19.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 575 í B-deild Alþingistíðinda. (1179)

2. mál, fjáraukalög 1908 og 1909

Einar Jónsson:

Eg býst nú við, að menn gangi að því vísu, að það sé Rangárbrúin enn, sem eg ætli að tala um. Eg verð að kannast við það, að svo sé. Mér finst það mjög undarlegt, að menn skuli vera að halda jafnmiklar tölur um mál, sem þeir í öðru orðinu kannast við, að þeir séu ekki nógu kunnugir, — jafnvel þekki ekki neitt.

Það getur enginn kunnugur maður sagt annað eins og það, að þetta fyrirtæki sé til gamans og skemtunar, en ekki verulega til gagns.

Kunnugir vita um tálmanirnar, þeir vita, að á sumrin er oft næstum ómögulegt, að flytja vörur yfir ána, og á vetrum verður oft og tíðum ekki yfir hana komist með nokkru móti. Menn verða þá að liggja við hana, ef til vill dögum saman.

Er nú hægt að segja, að slíkt fyrirtæki og hér ræðir um sé til gamans en ekki gagns, eða ætli menn séu að liggja við ána sér til gamans?

Þetta er sú fjarstæða, sem engu tali tekur, og ekki er eyðandi orðum að.