31.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 581 í B-deild Alþingistíðinda. (1183)

2. mál, fjáraukalög 1908 og 1909

Framsögumaður (Skúli Thoroddsen):

Eg ætla að vera mjög stuttorður. — viðvíkjandi breytingartill., þá var 1500 kr. til Holtavegarins prentvilla í frumv. á að vera 15,000 kr., og hér er því að eins um leiðréttingu prentvillu að ræða. Önnur breyt.till. viðvíkjandi verndun á Eyrarbakkabrautinni fyrir vatnságangi þarfnast engrar útskýringar, þar sem það leiðir af sjálfu sér, að tillag verður að koma annarsstaðar frá, svo að nægi til að fullgera verkið.

Þá er till. fjárlaganefndar um að veittar séu til Elliðaeyjarvitans 700 kr. samkvæmt till. stjórnarráðsins, og hefir verkfræðingur Þorv. Krabbe, sem skoðað hefir vitann, látið í ljósi, að aðgerðin sé bráðnauðsynleg.

Næsta breyt.till. fer fram á að styrkurinn til presta og prestsekkna hækki um 500 kr., og er það gert eftir till. biskups. Fimta till. er um að bæta æfingabekk við kennaraskólann, og ætlaðar til þess 500 kr. Þá er enn till. nefndarinnar, breyt.till. við sömu gr. (4. gr.), að veita Jónasi Jónssyni frá Hriflu 500 kr. til þess að ljúka kennaraprófi, og er svo tilætlast, að hann taki að sér kenslu við æfingabekkinn í kennaraskólanum. — Hefir umsjónarmaður fræðslumála veitt honum beztu meðmæli, og þykir nefndinni því rétt, að hann sé styrktur, svo að hann geti lokið við nám sitt.

Enn fremur hefir nefndin leyft sér, að leggja til, að veittar verði 400 kr., til að gera við Langholts- og Þykkvabæjarklausturskirkjur svo að þær verjist betur fúa, og er þetta gert eftir till. umboðsmannsins í Vík, sem telur það eigi mega dragast. Þá leggur nefndin til, að eftirstöðvar af láni jafnaðarsjóðs Suðuramtsins til viðlagasjóðs, til brúargerðar á Ölfusá falli niður ásamt vöxtum frá 6. sept. 1907, með því að jafnaðarsjóðirnir féllu úr sögunni, er amtsráðin voru lögð niður.

Enn fremur leggur nefndin það til, að stjórninni veitist heimild til að lána byggingarsjóði úr viðlagasjóði 10,400 kr. til lúkningar ógreiddum kostnaði við hitaleiðslu í safnahúsinu til hlutafélagsins »Völundur«, og víkur þessu svo við, að þegar »Völundur« tók að sér að byggja safnhúsið, var gert ráð fyrir að hitaleiðslan myndi að eins kosta um 7 þús. kr. Síðar voru gerðar töluverðar breytingar á fyrirkomulaginu, og varð verk þetta því hlutafélaginu miklu dýrara en áætlað var, er samið var um byggingu safnahússins, og álítum vér því að hlutafélagið eigi fulla heimtingu á þessari upphæð.

Við brt. 2. þm. S.-Múl. (J. Ó.) um fjárveitingu til að kaupa spjaldskrín handa Landsbókasafninu hefir fjárlaganefndin ekkert að athuga, og mun greiða henni atkvæði sitt.

Loks kemur till. um brúargerð á Rangá. Till. um brú á Rangá hefir áður verið feld hér í deildinni, en nú víkur dálítið öðru vísi við, er héraðið býðst til að taka hlutdeild í kostnaðinum. — En þrátt fyrir það, mun þó hætt við, að till. eigi lítils byrs að vænta, þar sem þm. hafa þegar ráðið með sér, hversu þeir eigi að greiða atkv. um málið, og hafa snúizt gegn því við fyrri umr.; öðru máli hefði ef til vill verið að gegna, ef hún hefði komið fram strax. Auk þess er og á það að líta, að Rangæingar bera sinn hlut frá borði, þótt eigi verði af brúargerðinni, þar sem veitt er talsverð fjárupphæð til Holtavegarins.

Finn eg svo eigi ástæðu til að fara fleiri orðum um breyt.till. þær, sem fram hafa komið.