19.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 549 í B-deild Alþingistíðinda. (1165)

2. mál, fjáraukalög 1908 og 1909

Bjarni Jónsson:

Eg hefi komið með tvær breyt.till., sem nokkru varða. Það er öllum, sem hér sitja, kunnugt, hvernig landslagi er háttað kringum Breiðafjörð, og vita það að þar eru samgöngur mestmegnis á sjó. Sömuleiðis er það kunnugt, að vegurinn inn á Salthólmavík og Króksfjörð er óhreinn af skerjum og grynningum, og að skipstjórar vilja ekki sigla þangað inn, sökum þess að leiðin er ekki mæld. Það er því full nauðsyn, að þessar leiðir verði mældar sem fyrst. Að vísu hefir verið áætlað fé til þess að mæla leiðina inn á Salthólmavík, 4000 kr. á móti ¼ hluta frá héruðum þar í kring, en það var svo lítið að ekki hefir verið hægt að byrja á verkinu. En að þetta sé Saurbæingum áhugamál er víst, enda hafa þeir þar kaupfélag, og ekki um aðrar samgöngur að ræða, því torsótt yrði að leggja braut um alla Skarðsströnd og fyrir Gilsfjarðarbotn. Eg vil því mæla með því að

þingið veitti 10000 kr. sem mun hrökkva langt til að mæla leiðina. Eg hefi látið vera að minnast á ¼ hluta frá héruðunum, af því eg er algerlega á móti, að héruðin leggi til almennra samgangna.

Við 3. umr. mun eg koma með br.-till. um þetta mál. Vona að allir menn sjái, hversu sanngjörn krafa þetta er, þar sem þau héruð eiga hlut að máli, sem öll viðskifti manna á milli eiga að verða á sjó, og það er brýn nauðsyn á þessu, þar sem ekki er hægt í þessum héruðum að bæta samgöngurnar á annan hátt.

Svo hefi eg hér aðra breyt.till. um námsstyrk handa Jóni Ísleifssyni, er stundar rafmagnsnám í Þrándheimi. Hann er gáfaður og duglegur maður og hefir valið sér að nema þetta í Noregi, þar sem staðhættir eru líkastir hér, svo eg held að eg geti með góðri samvizku mælt með þessum litla styrk, einkum þar sem hann ætlar að kynna sér meðferð fossa, og hygg eg það rétt vera hjá honum að hollast sé að stunda þetta nám í Noregi. Hann sækir um 1200 kr. í alt, 600 kr. á fjáraukalögum og 600 kr. fyrra fjárhagsárið. Þetta er svo lítill styrkur, að eg skil ekki að nokkur maður verði á móti því. Enda ekki nokkur vafi á, að maðurinn er þess maklegur, og sýnir það bezt hin góðu meðmæli, er hann hefir. En þótt styrkurinn sé lítill getur hann komið manninum að góðu haldi, því hann er fátækur og á bágt með að leita á náðir annara. Enda mundi styrkurinn miða til þess að hann ynni í landsins þágu.