19.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 543 í B-deild Alþingistíðinda. (1162)

2. mál, fjáraukalög 1908 og 1909

Ráðherrann (H. H.):

Sparnaðurinn, sem þessi fjárlaganefnd lætur svo mikið yfir, er sannarlega ekki annað en nafnið tómt. Þó að fjárveitingunni til brúarinnar á Ytri-Rangá sé frestað um tíma, þá er það fé enganveginn sparað — og það er öllu fremur ill en góð fjárhagsráðstöfun að skjóta á frest nauðsynjafyrirtækjum, þó að fé sé fyrir hendi, að eins til þess að geta talað um sparnað í svip. Nú er búið fyrir löngu að færa sönnur á, að brúarstæðið, sem stjórnarfrumv. fer fram á, er mjög heppilegt, og eg skil ekki, hvað er að vanbúnaði, að koma þessu fyrirtæki í framkvæmd, sem svo lengi hefir staðið til og verður að gerast. Mér finst algerlega rangt að fella burtu fjárveitinguna til miðstöðvarhitunar í pósthúsinu og á ritsímastöðvunum. Það er brýn þörf að bæta hitunina þar frá því sem nú er, og hitun sú, sem stjórnarfrumv. fer fram á, er hentugust í þeim húsakynnum, sem hér er um að ræða, enda áreiðanlega kostnaðarminna til lengdar, að því er kolaeyðslu snertir.

Þá er breyt.till. um að fella niður fjárveitingu til Vestmannaeyjasímans. Eg skal ekki deila um það, hvoru er ódýrara að koma upp í byrjun loftskeytasambandi eða talsímasambandi við Eyjarnar, en hitt er víst, að árlegur reksturskostnaður er miklu minni við talsímasamband, og auk þess er slíkt samband fólki svo miklu hentugra, heldur en loftskeytasending, að það verður naumast borið saman. Sé talsími lagður geta Vestmanneyingar eða þeir, sem nota símann þar skipst samtölum við allar stöðvar á landinu. En með loftskeytasambandi fæst að eins samband við eina einustu stöð, og það eingöngu fyrir ritsímaskeyti og óvíst þó. Háttv. framsm. (B. J.) gat þess, að fyrirspurn hefði verið gerð til Þýzkalands í þessu efni. Það þykir mér skrítin krókaleið. Betra að fara annaðhvort beint til Marconi-félagsins, eða þá til Poulsens-félagsins danska, því að þeirra tæki eru alveg vafalaust bezt, og tæki annara félaga meira eða minna stæling af þeirra, sérstaklega tækjum Marconi-félagsins.

Hvað sem öðru líður hygg eg að hinn háttv. frsm. (B. J.) verði að játa það, að starfræksla við þráðlausa firðritun er miklu dýrari en við ritsímasamband. Við hverja loftskeytastöð þarf einn aðalmann og helzt annan til sem aðstoðarmann, sem þurfa að hafa fengið allmikla sérþekkingu í þeim efnum, en símastöðvar úti um land geta ólærðir alþýðumenn rækt og þykir vel duga. Þráðlausar höfuðstöðvar, sem ætlaðar eru til skeytasendinga langar leiðir, eru afarerfiðar viðfangs og þurfa oft viðgerða. Eg hefi séð tilraunastöð Poulsens við Lyngby. Þar eru þrjár heljarstórar stengur eða möstur, eða réttara sagt, möstur á möstrum ofan, svo há, að stálstrengirnir, sem ganga í allar áttir út frá þeim á ýmsum hæðum til þess að halda þeim uppi, mundu hafa tekið yfir 20—30 dagsláttur. Þrátt fyrir alla þessa strengi, getur þó mjög vel komið fyrir, að stangir þessar fjúki að meira eða minna leyti, og geta viðgerðir vafalaust oft verið erfiðar og seinlegar. Á heimleiðinni sagði ingeniör Poulsen mér allmikið frá loftritun, og sagði hann þá meðal annars hið sama, og eg áður hafði heyrt haft eftir enskum vísindamanni: »Hefði þráðlaus firðritun verið fundin upp fyrst, og menn svo komist upp á að nota þráð, þá hefði það þótt afarmikil framför«. Þegar eg lét í ljós undrun yfir því, að hann, sjálfur uppgötvarinn að einni beztu þráðlausu aðferðinni, skyldi segja þetta, bætti hann við: »Við játum það allir, að sama gagn og sími gerir hún ekki — og líklega aldrei — en hún er góð, þar sem ekki er hægt að koma símum við«. Svona lítur hann á það mál og mun þó enginn efa, að hann er því máli kunnugri en háttv. framsm. (B. J.) og þeir menn, sem hafa viljað berjast fyrir loftritun stað ritsíma hér á landi. Annars má enginn skilja mig svo, að eg hafi á móti því að reyna þráðlausa firðritun hér á landi, þar sem hún er eðlileg og heppilega fyrirkomið. Þannig mundi eg vilja greiða atkvæði með því, að fá þráðlausa stöð á Suðurlandi, sem gæti skipt skeytum við skip á sjó og við stöðvar í Skaftafellssýslum, þar sem þræði verður ekki komið við. En það getur þó varla komið til mála, að setja upp slíka stöð á næstu árum, af þeirri einföldu ástæðu, að hún kemur ekki að tilætluðum notum, fyr en þau skip, sem hingað koma til landsins hafa loftskeytatæki, en það er varla nokkurt af þeim skipum, sem ganga hér við land, sem þau tæki hefir haft, nema herskipin. Þegar þessa er gætt, virðist mér æði ósanngjarnt, að vilja, eins og h. háttv. framsm., svifta Vestmanneyjar talsímasambandi við land, og bíða unz fengið er loftskeytasamband — og það í sambandi við þráðlausa firðritun á skipum — sem fæst hver veit hvenær. Eg er þeirrar skoðunar, að tilraunum með þráðlausa firðritun hér á landi eigi alls ekki að blanda saman við það nauðsynjafyrirtæki fyrir fiskiveiðar vorar og siglingar, að koma Vestmannaeyjum í talsímasamband landsins. Þetta þarf að gerast nú þegar. Kostnaður við símalagningu þangað er áætlaður einar 34 þús. kr. útgjöld fyrir landssjóð, og mjög miklar líkur til að arðurinn af símanum muni þegar á fyrsta ári fyllilega borga renturnar af þeirri upphæð, fyrir utan allan þann óbeina hagnað, sem af símunum leiðir fyrir verzlun, siglingar og fiskiveiðar. Eg vona því, að hin háttv. deild láti ekki upphæð þessa falla burt af fjáraukalögunum, svo að verkið verði þegar byrjað á þessu ári.

Um breyt.till. að því er snertir bókakaup til lagaskólans get eg verið stuttorður. Það getur vel verið, að af bókakaupum þeim, sem um ræðir í skýrslu frá skólanum hefði eitthvað mátt spara. En misskilningur er það, að stjórnarráðið geti lagt skólanum til »Lovtidende«; þó að eitthvert rusl af því sé til, um fram það, sem stjórnarráðið notar sjálft, er það engan veginn »komplet« og þarf að safna því saman og binda inn og ekki víst að það verði ódýrara að taka þetta drasl þar og kaupa það sem vantar en að semja við »antikvar« og fá þau öll í einu. Yfir höfuð er það næsta augljóst, að svona ný stofnun sem lagaskólinn getur ekki komist af án nýrra bóka. Þegar kennararnir semja nýjar kenslubækur þurfa þeir að hafa lagasöfn, dómasöfn auk ýmsra nauðsynlegra »system«-verka, og það því fremur, sem íslenzkri lögfræði hingað til hefir verið lítt gaumur gefinn. Vilji menn yfirleitt leggja nokkra rækt við þennan skóla, verða menn að vilja leggja eitthvað af mörkum til hans, enda er hann að minni hyggju svo þarfur íslenzkri þjóðmenningu, og einn þáttur í sjálfstæðiskröfum vorum, að oss ætti ekki að vaxa það í augum.

Eg skal viðurkenna, að það er ekki sem allra-réttast, að kostnaður til pappírs og annara ritfanga er talinn til útgjalda til bókakaupa; hér er þó að eins að tala um yfirfærslu frá einum lið til annars; réttara að reikna þá upphæð til óvissra útgjalda, en þetta smáræði skiftir engu.

Aðrar breytingar hjá háttv. fjárlaganefnd skal eg ekki fjölyrða um, að svo stöddu.