29.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 602 í B-deild Alþingistíðinda. (1217)

3. mál, fjáraukalög 1906 og 1907

Framsögumaður (Hálfdan Guðjónsson):

Eg skal ekki teygja umræðurnar um þetta mál, en orð þau, sem hér hafa fallið, hafa ekki getað sannfært mig um að það beri að gefa upphæð þessa eftir. Eg verð að halda því fram, að sýslumanni var, eftir að hann hafði fengið athugasemdirnar frá stjórnarráðinu, engin vorkunn að sjá það rétta. Hefði hann viljað kynna sér þetta betur, hefði hann ekki þurft annað en að líta yfir allmarga reikninga fyrri ára. Þá hlaut honum að geta orðið ljóst, að athugasemdin við reikning hans var á rökum bygð.

Einn sýslumaður hér í deildinni var eins og að gefa í skyn, að þingið ætti ekki að taka hart á, þótt sýslumönnum yrði á aðrar eins ávirðingar. Eg verð að vera á annari skoðun. Eg álít það ekki heppilega aðferð til að vekja ábyrgðartilfinning embættismanna að séð sé svo í gegnum fingur við þá.