19.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 572 í B-deild Alþingistíðinda. (1177)

2. mál, fjáraukalög 1908 og 1909

Pétur Jónsson:

Eg hefi ekki ætlað mér að lengja fjárlagaumræðurnar, hvorki nú að þessu sinni né síðar. Það er víða komist þannig að orði í nefndaráliti nefndarinnar, að meiri hlutinn var með þessu, eða hinu, og er þetta rétt. En sá meiri hluti hefir verið ýmislega samsettur, eins og gengur, og hefir eigi farið eftir flokkum alstaðar. Þess er þó ekki ætíð getið, þegar nefndin hefir verið tvískift. En það getur auðvitað komið fram við atkv.gr.

Tvö stór atriði eru það, sem ágreiningur hefir orðið um í nefndinni, en það er Rangárbrúin og Vestmannaeyjasíminn.

Það hefir verið rætt nóg um þetta hvorttveggja, en eg vil að eins skýra fyrir mönnum afstöðu mína við atkvæðagreiðsluna.

Háttv. framsm. (B. J.) kastaði fram þeirri spurningu, hvort minni hlutinn á þingi ætti að vera bundinn við það, þegar hann kæmi næst til valda, sem meiri hlutinn hefði gert eða ákveðið næst á undan. En viðvíkjandi fjármálum skal eg geta þess, að slík skifting hefir aldrei komið fram í fjármálum. Það yrði í fyrsta sinni nú, ef slíkt yrði; eg býst reyndar ekki við því, en það er alveg nýtt, ef svo verður.

En eg lít svo á, að alþingi sé skylt að taka til greina það sem síðasta þing hefir skuldbundið sig til að gera, nema sérstakar ástæður séu á móti. Alþingi verður að koma fram sem heild út á við. Ráðherraskifti (systemskifti) geta ekki raskað þess konar, ef ekki liggja sérstök atvik til, eða um áhrifamikið stefnumál sé að ræða.