19.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 573 í B-deild Alþingistíðinda. (1178)

2. mál, fjáraukalög 1908 og 1909

Framsögumaður (Björn Jónsson):

Hin síðasta athugasemd háttv. þingm. S.-Þing. (P. J.) er eg ætla að svara fyrst — var alveg út í bláinn töluð.

Skárra væri það nú, ef slíkt band væri á þinginu, að það teldi sig þannig háð síðasta þingi.

Svo eg snúi mér að aðal-aðfinslunni, þá skal eg geta þess, að mér væri sönn ánægja, að veita þetta, sem um er beðið, og þegar eg nefndi »luxus«, þá lagði eg að eins þá merkingu í það orð, að þetta væri ofviða í samanburði við margt annað, er brýnni nauðsyn bæri til að bæta, þar sem fjárhagurinn auk þess er mjög erfiður.

Það er annars einkennilegur samjöfnuður, að nefna brúna á Laxá (á Húnvetningabrautinni fyrirhuguðu) í sambandi við þetta mál; að líkja 47 þús. kr. við 6 þús. kr.! Laxá er lítil torfæra á braut, sem byrja á nú fyrst að leggja, en hefir dregist 10—15 ár.

Eg get ekki skoðað slíkan samanburð öðru vísi en sem blekkingartilraun.

Háttv. 1. þm. Rang. (E. P.) varð all-heitur út af því, að eg hafði leyft mér að ganga út á meðan á ræðu hans stóð, þótti það víst ganga glæpi næst, að hafa ekki hlýtt á hina löngu og snjöllu ræðu hans, — og þá auðvitað látið sannfærast.

En mér finst það nú í rauninni vorkunnarmál, þótt menn leiði hjá sér, að hlusta á það í 11. skiftið, sem að heyrst hefir 10 sinnum áður, þetta, sem búið er að margþvæla, bæði í fjárlaganefnd og þar fyrir utan.

Þess gat hann einnig, að allir Rangæingar — fyrir austan Rangá — nema einn maður, vildu hafa brúna á efra staðnum. En eftir því, sem mér hefir verið sagt, þá munu menn þar skiftast yfirleitt í tvo flokka í þessu máli. — En það get eg sagt, að eg mundi auðvitað hallast að því, að brúin yrði þar sem betur hentaði, enda þótt það kostaði meira fé, og fer fjarri því, að sú hugsun manna sé ámælisverð, það er ekki nema eðlilegt og rétt.

Þá sagði 2. þm. S.-M. (J. Ó.) að eg hefði ámælt stjórninni fyrir að gera það, sem eg hefði mælt með sjálfur áður, þ. e. Rangárbrúnni, og taldi það vera kynleg veðrabrigði. Hann mun eiga við greinina eða greinarnar um misrétti við Rangæinga, sem stóðu í blaði mínu í fyrra vetur, er hann virðist vilja eigna mér sjálfum, þótt vel viti hann, að eg átti engan staf í henni. Undir henni stóðu margir tugir rangæskra bænda (kjósenda), enda samin þar eystra. — Greinin eða greinarnar stóðu líka í 2—3 öðrum blöðum.

Þar sem eg í annan stað mintis á heilsuhælið, — þá var það að eins samanburðar-dæmi og ekki annað. — Eg lít svo á, að ef um tvö nauðsynja fyrirtæki er að tefla, þá eigi að meta það mest, er brýnust þörfin er á — þótt bezt væri, að geta sint hvorutveggja.

Um Vestmannaeyja sambandið var það sagt, að nauðsynlegt væri að leggja sæsíma, það væri landinu nauðsynjamál í heild sinni, og mætti enginn frestur verða á því verki.

Eg held nú samt, að hér horfi þetta öfugt við: Mundi ekki meira gagn að því, að fá samband við allan skipaflotann nærri Eyjunum, og þá um leið við önnur lönd; mundi það ekki drjúgum auka tekjur landssjóðs?

Má ekki miða við það, þótt fá skip hafi nú loftskeytatæki, því þess mun naumast verða langt að bíða. Ættum vér þá að fara að ausa út fé, sem hjá mætti komast?

Eg skil nú ekki annað, en að þessi tvö ágreiningsmál — Rangárbrúin og Vestmannaeyjasíminn — séu orðin svo skýrð og rædd, að þingmenn geti verið orðnir fullráðnir í, hvernig þeir eigi að greiða atkvæði.

Með þeim 80 þús. kr., er við þetta sparaðist, mætti gera margt og mikið annað, sem meira er í varið; það mætti hjálpa mörgu áleiðis, sem brýn þörf er á.