29.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 600 í B-deild Alþingistíðinda. (1214)

3. mál, fjáraukalög 1906 og 1907

Framsögumaður (Hálfdan Guðjónsson):

Eg get ekki viðurkent — þrátt fyrir ummæli háttv. 1. þm. Rangv. (E. P.) — að við höfum tekið hörðum höndum á núverandi sýslumanni Rangárvallasýslu. Það getur vel verið, að öðrum sé að kenna þessi skekkja í fyrstu, en seinast er hún þó honum að kenna. Reikningsskekkja sú, er hér veldur ágreiningi er þannig löguð, að hver maður með opin augu hefði getað séð hana, eftir að sýslum. hafði fengið aths. frá stjórnarráðinu, og þá yfirsjón viljum við ekki verðlauna. — Það er líka rangt að ala upp þá hugsun hjá embættismönnum þessa lands, að ekki verði tekið hart á, heldur litið mildum augum á, þótt þeim verði á hinar og þessar yfirsjónir við innheimtuna. Hitt álítum vér réttara, að haft sé strangt eftirlit með embættismönnum landsins og að það komi niður á þeim sjálfum, ef þeim verða á þess konar villur.