20.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 587 í B-deild Alþingistíðinda. (1191)

2. mál, fjáraukalög 1908 og 1909

Framsögumaður (Skúli Thoroddsen):

Háttv. efri deild hefir gert nokkrar breytingar við frumv. þetta; og skal eg stuttlega minnast hinna helztu.

Hún hefir felt 42,000 kr. til brúargerðar á Ytri-Rangá, og 4000 kr. fjárv. til Lagarfljótsbrúarvegar, 1000 kr. til brúar á Gríshólsá, og 400 kr. til Þykkvabæjar- og Langholtskirkna. Lækkanir þessar nema samtals 47,400 kr.

Þá hefir deildin aftur á móti sett inn ýmsar nýjar fjárveitingar, svo sem 4000 kr. handa Garðari Gíslasyni, til mótorvagnakaupa, 1200 kr. til lagaskólans, 52,700 kr. til þess að kaupa ráðherra bústað.

Að því er nefndar breytingar efri deildar á frumv. snertir, hefir fjárlaganefndin ekki fundið ástæðu til að taka upp að nýju þær fjárveitingar, er efri deild feldi, en getur á hinn bóginn ekki ráðið til þess, að 4 þús. kr. fjárveiting til Garðars Gíslasonar, til mótorvagnskaupa, verði samþykt, þar sem tillagan er mjög óljóst orðuð, og ber það eigi með sér, hvaða ferðir mótorvagninum er ætlað að fara, enda mörgum enn í minni, hversu fór um svipaða fjárveitingu til Thomsens kaupmanns fyrir fáum árum.

Viðvíkjandi breyt.till. háttvirtra þm. Rangv., um brúargerð á Ytri-Rangá, þá hefir nefndin ekki athugað það mál á ný, en eg býst við, að meiri hluti nefndarinnar verði henni mótfallin; vilji eigi halda því máli til streitu við efri deild.

Breyt.till. háttv. þm. Dal. (B. J.) og hæstv. ráðherra (B. J.) er nefndin meðmælt.

Þá er till. frá háttv. 1. þm. G.-K. (B. K.), um að veittar verði 10,000 kr. til viðskiftaráðunauta erlendis. Nefndinni þótti till. heldur óljós, vildi hún yrði betur stíluð, t. d. tekið fram, hvar þeim mönnum væri ætlað að sitja erlendis, og væri því æskilegt, að skýringar fengjust um það atriði, t. d. frá hæstv. ráðherra (B. J.) hafi hann íhugað mál þetta.