19.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 539 í B-deild Alþingistíðinda. (1161)

2. mál, fjáraukalög 1908 og 1909

Framsögumaður (Björn Jónsson):

Nefndin hefir lagt til allmikilla breytinga á þessu frumv. Hún hefir lagt til, að færa fjárveitingarnar í því úr 134 þús. niður í rúmar 40 þúsundir. Hún hefir að vísu bætt inn í nokkrum minni háttar fjárupphæðum, en sparnaður yrði þó töluverður, ef tillögur hennar verða samþyktar.

Fyrsta breytingin, sem hún vill að gerð verði, er að fella burt fjárveitingu til miðstöðvarhitunar í pósthúsinu 3000 kr., og er gerð grein fyrir því í nefndarálitinu, hverjar ástæður liggi til þess.

Nefndin fékk elzta og helzta múrara bæjarins til að skoða ofnana í pósthúsinu; hann taldi þá í svo góðu lagi, að ónauðsynlegt væri með öllu, að taka upp miðstöðvarhitun fyrst um sinn. Þar í móti hefir nefndin lagt til, að veita 800 kr. til peningageymsluklefa í pósthúskjallaranum. Póstmeistari var ekki viðstaddur, en fyrsti póstafgreiðslumaður, sem gegnir í fjarveru hans, taldi á því brýna nauðsyn.

Þá hefir nefndin lagt til, að veita 10 þús. kr. til Reykjadalsbrautarinnar; það þykir nauðsynlegt, sem fyrst, að bæta úr torfærum á þeirri leið og brúa ána Laxá. Raunar er þetta að eins fjárveitingarfærsla, því að fé er ætlað til þessa í komandi fjárlögum.

Enn hefir nefndin lagt til, að 11,500 kr. verði veittar til að fullgera Fagradalsbrautina; það er líka færsla, og liggja hinar sömu ástæður til þess, sem sé, að brautirnar verði sem fyrst fullfærar,

Þá hefir nefndin lagt til, að veitt verði til nauðsynlegra umbóta á Holtaveginum, Eyrarbakkabraut, Eyjafjarðarbraut með meiru 15 þús. kr. Það hefir þótt sjálfsagt að gera þessa vegi afhendingarfæra, er landssjóður skilar þeim af sér, enda hefir landsverkfræðingurinn lagt til þessa.

Um Grímsnesbrautina er hið sama að segja, sem um Fagradalsbrautina; það er líka færsla frá fjárlögunum. Annars hefir nefndin tekið upp þá reglu, að hafa sérnefni á vegum og brautum, í stað langrar lýsingar, það er fult svo hentugt.

Meiri hluti nefndarinnar hefir verið því samþykkur að fresta brúargerð á Ytri-Rangá. Stjórnin hafði lagt til, að brúin yrði gerð nú í sumar, vegna þess, að það væri hentara fyrir landsverkfræðinginn.

Þá leggur nefndin til, að burt falli fjárveiting til aðstoðarverkfræðings til undirbúnings járnbrautarlagningar austur. Nefndin leit svo á, að frekara undirbúning þyrfti ekki, en þegar hefir verið hafður, enda mikil tvísýna á því, hvort braut þessi verður lögð bráðlega, t. d. á næstu 10—20 árum.

Nefndin leggur til að fella burt það fé, sem lagt er til að veitt verði til símasambands við Vestmannaeyjar, 34,200 kr. Þótt þetta fyrirtæki sé í rauninni æskilegt, þá er þó ekki bráðnauðsynlegt, að svo mikið fé verði lagt til þessa og mætti því spara það að sinni, enda er naumast nokkurt hérað, sem hefir jafngreiðar samgöngur sem Vestmannaeyjar, bæði hér við landið og önnur lönd. Auk þess hefir komið til tals, að reynt verði að koma á loftskeytasambandi við Eyjarnar, fyrir sama eða jafnvel minna verð; eg veit það óglögt enn þá. En ef svo reyndist gæti orðið að því mikill hagur, því að þá mætti með tímanum koma á sambandi við skipaflota þann, sem hefst við í grend við Vestmannaeyjar, þegar fer að tíðkast að hafa loftskeytaáhöld á skipum, en þess verður líklega ekki langt að bíða úr þessu, og sá floti gæti aftur komist í samband við önnur lönd. Minni hluti nefndarinnar hafði það í móti þessu, að með þessu fengist ekki beint samband milli lands og Eyja. Yrði fyrst að senda skeytin til Reykjavíkur og þaðan austur. En vér hinir héldum því fram, að ef bagi yrði að þessu, þá mætti færa niður gjald þeirra, sem þetta samband notuðu, þannig að þeim yrði jafnódýrt, sem ef sambandið yrði beint. Nefndin símaði til Hamborgar og fékk það skeyti, að henni yrði svarað bréflega. Svo stóð á þessu, að Vilhjálmur Finsen, sem fyrst hefir vakið máls á þessu og nefndin sneri sér til, var ekki heima. Hann er loftskeytamaður á skipi öflugs gufuskipafélags í Hamborg, og var staddur í New-York og verður fram á haust. Kona hans, sem er norsk, skildi ekki skeytið, en sendi það til Kaupmannahafnar til íslenzks manns þar, og þaðan fékk nefndin bréfið. Málið er því að svo stöddu ekki útkljáð, og er ekki efamál, að réttast verður að fresta símalagningunni.

Sími frá Ísafirði til Bolungarvíkur kostar ekki nema 6 þús. kr. Nefndin felst á, að til þess verði veitt fé í fjáraukalögum, til þess að hann megi leggja á þessu sumri. Bolungarvík er nú orðin svo stórt kauptún.

Stjórnin stingur upp á 1000 kr. til bókakaupa handa lagaskólanum. — Nefndin lítur svo á, að þess sé engin þörf. Hún hefir kynt sér, hvað ráðgert er að kaupa fyrir það fé, og virðist engin nauðsyn á að fara þar fram úr hinni föstu fjárveitingu (í þ. á. fjárlögum). Alþingistíðindi og Stjórnartíðindi getur landssjóður lagt skólanum ókeypis, og af »De danske Lovtidende« er til aukaeintak í stjórnarráðinu, sem skólinn getur sjálfsagt fengið.

Við alla aðra skóla hér á landi leggja bæði kennarar og nemendur sér sjálfir til kenslubækur. Óviðfeldið að vera að kaupa smákver af því tagi fyrir landssjóðsfé, eins og hér er ráðgert (af forstöðumanni lagaskólans).

Til brúar á Gríshólsá hefir nefndin viljað veita fé það, er um er sótt og einnig til bryggjunnar í Stykkishólmi, sökum þess að þar hefir áður verið varið til allmiklu fé, sem ekki kemur að notum, ef bryggjan kemst ekki upp.

Nefndinni finst ekki brýn þörf á að hækka laun dyravarðarins við bókhlöðuna nýju á þessu ári. Hyggur það megi bíða til næsta árs.

Þá leggur nefndin til að Sæmundi lækni Bjarnhéðinssyni verði veittur ferðastyrkur, er nemi 600 kr. til þess að fara til Noregs á alþjóðasamkomu holdsveikrasérfræðinga þar í Björgvin í sumar.

Þá mælir nefndin með fjárveitingu til bryggju á Blönduósi. Einnig með till. frá h. 2. þm. Árn. (S. S.) um að veita 1600 kr. til Eyrarbakkabrautarinnar. Samkvæmt beiðni frá 4 austfirzku þm. vill nefndin veita 4000 kr. til brautargerðar niður að Lagarfljótsbrú, einnig eftirstöðvar af kostnaði við brúna á Jökulsá undan Hákonarstöðum. — Nefndin vill styðja þá till., að veitt sé fé til að mæla skipaleið inn á Gilsfjörð.

Styrk til Jóns Ísleifssonar til verkfræðisnáms getur nefndin ekki mælt með, þar sem nú er enginn verkfræðingaskortur hér hjá oss framar.