29.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 486 í B-deild Alþingistíðinda. (1138)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Ráðherra (H. H.):

Eins og kunnugt er voru árið 1904 skipaðir 2 yfirmatsmenn á gæðum fiskifarma, er flytjast skyldu til Spánar og Ítalíu, annar í Reykjavík en hinn á Ísafirði. Sama ár gaf stjórnarráðið út erindisbréf fyrir yfirfiskimatsmennina og fiskimatsmenn, sem aðallega framkvæma matið á fiskinum undir umsjón yfirmatsmannanna. Með þessu var ekki lögð á nein skylda til að láta meta þann fisk, sem fluttur væri út, heldur var útflytjendum í sjálfs vald sett, hvort þeir vildu láta þessa matsmenn meta fisk sinn og gefa vottorð um hann. Matsmenn þessir hafa þó verið mikið notaðir til þess að meta saltfisk til útflutnings, sérstaklega í Reykjavík og annarstaðar við Faxaflóa.

Saltfiskur sá, sem þessir menn höfðu metið, fekk brátt gott álit á Spáni og Ítalíu, og stjórnarráðinu hefir borist erindi frá nokkrum kaupmönnum á Spáni þar sem þeir telja það mjög æskilegt, að öllum saltfiski, sem þangað flyttist, fylgi matsvottorð lögskipaðra yfirmatsmanna. Þótt matsmenn þessir, eins og getið var, hafi verið talsvert mikið notaðir, þá hefir þó undanfarin ár verið flutt eigi alllítið af saltfiski til Spánar og Ítalíu, sem þeir hafa ekki verið látnir meta, sérstaklega frá Ísafirði og öðrum útflutningsstöðum á Vesturlandi. Mun útflytjendum hafa þótt þeir nokkuð strangir í kröfum sínum að því er fyrsta flokks saltfisk snertir, útskipun vörunnar og hleðsluna í útflutningsskipunum. Það verður nú að álíta óheppilegt, að menn geti boðið þar saltfisk á markaðinum sem fyrsta flokks vöru, þó hann sé það ekki í sjálfu sér; það getur kastað rýrð íslenzkan saltfisk í heild sinni og þannig einnig á góðu vöruna. Síðasta alþingi var og einnig þessarar skoðunar. Á fjárlögin 1908 og 1909 setti það inn ákvæði um það, við fjárveitinguna til yfirmatsmannanna, að þegar skip, sem flytja fiskfarma til Spánar og Ítalíu, eru afgreidd frá Reykjavík og Ísafirði, beri lögreglustjóra að sjá um, að vottorð yfirmatsmannsins um gæði vörunnar sé ritað á hleðsluskjöl þeirra, ella rita á þau vottorð sitt um það, að sendandi vörunnar hafi, þrátt fyrir áskorun, neitað að láta yfirmatsmanninn meta gæði hennar. Alþingi samþykti einnig þingsályktun, þar sem það skorar á landstjórnina að leggja fyrir næsta alþingi frumvarp til laga, sem lögbjóði fiskimat á öllum fullverkuðum saltfiski, er flyzt frá Íslandi til Spánar og Ítalíu, svo að engan fisk megi flytja til þessara staða nema lögskipaðir fiskimatsmenn hafi gefið vottorð um gæði hans.

Stjórnarráðið leitaði síðan álits yfirfiskimatsmannanna í Reykjavík og á Ísafirði um það, hvort þeir teldu æskilegt, að matsskyldu þessari væri komið á, og ef svo væri, hvernig þeir teldu, að matinu yrði heppilegast fyrir komið. Þeir mæltu eindregið með því, að matsskyldu væri komið á, eins og þingsályktunin fer fram á, og töldu það fyrirkomulag, sem nú er á matinu í Reykjavík og Ísafirði heppilegast, og töldu þörf á, að bætt væri 3 nýjum yfirfiskimatsmönnum við þá 2, sem nú eru, og hverjum yfirmatsmanni skipað ákveðið svæði af landinu sem umdæmi, en fiskimatsmenn skipaðir á útflutningsstöðunum eftir þörfum. Stjórnarráðið hefir fallist á þetta og er lagafrumvarp þetta samið á þeim grundvelli.

Auk matsstarfanna er yfirfiskimatsmönnunum gjört að skyldu, að hafa annað áríðandi starf á hendi, sem sé að vera ráðunautar almennings að því er fiskverkun og meðferð fiskjar snertir, svo þessi mikilsverða útflutningsvara landsmanna, fiskurinn, geti orðið sem bezt og útgengilegust á markaðinum erlendis og sem mest að skapi kaupendanna. Yfirmatsmönnunum er gjört að skyldu að ferðast um umdæmi sín í þessu skyni.

Um einstök atriði frumvarpsins skírskota eg til hinna prentuðu athugasemda, er því fylgja.

Reynslan sýnir, að ill vara ekki að eins er lítt seljanleg, heldur spillir hún einnig fyrir sölu góðu vörunnar. Kærur frá Spáni hafa aldrei verið tíðari en einmitt síðan að þeir komust upp á það, að fá góða vöru og vottorð, er treysta mátti.

Þetta frumv., ef það yrði að lögum, ætti að geta aukið verðmæti íslenzks saltfisks, og þannig orðið landinu til talsverðs ábata. Eg vil því leyfa mér að mæla sem bezt með frumv., og vona að hin háttv. deild taki því vel og samþykki það.