19.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 568 í B-deild Alþingistíðinda. (1175)

2. mál, fjáraukalög 1908 og 1909

Eggert Pálsson:

Eg skal ekki vera langorður, en eg get ekki látið það vera ómótmælt, sem háttv. framsm. (B. J.) sagði um Rangárbrúna; maður skyldi halda það vera af ókunnugleika talað, en ekki öðru verra, sem hann sagði um það mál. Hann sagði, að það væri »luxus« að fara að brúa Rangá; sjálfur hefir hann þó fallist á að brúa Laxá í Húnavatnssýslu, smá-á, sannkallaða sprænu, eða öllu heldur lagt það til, svo að það getur ekki álitist að hann telji það vera »lúxus«. En er nokkur samkvæmi í þessu? Svo gagnókunnugur málavöxtum, sem orðin benda til, getur hinn háttv. framsm. (B. J.) tæplega verið. Mér er kunnugt um, að hann hefir farið yfir Rangá og eg veit, að grynnra getur hann ekki hafa komist yfir hana en á miðjar síður, þó þerritíð hafi verið. Og á hina hlið þykir mér ekki ólíklegt, að hann hafi einnig einhvern tíma farið yfir Laxá og honum hafi því ekki getað dulist hinn mikli mismunur, sem hér er á.

Reyndar kemur mér það ekki á óvart, þótt hann bregðist ókunnuglega við þessu, því að hann hirti ekki um að heyra ástæðurnar, er eg bar fram áðan — hann hefir alloft þann sið, eða öllu heldur ósið, bæði á þingi og annarsstaðar, að hlaupa út, þegar einhverju er andmælt af öfgum hans, eða einhver rök færð fyrir því, sem honum ekki geðjast að. (Björn Jónsson: Hefi heyrt þær ástæður tíu sinnum áður!)

Þá þótti háttv. framsm. (B. J.) réttara að Rangæingar æsktu þess, að heilsuhælið væri stutt með fé landssjóðs heldur en að verja fé til brúargerðar á Ytri-Rangá. Hvað þetta atriði snertir, þá get eg sagt það, að ekki eru Rangæingar svo nærsýnir, að þeir ekki óski eftir, að berklaveikisheilsuhælið sé styrkt af landssjóði eftir föngum. Eg sagði nærsýnir, af því að eg veit ekki til, að meira sé uni þá veiki þar en víða annarsstaðar á landinu, heldur þvert á móti. En hitt mun þeim óskiljanlegt reynast, hvers vegna þeir einir eigi sérstaklega að leggja alt í sölurnar fyrir þessa stofnun. Og væri þeim það ljóst, að annaðhvort yrði endilega að sitja á hakanum í bráð, Rangárbrúin eða heilsuhælið, álít eg að þeir hafi fullgilda ástæðu til að kjósa hið síðara.

Þá talaði háttv. framsm. (B. J.) um það, að ágreiningur væri enn um brúarstæðið, en þetta er alls ekki á rökum bygt. Það kann að vera að eins einn maður eða svo fyrir austan Rangá, sem vill hafa brúna á neðri staðnum. Og sé um ágreining talað í þessum efnum, þá er öllum vitanlegt, hvaðan sú alda er runnin. Ef brúin væri sett þar — á neðra staðnum — þá gæti eg tekið undir með framsm. (B. J.) og játað að það væri réttnefndur »lúxus«; þar hefðu að eins fáir fult gagn af henni, 1 maður eða 2 fyrir austan ána, og 10—20 bæir fyrir vestan, er kirkju sækja að Odda. Til flutninga yrði hún ekki notuð að fullu þar. Og eg ímynda mér því, að Rangæingar sem fyrir austan ána búa, tækju því ekki með neinum þökkum, et brúin yrði höfð þar. Um þá er búa utan Rangár er líkt að segja: þeir eru flestir hlyntir því að brúin sé á efra staðnum, því þar hafa þeir hennar meiri not.

Eg hefi áður, ásamt 2. þm. Rangv. (E. J.), gert grein fyrir þessu nauðsynjamáli. En eg get enn þá bent á það, að þegar þarf að flytja yfir ána, þá verða menn að leggja borð eða fjalir ofan á vagnkassann, og hrúga svo flutningnum þar ofan á, til þess að komast með hann þurran og óskemdan, og mun öllum ljóst, hvílíkum örðugleikum slíkt er bundið, ekki að eins fyrir mennina, sem við það fást, heldur líka skepnurnar. Veit eg að háttv. framsm. er svo mikill dýravinur, að honum mundi ofbjóða sú meðferð á skepnum, sem þar verður að hafa, verður segi eg, því nauðsyn brýtur lög; annað er ekki hægt, meðan engin er brúin.

Skal eg svo ekki fjölyrða um þetta frekar; málið mun hvort sem er vera nægilega búið undir atkvæði — og fer þá um það sem fara vill.