29.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 480 í B-deild Alþingistíðinda. (1135)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Þorleifur Jónsson:

Eg skal lofa því að lengja ekki umr. mikið. Eg á hér breyt.till. á 2 þskj. Breyt.till. á þskj. 638 fer fram á það, að veittar verði 3000 kr. til vegar í Nesjum. Til þessa vegar hafa áður verið samþ. 5000 kr. hér í deildinni, en Ed. hefir þóknast að fella þá fjárveitingu burtu. Fyrir henni mun sparnaðarlöngunin hafa vakað. Eg skal nú játa, að sparnaðurinn verður einhversstaðar að koma niður, en sem kunnugur maður get eg borið það, að ef vegabætur eiga nokkurstaðar fram að fara, þá er það hér. Hinn gamli þjóðvegur er nú lagður niður, vegna þess að Hornafjarðarfljót eru ófær orðin ytra. Landssjóður hefir kostað þann veg undanfarið og haldið honum við; nú er hann hættur því, og því virðist liggja bein skylda á honum að gera hinn nýja þjóðveg innra yfir Fljótin færan sem fyrst. Þegar kemur yfir Laxá, taka við mýrar, sem oft eru ófærar, þegar rigningar ganga, einkum á haustin. Vegurinn er afarfjölfarinn alt árið má heita, og er því slæmt að hann sé ófær til lengdar. Þar við bætist líka, að þar sem brúin á Laxá verður gerð 1910, er hagkvæmara að nota sömu verkfærin til vegalagningarinnar heldur en að flytja þau burtu. Það hefir oft reynst kostnaðarsamt að koma vegaverkfærum austur. Upphæð þessi er svo lág, að hún gerir engan glundroða í fjárlögunum, og trúi eg því ekki, að háttv. Ed. geri nokkurt númer úr henni.

Á sama skjali hefi eg lagt til að bóndanum á Tvískerjum verði veittar 300 kr. Vona eg, að það mæti ekki mótspyrnu.

Enn á eg breyt.till. á þskj. 645 um að veita megi til gufubátaferða frá Reykjavík til Hornafjarðar og Papóss alt að 15000 kr. á ári. Eg álít því réttmætara fyrir mig að fara fram á þessa upphæð, þar sem farið er fram á það í hinu upphaflega tilboði Sameinaða félagsins að stryka Hornafjörð út. Í hinu nýja tilboði félagsins býðst það að vísu til að láta bát koma þar 8 sinnum, ef ástæður leyfa. En eg þekki félagið af 11 ára reynslu og býst ekki við, að það leggi sig í líma með að sigla inn á Hornafjörð. 12 sinnum átti báturinn að koma þar síðastliðið sumar en kom að eins einu sinni. Þetta er svo stórt brot, að landstjórnin hefði átt að draga af styrk til félagsins og verja til skaðabóta handa Austur-Skaftfellingum. Mér er kunnugt um, að sýslubúar mínir hafa gert reikninga fyrir skaða þeim hinum beina, er þeir hafa orðið fyrir út af svikum gufuskipafélagsins í fyrra sumar, og sent þá reikninga til stjórnarráðsins, og mér er kunnugt um, að Sameinaða gufuskipafélagið hefir neitað að borga þá reikninga, og býst eg ekki við að hægt sé að þvinga það til að greiða þær skaðabætur.

En mér finst spursmál um það, hvort ekki ætti að draga af félaginu dálítinn styrk, og láta Austur-Skaftfellinga fá hann í notum þess, að félagið rauf sínar áætlanir þar í fyrra.

Eg gat um það hér að framan, að nú væri nýtt tilboð komið frá félaginu, þar sem það gefur kost á sérstökum bát, þriðja bátnum á hinar lakari hafnir sunnanlands frá Reykjavík til Fáskrúðsfjarðar. Þetta mun framkomið út af fyrirspurn, er eg í samgöngumálanefndinni lagði fyrir erindreka hins sameinaða um þetta efni. Hann tók því ekki ólíklega þar, en bjóst við að styrkur til félagsins yrði þá að hækka um 20 þús. kr.

Fjárlaganefndin hefir nú tekið þá hækkun upp, og ef það við atkvæðagreiðsluna verður samþykkt, gæti eg tekið mína tillögu aftur, því þá er því slegið föstu, að hvaða félag sem samið er við, sé skylt að halda uppi sérstökum 3. strandbátnum minni en hinum, og hentugum á hinar lakari hafnir, til að annast strandferðir frá Reykjavík til Hornafjarðar og til suðurfjarðanna á Austfjörðum. En ef samið verður við Sameinaða félagið um þetta, þarf vel að vera búið um hnútana, þannig, að það geti ekki leyft sér að láta bátinn fara fram hjá höfnum í Austur-Skaftafellssýslu.