29.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 494 í B-deild Alþingistíðinda. (1140)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Einar Jónsson:

Eg ætla ekki að vera langorður. Það sem kemur mér til að segja nokkur orð, eru tillögur, sem eg er riðinn við. Rangárbrúin er þekt orð hér í deildinni. Eg ætla að uppfylla það loforð mitt að vera stuttorður, og geta að eins þess í sambandi við þetta, að Rangæingar munu miklu heldur kjósa að leggja sjálfir nokkuð af mörkum til brúarinnar, heldur en bíða enn þá eftir notum hennar, enda þó eg álíti að þeir eigi fulla sanngirniskröfu á brúnni nú strax á landssjóðs kostnað eingöngu. Nú kemur hún fram á fjárlögunum í þeirri umgerð, að ákveðins tillags er krafist frá sýslufélögum. Það þarf ekki annað en líta í vegalögin til þess að sjá og sannfærast um, að ekki var leyfi til að fresta framkvæmd þessa máls til næsta fjárhagstímabils. Í 2. gr. er talað um flutningabraut austur um Hellisheiði, og austur yfir Ytri-Rangá og í 7. gr. er það fram tekið, að landssjóður skuli brúa öll vatnsföll á flutningabrautum, sé það kleyft. Annars er meining vegalaganna eindregið sú, að á flutningabr. séu engar hindranir til fyrir hlaðna vagna, enda koma þær annars ekki að hálfum notum.

Hin háttv. deild ætti að íhuga eða yfirvega, að í sambandi við þessi atriði og vegna þeirra, þá hentar alls ekki að draga þetta mál eins á langinn og gert hefir verið á þessu þingi. Í 10. gr. vegalaganna stendur, að þær flutningabrautir, sem fullgerðar séu, skuli afhenda sýslufélögunum til viðhalds. En það er alls eigi hægt að afhenda sýslunni þessa flutningabraut, fyr en brúin er komin, og verður því að svo stöddu að álíta, að í Rangárvallasýslu sé engin flutningabraut til. Eg mæli því eindregið með því, að þetta verði gert, ekki fyrir það eitt, að mitt kjördæmi á í hlut, heldur af því að mér er kunnugt, að hér er um afarmikla þörf og brýna nauðsyn að ræða, enda mundi eg hafa að slíku stuðlað hvar sem verið hefði á landinu, þar sem eins hefði ástatt verið. Því miður verður það í sögu þessa þings, að menn láta skipa sér hvernig þeir eiga að greiða atkvæði, oft á óforsvaranlegan hátt. Eg veit að eg hefði ef til vill ekki átt að minnast á þessa brú, eða nefna nafn hennar í þetta sinn, enda hygg eg, að þetta verði í síðasta sinn, sem eg geri það.

Eg drep loks að eins með fám orðum á, að eg hafði tvær breyt.till. með höndum, er háttv. Ed. vildi ekki sþ. vegna ókunnugleika, sem sé viðkomandi Þorv. Björnssyni og sýslumanni Björgvin Vigfússyni. Eg er sannfærður um, að viðurkenningarstyrkur til Þorvalds Björnssonar hefir verið feldur í efri deild af vanþekkingu og engu öðru á þessum manni. Eg vona því, að þessi háttv. deild greiði atkv. með þessu máli nú eins og áður. Þó æfi hans sé tekið að halla, er hann þó í ýmsu sama mikilmennið og áður. Gestrisni hans og góðsemi mun margur enn þá fyrir finna; annars lýsi eg

honum í þetta sinn ekki frekar né réttar en eg hefi áður gert og vísa til þess, sem um hann var sagt hér í deildinni um daginn, af þeim háttv. þm., sem hans mintust þá. Háttv. alþingi ætti ekki að sjá eftir þessum krónum til þessa manns, því það er áreiðanlegt, að hann er þeirra vel maklegur.

Þá er það 3. breyt.till. er eg ætlaði að minnast á. Breytingin er í því fólgin, að háttv. Ed. lækkaði lánið til sýslumannsins í Rangárvallasýslu úr 12000 niður í 4000 kr. En svo hefir háttv. fjárlaganefnd Nd. hækkað það aftur upp í 6000 kr., svo að það er nú orðinn helmingur þeirrar fjárhæðar, er upphaflega var beðið um. Eg þekki þörf þessa manns, en að hinu leytinu eru mér vel kunnar kringumstæður hans, og eg þykist geta staðhæft, að hættulaust er að lána honum fjárupphæð þessa, og þó hærri hefði verið. Eg yrði háttv. deild mjög þakklátur, ef hærri upphæð fengist, en þessar 6000 kr., því eins og tekið hefir verið fram, er tryggingin góð frá hans hendi. Eg ætla svo ekki að fara fleiri orðum um þetta að sinni, þar sem eg hygg að mönnum hafi skilist, að hér er um brýna nauðsyn að ræða, og svo enda eg mál mitt með þeirri von, að þingið samþykkti lánveitingu þessa.