23.02.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 654 í B-deild Alþingistíðinda. (1240)

87. mál, vantraust á ráðherra

Bjarni Jónsson:

Eg hefði getað sparað mér að standa upp og tala, ef hæstv. ráðh. hefði ekki vikist undan að svara 1 til 2 atriðum.

Eg er fyllilega samþ. flutnm. till. að ráðh. hefði átt að fara frá þegar í stað, er kosningar voru um garð gengnar. Eg álít að hann hefði átt að beygja sig fyrir kosningunum. Hann sjálfur var og á því máli í sumar. Á ferðum mínum um landið í sumar var mér víða sagt, að hann bæði á fundum og í tali við einstaka menn, hefði sagt, að það væri sjálf kosningin, sem réði úrslitum um það, hvort hann héldi sæti eða ekki. Þetta var líka brúkað á móti mér þannig, að ef kosning færi eftir því sem eg vildi yrði það til þess að ráðh. mundi víkja sæti þegar, en það væri harla mikill skaði að missa svo ágætan mann.

Eg held að sá ráðh., sem barðist svo vel fyrir sínum málstað, hefði átt að sjá hvað verða vildi og fara strax frá, til þess að skapa góða venju, svo að nýr ráðh, gæti tekið til starfa fyrir þing og unnið að undirbúningi mála undir þing.

Það hefði verið betra, ef hæstv. ráðh. hefði hagað sér þannig, og gat verið alls óhræddur fyrir því ámæli, er hann hefði hlotið af því að víkja sæti strax og fara á eftirlaun. Það hefði enginn ásakað hann fyrir það. Sá ábyrgðarhluti hefði horfið skjótt, en hann hefði hlotið þökk mótstöðumanna sinna. Það er ekki hægt að efast um, að mikill meiri hluti þings og þjóðar er gersamlega andvígur hans máli. Eg tel hundraðtölureikninga hæstv. ráðh. ekki svara verða og um hlutfallskosningarnar er það að segja, að það er að byggja á því sem hefði verið, ef eitthvað annað hefði verið.

Hann sagði að stefna vor væri ókunn, en það er lýðum ljóst að vor stefna er stefna Þingvallafundarins, og það er það eitt, sem þjóðin aðhyllist og það hlaut öllum að vera kunnugt, sem ferðuðust um landið í sumar, og honum þá ekki sízt.

Eg get ekki sannfærst um það, að till. vor sé óhæversk eða óþingleg, þar eru hvergi notuð hörð orð. Það eina orð, sem ráðh. og minni hlutinn hefir fett fingur út í, orðið »vítavert«, hefir verið skýrt svo vel við umræður hér í deildinni, og samhljóða þeirri þýðingu, sem það hefir í nútíðarmáli. En það er fjarri því að það sé óviðurkvæmilegt orð, það er mjög meinlaust. Svo hógvært blað sem t. d. Kirkjublaðið notar það um bókmentafélagið.

Hitt er mér kunnugt, að í fornu máli er orðið víti notað, þegar einhver á að gera bætur fyrir yfirsjón, t. d. sama og sektir, þingvíti, og að drekka víti við hirð, borðvíti, en ekki bein refsing. Enginn leggur annað í orðið nú á tímum, en það, sem eg hefi sagt. Ráðherra sagði að þingið ætti ekki að vera dómari, en það hefir engum dottið í hug að lögsækja hann, en leyfist þá kettinum að líta á kónginn og þinginu að finna að við ráðherra. Annað er ekki hér að gert

Eg skal ekki fara út í einstök atriði. Að eins vil eg benda á, að ráðherrann svaraði óbeint og út í hött 2 atriðum. Það hefir enginn haft á móti því, að útlendir vinnumenn væru teknir inn í landið, en hinu hefir verið mótmælt, að borga þeim hærra kaup en innlendum.

Þá vil eg minnast lítið eitt á aukakennarann, sem hefir falið mér að halda svörum uppi fyrir sig. Hæstv. ráðherra fitjaði upp á þessu tali um aukakennarann, því að hann var alveg laus við þetta mál hjá frummælanda, Hann sagði að eins, að annar hefði verið tekinn í hans stað, og fénu varið til hans, alveg heimildarlaust samkvæmt fjárlögunum. Frá mínu sjónarmiði var þetta ekki svo stórt mál, að það yrði valdandi ráðherraskiftum. En hinsvegar er eg ekki hræddur við að halda uppi svörum fyrir aukakennarann, sem þó nokkrir kynnu að halda. Það er öldungis óþarfi fyrir hæstv. ráðherra, að sýna aukakennaranum nokkra vorkunsemi í þessum umræðum, og má hann spara sér með öllu það dánumannsbragð, og þá eigi síður 2. þm. S.-Múl., (J. Ól.), mannorðsvörðurinn. Eg er alveg ósmeikur. En hitt þætti mér gaman að heyra, þær knýjandi ástæður, sem voru til afsetningar aukakennarans, því að þær hefir mér aldrei gefist kostur á að heyra.

Þau atriði, sem 2. þm. S.-Múl. (J. Ól.) gat um, mun eg leiða hjá mér nú, en bíða þangað til sambandsmálið kemur til umræðu. En það er rangt, að h. þm. Barð. (B. J.) hafi viljað binda fyrir munninn á Ed., því að það er einmitt eftir ósk ráðherra, því að honum fórust þannig orð, að honum þætti ekki gaman að byrja á þessu máli á ný á morgun. Eg vona að hæstv. ráðherra leiðrétti, ef eg fer ekki rétt með.

Eg læt svo úttalað að sinni, en álít rétt, að ráðherrann hefði farið frá í haust. Eg skal ekki bera brigður á það, að hann hafi alt gert til þess að auka sjálfstæði Íslands. En íslenzku þjóðinni hefir þó þótt það ráðlegast að vita, hvort ekki mætti það takast að auka það meir en honum gat auðnast.