29.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 601 í B-deild Alþingistíðinda. (1216)

3. mál, fjáraukalög 1906 og 1907

Eggert Pálsson:

Eg skal fúslega játa, að þessi misgáningur, misskilningur eða misreikningur, eða hvað, sem það á að kalla, sem hér er um að ræða, á ekki rétt til verðlauna, enda fer eg ekki fram á það. Hér er að eins um það að ræða, að ábyrgð sé ekki gerð gildandi, eða refsingu beitt fyrir jafn afsakanlega villu. Það er eðlilegt, að ungur sýslumaður flaski á að önnur regla tíðkast í Skaftafellssýslum en öðrum sýslum landsins. Og þótt endurskoðandi gerði athugasemd um reikninginn, þá gat sýslumaður litið svo á, og gerði líka, að endurskoðandi hefði ekki réttara fyrir sér, en hann sjálfur og það því fremur, sem fyrirrennari hans hafði sýnilega staðið í sömu meiningunni. Það er sem sé athugandi, að það var endurskoðandi en ekki stjórnarráðið, sem athugasemdina gerði. Og sýslumaður hafði þannig ástæðu til að ætla að stjórnarráðið — þegar til úrskurðar kæmi — féllist eins vel á sína skoðun, eins og skoðun endurskoðanda. Þar sem því jafnmiklar afsakanir eru fyrir hendi mundi þingið heldur ekki gefa öðrum embættismönnum undir fótinn að gera rangt, þótt það sýndi tilhliðrunarsemi í þessu máli. Það mundi engin áhrif hafa á aðra

embættismenn framvegis, eins og háttv. 1. þm. Húnv. (H. G.) virtist óttast. Þótt strangleika væri hér beitt, mundi það ekki koma framvegis í veg fyrir vangá, sem öllum ber saman um, að hér sé einungis um að ræða, því vangá verður aldrei hept, hversu miklum refsingum sem beitt er.