess að sjá og kannast við þann framúrskarandi dugnað og það framtak, er Svarfdælir sýna í þessu vegamáli og því bæri fremur, að styðja en fella þennan litla styrk sem þeim hefir verið ætlaður. Eg vona að þetta sé að eins leikur og háttv. þingd. meti till. að verðleikum, taki hinn hv. flm. hana ekki aftur, sem eg þó óneitanlega helzt vildi óska eftir.