29.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 511 í B-deild Alþingistíðinda. (1144)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Sigurður Sigurðsson:

Eg á hér nokkrar breyt.till., sem eg vil fara nokkrum orðum um. Ein þeirra fer fram á, að veittar verði 10,000 kr. fyrra árið til Grímsnesbrautarinnar. Samskonar fjárveiting var samþykt á fjáraukalögunum fyrir 1908 og 1909. Annars var fjárveiting til þessarar brautar tekin upp á fjárlagafrumv. stjórnarinnar og samþykt hér í deildinni. En Ed. þóknaðist að fella hana burtu.

Þessar 10,000 kr., sem veittar eru í fjáraukalögunum, eru alls ónógar til þess að komist verði með veginn austur yfir versta kaflann — hraunin, — sem eru svo að segja ófær yfirferðar vor og haust. Fyrir því hefi eg komið með þessa breyt.till., sem eg vona, að verði samþykt. En fjárlaganefndin hefir sett það skilyrði, til þess að vera með þessu, að eg kæmi með breyt.till. í þá átt, að nema í burtu jafnmikla upphæð af fjárlögunum til þess að fjárhagsjafnvægið ekki raskaðist. Eg hefi því neyðst til, þótt mér hafi fallið það illa, að koma meðal annars með till. um það, að fella burtu 4000 kr. síðara árið af fé því, sem ætlað er til þess að ransaka Flóaáveituna. En um það tjáir ekki að fást, þegar fyrirtæki eiga í hlut, sem alls ekki geta eða mega bíða.

Þá vil eg minnast á þá breyt.till. mína, að færa lánið til Klæðaverksmiðjunnar á Akureyri úr 60 þús. kr. niður í 50 þús. kr. Eg skal sem fæst segja um þessa lánsheimild, en það verð eg að segja, að mér virðist hún mjög svo varhugaverð. En svo hefi eg lagt til, að þessum 10,000 kr. yrði bætt við lánið til kornforðabúranna. Það er eigi ólíklegt, að meira þurfi að lána til þeirra á fjárhagstímabilinu en það, sem áætlað er til þess, og því virðist mér það mjög sanngjarnt, að bætt sé við þá upphæð þessum tíu þúsund kr., sem breyt.till. fer fram á.

Þá hefi eg farið fram á, að veittur verði afborgunarfrestur á láninu til tóvinnuvélanna á Reykjafossi í Ölfusi. Eg hefi áður gert grein fyrir því, af hverju tóvinnuvélafélagið þurfi þessa með, og vona eg, að menn líti með sannsýni á málið og fallist á að vera með þessari tillögu.

En áður en eg lýk máli mínu vil eg leyfa mér að víkja nokkrum orðum að ræðu háttv. 1. þm. S.-Múl. (J. J.). Hann gat þess, að hann að þessu sinni, eins og oftar hefði orðið í minni hluta í nefndinni, og gaf í skyn, eða það mátti lesa það á milli línanna hjá honum, að nefndin hefði skiftst eftir flokkum. En þessu var alls eigi þannig varið. Ef eg man rétt voru flestar breyt.till. nefndarinnar samþ. með miklum atkvæðamun í nefndinni, og voru það ýmist menn úr meiri eða minni hlutanum, sem komu fram með þær. (Jón Jónsson, S.-Múl: Það var oft töluverður ágreiningur). Þegar fjárlögin voru til 2. og 3. umr. studdi hinn háttv. þm. að því, að styrkveitingar til einstakra manna kæmust að og yrðu samþyktar. Greiddi hann flestum þeirra atkv., eftir því, sem eg man bezt. En hvað, sem sagt er nú um þetta, þá vil eg þó fullyrða, að minni hlutinn á sinn fullan þátt í, að skáldastyrkir og orðabókarstyrkir eru jafn rífir og margir, sem raun er á orðin.

Eg sé það á breyt.till. 646, að þeir hafa þar sameinað sig vinirnir, þm. Dal. (B. J.) og 1. þm. Eyf. (H. H.) um hækkun á Ýmsum skáldastyrkjum. En eg skil annars ekki í því kapphlaupi, sem virðist eiga sér stað, að vera stöðugt að hækka styrki til skálda og listamanna, og það er hart, að vér skulum nú ekki geta mætt háttv. Ed. á miðri leið, að því er það snertir, að stryka sem mest út af þessum persónulegu styrkjum.

Annars er hætt við, að mínu áliti, að þessir skáldastyrkir verði til þess, að allir fari að yrkja, og svo auðvitað sækja um skáldastyrk á eftir. Það má einnig óhætt fullyrða, að engin þjóð á jafnmörg skáld og vér Íslendingar í hlutfalli við fólks fjölda. Eg lít enda svo á, að skáldin séu orðin helzt til mörg meðal vor. Og eg fyrir mitt leyti vil ekki, með því að greiða atkvæði með þessum skáldastyrkjum, stuðla að því, að ala þann hugsunarhátt, að allir fari að yrkja og álíti sig vera skáld.