23.02.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 661 í B-deild Alþingistíðinda. (1243)

87. mál, vantraust á ráðherra

Jón Jónsson, (1. þm. S.-Múl.):

Það er engan veginn undarlegt, að miklar umræður spinnist um þetta mál. Það er alveg nýtt í eðli sínu, og það er í fyrsta sinni, að slíkt kemur fyrir hér. Skal eg ekki fjölyrða um þetta, en skírskota til þess, sem samflokksmenn mínir hafa tilfært í þessu efni; vil eg þar sérstaklega tilnefna þm. Vestm. (J. M.).

Menn hafa í dag verið að tala um fordæmi; það er hverju orði sannara, að það atriði er mjög þýðingarmikið. Og eg verð að láta í ljósi hrygð mína yfir því, að í dag hefir meiri hlutinn á þingi ekki gefið gott fordæmi. Vil eg þar benda á þingsályktunina, sem er óþinglega formuð. Það hefði þó verið sérstök ástæða til að vanda sig á hverju orði.

Auk þess, sem tillagan er bæði óþinglega og klunnalega orðuð — tillögumenn hafa sjálfir orðið að skýra, hvað í orðunum fælist — og draga úr þeim. Þá er það óviðkunnanlegt, að víða í henni skjóta þingmennirnir sér í skjól við veslings þjóðina — og hafa þeir þó engan veginn vissu fyrir vilja hennar í þessu efni.

Þetta lýsir hugleysi, eða ef til vill öllu fremur ógætni þeirra. Eg legg áherzlu á þetta og annað, sem gert hefir verið af hálfu meiri hlutans, og óformlegt hefir verið; tel það afa-róheppilegt vegna fordæmisins.

Það er ekki til neins, að halda því fram, að þjóðin hafi við kosningarnar í haust lagt neinn úrskurð á það, að Ísland sé lögfest í danska ríkinu með frumv. millilandanefndarinnar. Mér er kunnugt um það, svo vel kunnugt, að eg get fullyrt það, að í mörgum kjördæmum, sem eg gæti nefnt, var spurningin alls ekki um það, heldur gerðu þingmannaefni frumvarpsandstæðinga að eins ráð fyrir einhverjum breytingum, einkum til skýringar, og um það, breytingar eða ekki breytingar, snerust kosningarnar einkum, en alls ekki um »innliman« eða lögfesting. Þjóðin hefir ekkert sagt um það við kosningarnar.

Háttv. þingm. Barðstr. (B. J.) gerði lítið úr orðum ráðherra um það, að ef allir kjósendur hefðu fengið notið réttar síns við kosningarnar — fengið fulltrúa í réttu hlutfalli við atkvæði þau er greidd voru — þá mundi litlu muna milli þingflokkanna. Þetta er þó alveg satt, því að þá hefðu frumvarpsmenn orðið 14 þjóðkjörnir og 6 konungkjörnir eða 20 alls. Hefðu frumvarpsandstæðingar þá ekki orðið einu sinni helmingur þingmanna, síðan Seyðisfjarðarkosningin var ónýtt.

Að því er snertir orð h. háttv. þm. um veitingu ráðsmenskunnar við Laugarnesspítalann, þá hefir það verið athugað, og læt eg mér það nægja.

Hinn háttv. 2. þm. Árn. (S. S.) hélt því fram, að landsstjórnin ætti að vera íhaldssöm í fjármálum — frumkvæðið til fjárframlaga væri þá hjá þjóðinni sjálfri, og þingmenn ættu að bera það fram. En þetta er alveg gagnstætt minni skoðun: stjórnin á einmitt að gangast fyrir öllum framfarafyrirtækjum og þingmenn svo draga úr, er þurfa þykir. Fordæmið í þessu efni er í Englandi. Þar mega þingmenn ekki bera fram neinar tillögur, er auki útgjöldin. Stjórnin fer fram á að fá veitt það fé, er hún þykist þurfa, og svo getur þingið dregið úr þeim fjárveitingum eða felt þær eftir vild. Þetta fyrirkomulag hefir gefist mjög vel, og það hefir þann auðsæja kost, að ábyrgðin á ástandi ríkissjóðsins er hjá stjórninni einni, og væri það vafalaust bót, ef slíkt kæmist á hjá oss. En kostur mun verða að fara frekar út í það, þegar stjórnarskrármálið kemur til umræðu.

En eg vil geta þess, að eg tala hér ekki í nafni neins flokks, stóð að eins upp til þess að mæla nokkur orð frá eigin brjósti, og eg vil leyfa mér að koma fram með nokkrar yfirlýsingar og staðhæfingar, er snerta efni það, sem hér er um að ræða. Þessar yfirlýsingar vil eg að standi fyrir minn reikning í þingtíðindunum:

1. Stjórnarfar það, sem við höfum átt að búa við síðustu 5 ár, þessi 5 ár, sem núverandi ráðherra hefir setið að völdum, hefir verið miklu betra, hagfeldara og farsælla en nokkurt annað, á þeim 1030 árum, sem liðin voru frá bygging Íslands 1904.

2. Á sama tíma hafa framfarir í als konar menning verið meiri og skjótari en nokkurn tíma fyr.

3. Núverandi ráðherra, H. H., er, að öllum öðrum ólöstuðum, hæfasti Íslendingurinn, sem nú er uppi, til þess að standa í þessari stöðu til gagns og sóma fyrir Ísland og Íslendinga.

4. Ástæður þær, sem tillagan tekur fram, eru allar rangar og ósannar, bæði í sjálfu sér og sömuleiðis að því, er þær vísa til skoðunar þjóðarinnar.

5. Verk það, sem þingið er að vinna, er óhappaverk.

Eg segi að vísu ekki, að þessi yfirsjón verði ekki bætt, en það er hugboð mitt, að þetta sé að eins einn hlekkur í samanhangandi keðju sams konar verka, og mun eg, þegar sambandslagafrumvarpið kemur til umræðu hér í deildinni, reyna að gera frekari grein fyrir þessum ummælum mínum. En eg hefi sagt þetta nú, til þess að geta sannað síðar, að eg hafi séð fyrir, hvað er í aðsigi.