03.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 607 í B-deild Alþingistíðinda. (1228)

4. mál, landsreikningurinn 1906-1907

Umboðsmaður ráðherra (Klemens Jónsson):

Eg hefi fyrir stjórnarinnar hönd ekki ástæðu til að fara mörgum orðum um þetta mál. Ræða háttv. framsm. (H. G.) hefir eigi gefið tilefni til þess.

Það hefir þráfaldlega komið fyrir bæði fyr og síðar, að stjórnin hefir alment brýnt fyrir gjaldheimtumönnum landssjóðs, að standa skil á fé landsins í tæka tíð. Þessi áminning er stöðugt ítrekuð. En geri einhver gjaldheimtumaður sérstaklega sig sekan í vanskilum, þá er hann víttur fyrir það. Þessum hætti mun landstjórnin vafalaust halda áfram.

Viðvíkjandi skólanum á Akureyri, þá mun stjórnin vafalaust fara eftir bendingu nefndarinnar um allan aukakostnað, en þar sem nefndin heldur því fram, að reikninga skólans eigi að borga í hvert sinn sem þeir falla til, en ekki megi ávísa skólastjóra vissa upphæð í því skyni fyrirfram, þá get eg eigi verið nefndinni samdóma; þetta getur átt sér stað í Reykjavík og þar í grend, en á stöðum langt í burtu, má ekki búast við, að menn bíði eftir borgun, þangað til hún getur komið héðan, og það er engin von til, að skólastjóri geti lagt út úr sínum eigin vasa til að borga ýms útgjöld skólans. eg álít því að óhjákvæmilegt sé að halda þeirri venju, sem haldist hefir, eftir því sem eg frekast veit, frá því skólinn var stofnaður.

Hv. nefnd heldur því fram, út af landsbókasafninu, að eigi megi verja því fé sem sparast á einum undirlið til annara gjalda til sömu stofnunar. Þetta hefir þó altaf hingað til verið álitið leyfilegt, og ekki þótt ástæða til að leita aukafjárveitingar, ef ekki er farið fram úr upphæðinni í heild sinni sem veitt er. Þetta hefir verið svo um landsbókasafnið, landsskjalasafnið og forngripasafnið, skólana o. s. frv. Og mér finst það alveg eðlilegt. Það er öll upphæðin, sem ekki má yfir stíga, en sundurliðunin er aðeins til leiðbeiningar. Þetta er líka í fullu samræmi við stefnu þessa þings, þar sem það fellir burtu sundurgreiningu á því fé, sem veitt er til spítalanna á Laugarnesi og Kleppi, og verður þó vissulega þar að taka til leiðbeiningar einstaka liði við hagnýting heildarinnar.

Þá vildi eg minnast lítið eitt á skipið »Sea Gull«. Það er þegar búið að borga upp í lán til þess skips liðugar 3000 kr.; en óvíst hvað enn fæst. Eigandi þess gagnvart stjórninni dó síðastliðið vor, ekkja hans sat fyrst í óskiftu búi, en framseldi það síðan til skifta, þegar landssjóður var búinn að fá landsyfirréttardóm fyrir kröfu sinni út af skipinu. Búið er sennilega þrotabú, svo að það er sennilegt, að landssjóður tapi einhverju. En þó það ekki skyldi verða í þetta skifti, þá skal eg þó benda þinginu á það, að það er fyrirsjáanlegt, að landssjóður verður fyrir miklu tapi af lánum til fiskiskipa, eins og þeim atvinnuveg er nú komið. En á þessu á þingið sjálft aðalsökina, því það stafar af þeim ákvæðum, að taka megi veð í skipunum sjálfum, og að lánið skuli vera afborganalaust 5 fyrstu árin eða svo. Þegar þessi ár eru liðin, þá eru sum skipin — aðkeyptir gamlir dallar — orðin því nær ónýt, eigendur standa ekki í skilum, skipin eru seld á uppboði fyrir sama sem ekkert.

Þetta hefir reynslan þegar sýnt, og eg bendi á þetta til þess að þingið geti tekið í taumana, ef því lízt. Annars má frá öðru sjónarmiði skoða þetta sem styrk til sjávarútvegsins, og þá er hann sannarlega ekki hár í samanburði við allar þær geysiupphæðir, sem búið er að verja til landbúnaðarins.