23.02.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 630 í B-deild Alþingistíðinda. (1235)

87. mál, vantraust á ráðherra

Jón Magnússon:

Eg get ekki stilt mig um að minnast lítið eitt á búning þingsál.till. Mér virðist hún vera óþarflega ókurteislega orðuð, með öðrum orðum: óþinglega orðuð. Eg á þar sérstaklega við orðið »vítaverðar«. Það var hreinn óþarfi, að hafa það orð, sem er mjög móðgandi, hvað svo sem háttv. aðalflutnm. till. segir um það. Auðvitað skaðar það á engan hátt hæstv. ráðh. né heldur flokk þann, er eg heyri til, þótt háttv. meiri hluti skeyti eigi þeirri kurteisisskyldu, sem þingið á heimting á, að gætt sé að minsta kosti í skjölum þeim, er lögð eru fyrir þingið til samþyktar. Þvert á móti. En mér þykir það leitt þingsins vegna, fordæmisins vegna, að eigi skuli hér gætt þinglegs velsæmis, og það er heimskulegt af hinum háttv. meiri hluta, að taka upp svona sið, því að hann á nú að fara að taka á sig ábyrgðina, og er alls eigi víst, að öllum líki allar gerðir hans, eða þess manns úr þeim flokki, er ráðherra verður.

Og svo er till. klaufalega orðuð, svo klaufalega, að furðulegt er, því að það er þó vitanlegt, að í háttv. meiri hluta eru þó nokkrir allvel ritfærir menn. Till. telur nefnilega nauðsynlegt, að ráðh. fari frá, vegna samvinnu hans við þingið.

Þetta er auðvitað rugl. Hugsunin er vitanlega sú, að meiri hlutinn skorar á ráðherrann að beiðast lausnar vegna þess, að hann geti ekki unnið með þinginu.

Hvað innihald till. annars snertir, þá er það aðallega eitt atriði, sem eg vildi minnast á og eigi snertir einungis hv. ráðh., heldur og oss alla 6 íslenzku nefndarmennina í millilandanefndinni, og þann flokk, er eg telst til. Það er ásökunin um, að ráðh. sé að berjast fyrir því, að »lögfesta« Ísland í danska ríkinu. Við þetta orð »lögfesta« er nú fyrst að athuga, að það er hér haft í rangri merkingu; þýðing þess er alt önnur en háttv. tillögumenn vilja láta í það leggja hér. Orðið »lögfesta«, »festa lög fyrir«, þýðir, næst þeirri merkingu, er hér ætti að vera í því: að leggja lögbann fyrir. Í þeirri merkingu hefir það verið haft bæði að fornu og nýju, en hefir aldrei í réttu máli þýtt það, er eg býst við að tillögumennirnir ætlist til, nefnilega, að »festa Ísland með lögum í danska ríkinu«.

En þegar þá er að ræða um það, hvort sambandslagafrumv. geri heldur að binda það, sem áður var laust, eða leysa það, sem áður var bundið, þá verðum vér að gera oss glögga grein fyrir því, hvernig aðstaða Íslands er nú gagnvart Danmörku, með öðrum orðum, hvernig sambandið milli landanna er nú. Eg hygg að það sé í rauninni óþarft, að fara mjög langt aftur í tímann, til þess að komast að raun um þetta, né rita eða ræða mikið um það, hvernig skilja eigi Gamla sáttmála. Eg hygg, að vér séum allir, jafnt minni hlutinn sem meiri hlutinn, samdóma um það, að Ísland hafi komið undir Noregskonung sem sérstakt og sjálfstætt ríki, að eins gengið á vald konungs, en ekki gefið sig undir Noregs ríki; enn hygg eg, að minni hlutinn og meiri hlutinn séu ásáttir um að neita því, að nokkur gild breyting hafi á þessu verið gerð, þangað til einveldið hófst. En sú breyting, sem þá varð á (erfðahyllingin 1662) hafði ekki og gat ekki haft nein áhrif á sambandið milli landanna, Íslands og Danmerkur. Um þetta hygg eg að við þurfum eigi að deila hér. Það er fyrst, er kemur fram yfir 1870, að nokkru öðru er að gegna um dóm manna um afstöðuna.

Stöðulögin, eins og þau eru til orðin, gátu útaf fyrir sig eigi orðið gild fyrir Ísland; þau eru valdboðin lög, til orðin án íhlutunar frá Íslands hálfu, enda mótmælti alþingi þeim 1871, og lýsti því yfir, að ríkisþingið hefði brostið heimild til að setja lög þessi án samþykkis Íslands. Hefði nú við það staðið, þá væri auðsætt, að skipun sú, sem stöðulögin gera um sambandið milli landanna, væri ekki gild fyrir Ísland. En svo kemur stjórnarskráin 1874, og hún byggir á stöðulögunum, segir það berum orðum, og móti henni höfum vér tekið, þótt stundum hafi því verið haldið fram, að stjórnarskráin væri í rauninni heldur eigi fyllilega löglega til orðin. Og víst er um það, að alt af síðan 1875 höfum vér í verki og framkvæmd bygt löggjöf vora og stjórn á stjórnarskránni 1874 og skipun þeirri, er stöðulögin setja um sambandið. Þetta kemur í ljós með berum orðum í lögum frá þinginu, og eigi kemur það síður í ljós í baráttunni um endurskoðun stjórnarskrárinnar á árunum 1881—1903. Þá er alt af byggt á þeirri skipun, sem stöðulögin setja um sambandið. Alþ. samþ. 4 eða 5 sinnum á þessu tímabili frv. til endurskoðunar stjórnarskrárinnar, eða endurskoðunar stjórnarskrár, og í öllum þessum frv. er bygt á skipun sammála og sérmála í stöðulögunum. Og þess eru engin merki, að það sé gert af nauðung eða móti vilja þings og þjóðar, heldur þvert á móti, eins og sjá má af ummælum nefndarinnar í stjórnarskrármálinu í Nd. 1891. Þar segir meðal annars svo: — Með leyfi hæstv. forseta að lesa það upp — »Að öðru leyti þykist nefndin mega treysta því, að þetta ákvæði (»konungur eða landstjóri staðfestir«) sé einkar vel fallið til þess að bera órækt vitni um það, að það er ekki tilgangur þjóðarinnar á Íslandi að losast við hið núverandi stjórnarsamband við Danmörku, nema að svo miklu leyti sem það er ósamrýmanlegt við það að landið fái í raun og veru innlenda löggjöf og stjórn í eigin málum, sem viðurkent er með stöðulögunum, að liggi fyrir utan hluttöku hins almenna löggjafarvalds ríkisins«. Undir þetta skrifa meðal annara: Skúli Thoroddsen, Sigurður Stefánsson, Jens Pálsson og Sigurður Gunnarsson. Í fullu samræmi við alt þetta er svo stjórnarskrárbreytingin 1903.

Eg hefi heyrt það sagt á þingmálafundum og víðar nú undanfarið, að allir útlendingar, aðrir en Danir, væru oss Íslendingum samdóma um það, að í rauninni væri ekkert lögmætt samband milli landanna, annað en konungssamband eitt. Þetta er fjarri öllu lagi. Sá maður, sem hefir verið fróðastur allra manna útlendra um þetta mál, Konráð Maurer, samherji Jóns Sigurðssonar í hinni fyrri stjórnarskrárbaráttu vorri, segir beint, að vér höfum gengið að og samþ. stöðulögin og stjórnarskrána 1874, og hinn langfrægasti allra þjóðréttarfræðinga núlifandi, Jellinek, telur stöðu Íslands í sambandinu við Danmörku bygða á stöðulögunum, og kallar að Ísland heyri til þeirrar tegundar, er hann nefnir lönd í ríkisréttarsamböndum.

En hvað sem öðru líður, þá er það alveg ómótmælanlegt, að löggjöf vor og stjórn er í verki bygð á stjórnarskránni 1874 og stöðulögunum. Einn háttv. þm. segir fyrir aftan mig, að stjórnarskráin 1874 hafi verið »oktroyeruð«. Látum svo vera, en um stjórnarskrárbreytinguna 1903 er alls eigi hægt að segja það.

Er vér stöndum nú svo, sem eg áður hefi sagt, þá er það hin mesta fjarstæða að segja, að sambandslagafrv. innlimi Ísland í danska ríkið; þessi staðhæfing háttv. meiri hluta er alveg öfug við hið sanna. Sambandslagafrumv. bindur hvergi neitt, er áður var laust eða óbundið, heldur leysir það alstaðar og í öllum greinum það, er áður var bundið.

Eg skal ekki að þessu sinni fara mikið út í frumv., til þess verður vonandi færi síðar. Nú ætti að nægja að benda á það, að þar sem vér eftir stöðulögunum höfum ráð yfir ákveðnum flokkum mála, og þessi umráð koma þar fram, eins og þau væru veitt svo sem af náð Dana, þá byggir frv. á því, að Ísland eigi ráð allra sinna mála, og að sambandinu sé skipað með samningi milli landanna, af frjálsu fullveldi hvors um sig. Frumv. leysir meðal annars þessi mál, er áður hafa verið í höndum Dana: 1. gæzlu fiskiveiðaréttarins, með öðrum orðum gæzlu landhelginnar; 2. fæðingjaréttinn; nú höfum vér engan íslenzkan fæðingjarétt; vér höfum að eins danskan rétt innborinna manna, og það er viðurkent í íslenzkum lögum; 3. peningasláttuna; það er máske ekki mikilsvarðandi mál í sjálfu sér, en getur haft þýðingu, er dæmt er um sjálfstæði landsins; 4. dómsvaldið er alveg og þegar í stað, ef vill, leyst undan Dönum, og það vona eg að hv. meiri hluti telji ekki lítils virði; 5. kaupfáninn; um hann má segja líkt og um peningasláttuna. Án þess að fara frekara út í þetta, skal eg taka það fram, að eftir væntanlega uppsögn nær sambandið til hermála og utanríkismála einna, auk konungdómsins, — og það er réttast að líta á skipun frumv. eins og hún verður þá, því að hitt er að eins bráðabirgðarástand.

Það er því auðsætt, að innlimunarásökunin er svo fjarri sanni sem frekast má vera, og að það er alveg þvert á móti; sambandslagafrumv. leysir, en bindur ekki, leysir í öllum greinum það, sem áður var bundið.

Um hin önnur atriði í þingsál.till. hirði eg eigi að ræða mikið, enda hefir hæstv. ráðh. svarað þeim, svo að óþarft er við að bæta.

Eg get þó eigi stilt mig um að láta þess getið, að mig furðar á því, að meiri hlutinn skuli nú vera að saka hæstv. ráðherra um ritsímasamninginn eða ritsímamálið; það mál er endilega úrskurðað af alþingi, og núverandi alþingi brestur með öllu heimild til að dæma eða finna að við fyrri alþingi: hvert alþingi er hið æðzta úrskurðarvald í þeim málum, sem fyrir það koma og undir það liggja, og síðara alþingi hefir alls enga heimild til þess að setjast í dómarasæti til þess að dæma þess gerðir, þótt meiri hluti þess alþingis sé annar en hins. Hvert alþingi hefir engan annan dóm yfir sér en dóm sögunnar, og þann dóm þarf ráðherrann ekki að óttast í þessu máli, né meiri hlutinn á hinum síðustu þingum. Annars er það ekki einu sinni satt, að þjóðin sé á móti ritsímanum eða ritsímasamningnum. Þvert á móti. Það sýnir sig bezt á því, að allir vilja nú fá ritsímann heim til sín.

Háttvirtir tillögumenn bera hæstv. ráðherra það á brýn, að hann hafi verið hlutdrægur í embættaveitingum, og bera fyrir sig dóm þjóðarinnar. Hvernig geta tillögumenn fært nokkrar sönnur á, að þjóðin álíti þetta, og hvernig geta þeir einu sinni vitað dóm þjóðarinnar í þessu efni. Það er hin mesta heimska; eg vona, að háttv. forseti fyrirgefi mér, þótt eg noti þetta orð. Það er hin mesta heimska af hinum háttv. meirihl., að koma fram með þessa ásökun. Það er vitanlegt, að varla nokkurntíma er veitt svo embætti eða sýslan, að ekki sé einhver óánægður; einn segir þetta og annar hitt. Annars er þessi ásökun meiri hlutans á als engum rökum bygð, og gersamlega ósönn. Hvað sérstaklega snertir ásökunina um það, að stjórnarráðið hafi verið skipað einungis frá flokkssjónarmiði, þá er sú ásökun vitanlega röng; eg hygg að óhætt megi segja, að ekki hafi fleiri verið teknir í stjórnarráðið at stjórnarflokknum, en af mótflokk ráðherrans. (Sk. Th.: »Eg þekki það«). Ef hinn háttv. þm. þekkir það, þá fer hann vísvitandi með rangt mál. Eg endurtek það, að það er heimska af meiri hlutanum að vera með þessa ásökun, því að það á sérstaklega við um veiting embætta, að enginn lifir svo öllum líki. Nú á meiri hlutinn að fara að taka við völdunum og ábyrgðinni, og það má hann vita, að varla fær hann þann ráðherra, sem gert geti svo öllum líki.

Eg vil svo enda mál mitt með því, að óska þess, að því fordæmi, sem hér er sett í dag, verði eigi fylgt framvegis. Hér hefir verið beitt óþarflega ókurteisri og óþinglegri aðferð, sem eg vona, að ekki verði tekin upp framvegis.