29.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 523 í B-deild Alþingistíðinda. (1152)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Pétur Jónsson:

Eg ætla að eins að svara stuttlega því sem háttv. framsm. (Sk. Th.) sagði um brt. okkar 1. þm. S.-Múl. (J. J.). Þegar í upphafi tók eg það fram, að við hefðum ekki komið með þessar till. af því, að við álitum þessa vegi, sem þar er um að ræða ónauðsynlega, heldur af því að okkur þótti skrítið, að stórfé væri varið til vega, sem landssjóður þarf ekki að kosta, en hinir látnir sitja á hakanum, er honum ber að annast.

Eg hefi sýnt, að hann gufar upp hinn mikli sparnaður, sem gerður er á fé til hinna nauðsynlegri og arðberandi fyrirtækja, og maður veit varla hvað af honum verður. Og það er auðsætt af þessu, að þótt sparað sé fé til alveg nauðsynlegs áframhalds þessara fyrirtækja, þá hafa ársþarfir landsbúsins aldrei verið hækkaðar á neinu þingi jafnmikið og nú, og það eflir ekki sparnaðinn, heldur þvert á móti. —