23.02.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 637 í B-deild Alþingistíðinda. (1236)

87. mál, vantraust á ráðherra

Jóhannes Jóhannesson:

Eg býst nú ekki við, að nokkur maður muni vera í vafa um það, hvernig eg muni greiða atkv. Í þessu máli, þar sem tillaga sú, er hér liggur fyrir til umræðu og úrslita, er rökstudd eins og hún er.

Samt sem áður neyðist eg til þess, að gera grein fyrir atkvæði mínu af því, að eg stend nú einn míns liðs í þessari háttv. deild, og get því ekki skírskotað til þess, sem framsm. meiri- og minni hluta hennar hafa tekið fram.

Það er svo langt frá því, að eg hafi getað felt mig við allar ráðstafanir og gerðir hins hæstv. ráðherra, að eg hef alt af, síðan stjórnarskiftin urðu, fylt flokk andstæðinga hans, og á þingunum 1905 og 1907 leyft mér að finna að ýmsum gerðum hans.

Ef samskonar tillaga og hér liggur fyrir, en að sjálfsögðu öðruvísi rökstudd, hefði komið fram á þingunum 1905 og 1907, hefði eg óhikað greitt henni atkvæði.

Þar sem eg nú eigi lengur get fylgst með andstæðingaflokki stjórnarinnar, verð eg að reyna að gera grein fyrir, hvernig á því stendur.

Það stórmerkilega og einstaka, sem hér er að fara fram í þingsögu, ekki einasta þessa lands, heldur og, það eg til veit, í þingsögu allra þjóða, er þá þetta, að ráðherrann er af andstæðingaflokki sínum aðallega sakaður um og honum fundið það til foráttu, að hann hafi snúist yfir á stefnuskrá flokksins í aðalvelferðarmáli þjóðarinnar og leitt það fram til sigurs.

Eg áskil mér og geymi mér rétt til þess, þegar sambandslagafrumv. kemur til umræðu í þessari háttv. deild, að færa svo skýrar sannanir fyrir því, að þeim verði eigi með réttu mótmælt,

og það eigi dulið til lengdar, að það er stefnuskrá andstæðingaflokks þessarar stjórnar, þegar hann gekk lengst, það nefnilega, að gera Ísland að sérstöku ríki með fullræði yfir öllum sínum málum, í málefnasambandi við Danmörku, sem ráðherrann hefir nú snúist yfir á og nú leitt til sigurs, þar sem tilboð um, að breyta stöðu Íslands í þá átt liggur nú á borði þingsins í sambandslagafrumvarpi stjórnarinnar.

Þetta er eigi torvelt að sjá né sanna. Annars vegar liggur sambandslagafrv. fyrir, hins vegar prentuð stefnuskrá flokksins á ýmsum tímum, ávörp, fundarsamþyktir og blaðagreinar, og svo hefi eg í höndum skrifaðar skýrslur frá fulltrúum flokksins um það, hverrar breytinga hann óskaði í þingmannaförinni 1906 og loks umboð það, sem oss fulltrúum flokksins í sambandsnefndinni var gefið á síðasta þingi og eg hef ekki skilið við mig síðan.

Samanburður á þessu öllu gerir það ótvírætt, að eg fer hér með rétt mál, og að það er andstæðingaflokkur stjórnarinnar, sem er hlaupinn frá stefnuskrá sinni í sambandsmálinu; en samanburðurinn tekur nokkurn tíma, og því geymi eg mér hann, þar til málið kemur til umræðu í deildinni.

Svona langt get eg ekki fylgt flokknum, og má hver lá mér sem vill.

Eg hef nefnilega ávalt álitið stefnuskrá flokksins heillavænlega fyrir þetta land, og það voru því meir en lítil vonbrigði fyrir mig, þegar eg sá flesta gamla flokksbræður mína, af mér óskiljanlegum ástæðum, hafna því og lítilsvirða, sem vér skömmu áður höfðum álitið harla gott, en vart gert oss nokkra von um að ná nema eftir langa og harða baráttu.

Og það er svo langt frá því, að eg telji framkomu hins hæstv. ráðherra í sambandsmálinu vítaverða, að það er sannfæring mín, að hann eigi skilið heiður og þökk allra góðra Íslendinga fyrir hana, og að þetta verði viðurkent, er stundir líða fram og hitinn, sem nú er í mönnum rokinn út, og þessi framkoma hans álít eg að geti vegið upp á móti mörgum yfirsjónum.

Því hafði verið haldið fram af andstæðingum ráðherrans, að hann hefði talið Dönum trú um, að vér Íslendingar myndum sætta oss víð lítilfjörlegar breytingar á sambandinu milli landanna og þess getið til, að hann í því máli myndi reka sleitulega réttar Íslands.

En í sambandslaganefndinni varð það oss öllum Íslendingum bert, að ráðherrann hafði aldrei gefið Dönum minstu átyllu til að ætla, að vér mundum sætta oss við minni umbætur en þær, sem andstæðingaflokkur hans hafði krafist, er hann fór lengst í kröfum sínum, og fyrir þeim kröfum beittist hann með þeim gáfum, mælsku og lipurð, sem jafnvel andstæðingar hans játa, að hann hafi til að bera.

Eg veit, að umræður um þetta mál hafa engin áhrif á úrslit þess. Þau eru fyrirfram ákveðin, og skal eg því eigi þreyta deildina á lengri ræðu.

Að eins vildi eg mega segja hinum hæstv. ráðherra, að eg öfunda hann af því, en ann honum þess, að falla á þessu máli, og það er óbifanleg sannfæring mín, að hann fái síðar uppreisn.

Hinum háttvirta meiri hluta vildi eg mega benda á það, að það er þýðingarmikil ákvörðun, sem hann ætlar nú að fara að taka. Ekki af því, að eg telji það lífsskilyrði fyrir þjóðina, að hinn núverandi ráðherra haldi völdunum framvegis, eða það varði svo miklu, hver eftirmaður hans verður, þótt eg geti eigi neitað því, að óviðurkvæmilegt væri að sjá, eg vil ekki segja einhverja hræðu, heldur einhvern liðlétting í sæti Hannesar Hafsteins — en þó gæti svo farið, því skilið gæti eg það, þótt beztu menn flokksins kynokuðu sér við því, að taka nú við forustunni — heldur vegna sambands þess, sem hún er sek í við sambandsmálið, sem vekur kvíða hjá manni fyrir því, að flokkurinn muni eigi bera gæfu til, að leiða það til farsællegra lykta, heldur ef til vill leiða þá ógæfu yfir land vort, sem verri væri en svarti dauði.