19.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 561 í B-deild Alþingistíðinda. (1170)

2. mál, fjáraukalög 1908 og 1909

Einar Jónsson:

Hér hefir komið fram sitt hvað, sem eg get ómögulega látið vera að minnast á.

Þó er það sérstaklega meðferð hins háttv. meiri hluta á Rangárbrúarmálinu og Vestmanneyjasímanum, sem hefir vakið undrun mína, meðfram vegna þess, hve miklu eg er kunnugri staðháttum þar, en flestir þeir er nú hafa talað í málinu. Þótt nú Rangárbrúin verði ekki beint feld, er það þó héraðsmönnum mjög bagalegt, ef framkvæmdirnar á þessu afarnauðsynlega velferðarmáli dragast á langinn. Það var augljóst, að þar sem háttv. frsm. (B. J.) sagði að áin væri tært og lygnt bergvatn með sléttum og góðum botni, þá talaði hann af miklum ókunnugleik. Því botninn er einmitt slæmur sandbotn, með hvössum staksteinum og einatt vex áin svo, að hún verður kolmórauð með flugstraumi. Kemur þetta sér því ver, þar sem menn eru neyddir til að aka kerrum yfir um ána, sem þó er hin versta og grimdarlegasta meðferð á hestum þeim, er fyrir vagnana er beitt.

Það er á allra vitorði, að þetta brúarmál hefir verið lengi á dagskrá hér á alþingi, og Rangæingum hefir beinlínis verið lofað brúnni og því ekki undarlegt þótt þeim sárni, ef þetta dregst enn lengur.

Eftir skýrslu verkfræðings landsins er engin brúarbygging á næsta sumri, og væri þá sannarlega tími til að framkvæma þetta margumrædda nauðsynjamál. Eg vona að hið háttv. þing athugi vandlega þær upplýsingar, sem nú eru komnar í máli þessu, áður en það gerir nokkuð til að tefja fyrir jafn sjálfsögðu fyrirtæki.

Eg get naumast ímyndað mér að mörgum geti blandast hugur um, að það er mjög áríðandi að Vestmannaeyjasíminn komist sem fyrst á. Það er hin mesta nauðsyn, sem nú þegar kallar að og það ekki einungis Vestmannaeyja vegna, heldur vegna landsmanna í heild sinni, vegna þeirra mörgu, sem mundu hafa stórkostlegan hag af því að síminn kæmist á. Vestmanneyingar eru ekki mjög margir, en þeir eru dugandi menn og líklega mestir sjósóknarmenn af landsmönnum. — Framleiðslan er því miklu meiri en búast mætti við eftir fólksfjöldanum. Já, eg vík að því aftur. Nauðsyn á símanum er mikil. Eins og kunnugt er, er mjög mikið, já meiri hlutinn af þeim fiski, sem sunnlenzku fiskiskipin fá, tekinn suður undir Vestmannaeyjum og hve mikið gagn er það ekki útgerðarmönnunum að fá daglegar fregnir um fiskigönguna, hvar fiskur sé mestur þá og þá, sem og að fá vitneskju um hvernig skipum þeirra gangi og geti hagað öllu eftir því sem þörfin krefur í þann og þann svipinn. Eg skal svo ekki fjölyrða um málið en vona að flestir þm. sjái og finni, hve nauðsynlegt þetta sé og muni ekki greiða atkv. með að fresta málinu og því síður fella það með öllu.