29.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 483 í B-deild Alþingistíðinda. (1137)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Eggert Pálsson:

Það er ekki viðaukatill. á þgskj. 644, sem eg vildi minnast á. Eg býst ekki við, að till. um brúargerð á Ytri-Rangá eigi meira erindi hér í deildina nú en áður, og skal eg því ekki tala um það efni að þessu sinni, enda er það háttv. þm. allkunnugt orðið. Aftur á móti vildi eg leyfa mér að fara nokkrum orðum um þá breyt.till. fjárlaganefndarinnar, að ætlaðar séu 2,000 kr. til vegagerðar í Fljótshlíðarhr. gegn 3,000 króna framlagi frá hreppnum sjálfum, og því sem ávantar annarsstaðar frá, nefnilega sýslusjóði Rangárvallasýslu og máske eitthvað frá Hvolhreppi. Það hefir verið samþ. hér í deildinni með mörgum atkv., að veita þessum hreppi 5,000 kr. lán, gegn 6% í vöxtu og afborgun á 28 árum. Háttv. Ed. hefir aftur á móti ekki getað fallizt á það, heldur lagt það til, að lánið yrði veitt með 4½ af hundraði í vexti og afborgun á 25 árum. En þannig löguð lántaka mundi verða hreppnum all örðug viðfangs. Hreppurinn þyrfti t. d. þá að borga fyrsta árið 425 kr. í vexti og afborgun at þessu láni. Og þegar þar við bættust 6—7 hundruð kr. sýslusjóðsgjald, útgjöld við barnakenslu, ómagaframfærslu og annað slíkt, þá verður það bert, að hreppurinn, sem er fremur fátækur og fámennur, mundi með svona lagaðri lántöku reisa sér hurðarás um öxl.

Eins og málið því nú liggur fyrir frá háttv. Ed., er hreppnum í raun og veru gert ómögulegt með að nota þessa lánsheimild. Og ef í fyrirtækið væri samt sem áður ráðist, þá mundi betra fyrir hreppinn að leita til veðdeildarinnar, en að neyta slíkrar lánsheimildar, sem stendur í frv.

Háttv. fjárlaganefnd Nd. hefir því breytt þessu, og hefir komið sér saman um að veita hreppnum 2,000 kr. styrk í eitt skifti fyrir öll, en láta lánveitinguna falla niður, í vissri von um að háttv. Ed. geri það ekki að ágreiningsefni.

Eins og sakir nú standa, er mjög ilt að komast áfram um Fljótshlíðarhrepp, þar sem Þverá hefir þar gert og gerir sífelt mikil spjöll, auk annars þau, að brjóta vegatroðninga þá niður, sem á bökkum hennar hafa legið. Það er því afarnauðsynlegt, að hér séu einhverjar umbætur gerðar. Og það er ekki að eins nauðsynlegt fyrir hreppsbúa heldur og fyrir langferðamenn, sem í gegnum sýsluna fara. Því það kemur einatt fyrir, að Þverá má fara á innri vöðum hennar, þó ófær sé á hinum neðri, ef að eins væri um færan veg að ræða inn eða út Hlíðina. Vegur þessi mun kosta um 10,000 kr. samkvæmt áætlun, sem gerð hefir verið. Og þegar á það er litið, þá er sannarlega hér ekki um stórkostlegan styrk að ræða, svo að vænta má að hann fái góðar undirtektir hér hjá háttv. deild. Eg held líka satt að segja — þótt eg geti máske ekki skoðast sem óvilhallur dómari — að Fljótshlíðingar megi reiknast þessa styrks maklegir, því fyrst og fremst er það mikið fé frá þeirra hálfu, sem þeir leggja til þessa fyrirtækis, 3 þús. kr., og þá eiga þeir það ekki síður skilið, þegar þess er gætt, að þeir hafa ráðist í einhverja stærstu samgirðingu hér á landi til varnar túni og engjum fyrir átroðningi, auk þess, að þar mun einna mest vera unnið að sléttun og jarðabótum yfir höfuð. En þótt skiftar kunni að vera skoðanir um verðleika þeirra manna, er nú búa í Fljótshlíðinni, þá munu allir sammála um, að þessi blettur er einn hinn fegursti á landi þessu, og jafnframt frægasti, ef litið er til fyrri tíma.

Hlíðin hefir lagt þjóðinni til tvö ágætis skáld vor, þá Bjarna Thorarensen og Þorst. Erlingsson. Þaðan hljómaði líka hinn snjalli lúður Tómasar Sæmundssonar út til þjóðarinnar. En merkust mun hún þó vera fyrir það, að hún ól þann manninn, er »vildi heldur bíða hel, en horfinn vera fósturjarðar ströndum«, Gunnar á Hliðarenda, hina ágætustu hetju fortíðarinnar, sem enn dregur margan til Fljótshlíðarinnar til þess að kynna sér þar hinar fornhelgu stöðvar. En þótt »flest kunni að vera þaðan dýrðin flúin«, nú orðið, þá vænti eg þó að hinir lifendu megi njóta hinna dauðu í þessu efni, sem hér er um að ræða og deildin taki vel undir þessa litlu styrkveitingu.

Þá vildi eg að eins minnast lítið eitt á breyt.till. fjárlaganefndar um húsabyggingarlán til Björgvins sýslumanns Vigfússonar. Efri deild hefir líka ráðist á þá lánveitingu og fært hana niður í 4000 kr. úr 12000 kr. auk þess að lánskjörum er stórkostlega spilt. Fjárlaganefndin vill nú láta sitja við sama hvað kjörin snertir, en meiri hluti hennar vill veita 6000 kr. í stað 4000 kr. það er hálfa upphæðina, sem áður var. Og þótt það sé hvergi nærri nóg, þá gefur að skilja að það er hægra að bæta við 6 þús. en 4 þús. kr. Og þar sem deildin hefir áður samþ. 12 þús. kr. lánveitingu í þessu skyni þá geri eg mér beztu vonir um, að hún geti fallist á þessa breyt.till. Eg hefi líka ástæðu til að vona, að háttv. Ed. verði því samþ., þar sem það má ætla, að það hafi aðeins verið vaxta- og afborganaskilyrðin, sem henni þóttu ekki sem heppilegust, en ekki upphæðin sjálf.