03.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 367 í B-deild Alþingistíðinda. (125)

6. mál, aðflutningsgjald

Ráðherra (H. H.):

Neðri deild hefir samþykt undanþágu frá þingsköpunum í þessu máli í þeim tilgangi, að því yrði flýtt sem mest, helzt svo að frumvarpið yrði sent til staðfestingar um miðjan marzmánuð. — Það verður ekki hjá því komist, að auka tekjur landsjóðs á einhvern hátt; neðri deild hefir fallist á, að heppilegasta leiðin til þess sé sú, sem hér er farin, og hefir því samþykt frumvarp stjórnarinnar óbreytt með tveim viðaukum. Annar viðaukinn er sá, að bæta við tolli á súrri saft, en hin, að láta lögin verka aftur fyrir sig að því er snertir áfengisdrykki, er flytjast inn eftir 24. febrúar. Þetta síðara ákvæði er til þess, að þeir menn, sem ef til vill hafa flýtt sér að panta sem mestan vínforða, er þeir sáu að frumvarpið var í aðsigi, geti ekki fengið betri kjör en aðrir. — Þó að þetta síðara ákvæði sé að mörgu leyti varhugavert, vil eg þó eftir atvikum ekki vera að hafa á móti því, því vel ann eg landsjóðnum þess, að ná sem mestum tekjum þegar á þessu ári, hvað sem öðru líður.