23.02.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 681 í B-deild Alþingistíðinda. (1252)

87. mál, vantraust á ráðherra

Ráðherrann (H. H.):

Bæði frummælandi og fleiri af hans flokki hafa kent mér um það, hvað umræðurnar hafa orðið langar, alveg eins og það væri eg, sem hefði byrjað þann eltingarleik, sem hér er nú að enda um sinn. Það er ranghermi, að eg hafi sett það sem skilyrði fyrir því að biðjast lausnar, að mér væri gefið rökstutt vantrausts-vottorð. Það máttu þessir herrar gjarnan gera fyrir mér. En eg sagði þeim, er þeir spurðu mig, að málið skyldi mjög auðsótt, að eg skyldi fara, þegar meiri hluti þingsins að eins léti í ljósi, að eg hefði eigi hans fylgi, og að óskað væri stjórnarskiftis; það eru þá þeir, en ekki eg, sem hafa »leitt asnann inn í herbúðirnar«. Það hefir verið of mikið rætt um þetta einfalda mál, og skal eg ekki leitast við, að elta uppi alt það, er sagt hefir verið.

Frummælandi (Sk. Th.) var að reyna, að finna því stað, að eg hefði verið hlutdrægur í embættaveitingum. En eg á ekki að standa honum neinn reikningsskap af því. Hann nefnir að eins þau tilfelli, þar sem flokksmenn mínir hafa fengið einhverjar sýslanir, en gengur fram hjá öllum embættaveitingum og sýslana til stjórnarandstæðinga, sem eru alt eins margar. — Hann hefir ekki borið við, að skýra frá því, hverjir eru umsækjendur í hverju einstöku tilfelli; það er eins og hann gangi út frá því, að allir, sem fylgt hafa flokk meiri hlutans, hefðu af þeirri ástæðu einni átt að vera útilokaðir frá því að koma til greina við allar veitingar opinberra starfa eða viðurkenninga, og hans flokksmenn einir að hafa einkarétt til þess alls. En eg hygg, að það muni þó öllum skynbærum mönnum geta komið saman um, að þeir mennirnir, sem fylt hafa meiri hluta flokkinn síðustu ár — ekki sízt í sambandsmálinu — eru engan veginn eftirbátar hinna í neinu, hvorki menning né ættjarðarást. Þvert á móti má segja með fullri vissu, að þeim megin hefir verið meginþorri beztu manna landsins.

Háttv. flutningsm. (Sk. Th.) talaði um mann, sem vikið hefði verið frá opinberu starfi, án þess hann fengi að vita, hvað honum var gefið að sök. En hér veður hann einberan reyk. Maðurinn vissi þetta ofur vel og var marg ámintur. — Ef nefnd óskar, að sjá þau skjöl, sem að máli þessu lúta, þá getur hún fengið þau.

Frummælandi (Sk. Th.) og þingm. Barðstr. (B. J.) sögðu, að skýrsla mín um kosninga-úrslitin væri röng. Hver sem rannsakar það mál, mun sjá, að hún er rétt í alla staði. Að telja Norður-Ísafjarðarsýslu með var ekki hægt, því þar fór engin atkvæðagreiðsla fram. Eg neita því, að ekki sé þar meira en 4—5 menn, sem mundu hafa greitt atkvæði með frumvarpinu. Eg er þar kunnugur líka, og óhætt þori eg að fullyrða, að ef þar hefði boðið sig fram góður maður gegn hv. flutningsm. (Sk. Th.), þá mundi hann hafa fengið allmörg atkvæði.

Það er varlega gerandi af háttv. flutningsm. (Sk. Th.) að hrósa sér svo mjög af því, að hann hafi alla N.-Ísf. Í vasa sínum. Það getur verið, að honum verði önnur raunin á, áður en lýkur.

Af moldrykinu, sem háttv. þm. Barð. (B. J.) hefir þyrlað upp, vil eg að eins minnast stuttlega á eitt atriði. Það er sögusögn hans um það, hvernig eg hafi átt að beita óleyfilegum meðulum til þess að varna því, að Páll heitinn Briem amtmaður yrði bankastjóri við Íslandsbanka. Í blaði hans »Ísafold« stóð á sínum tíma missögn um þetta atriði, en eg lét það þá eins og vind um eyrun þjóta, eins og annað úr þeirri átt. Nú vil eg mótmæla þessum ósannindum. Eg þykist þess fullviss, að háttv. þm, Barðstr. (B. J.) hafi sagt það er hann sagði í fullkomlega góðri trú. Eg væni hann ekki að því, að hafa hallað máli móti betri vitund í þessu efni, því eg veit að honum var borin röng skýrsla um þetta, og eg veit hver það var, sem ósannindin smíðaði. Það var herra Alexander Warburg, og »Ísafold« mun hafa haft rétt eptir þeim sómamanni. En sannleikurinn var þessi: Rétt áður en eg sigldi í febrúar 1904 til þess að taka við ráðherraembættinu, eptir að landpóstur var farinn af stað norður frá Reykjavík, kom til mín maður — sem eg ekki hirða að nefna hér — með ólokað bréf til mín, og þar með fylgjandi bréf til hr. P. Br., þar sem hann var spurður, hvort hann vildi takast á hendur annað bankastjórastarfið við Íslandsbanka, og eg spurður um mitt álit. En jafnframt var þess getið af þeim, er bréfið flutti að réttara væri að bankastjórarnir væri þrír, og að æskilegt væri að bera þá till. upp við »Consortiið«, sem bankann stofnaði. Með því að póstur var farinn, eins og eg sagði, og næsti póstur átti ekki að leggja af stað frá Reykjavík fyrr en um mánuði síðar, var auðsætt, að bréfið komst eins snemma til Akureyrar, þar sem hr. P. Br. var þá, með því móti, að eg tæki það með til Hafnar, og sendi það til Akureyrar með »Vesta«, sem átti að fara frá Höfn norðan um land fyrst í marz. Það var því hægt, án þess að valda töf, að bera málið undir stofnendurna aftur. Þetta var gert, og samþykkt af þeim í einu hljóði, að bjóða honum 3. bankastjórastöðuna, sem hann og þáði. Þetta er sagan rétt sögð.

Háttv. þm. Barðstr. (B. J.) endurtók að eg hefði brotið lög með veitingu bókarastarfsins við landsbankann. En þar greinir okkur á um skilning laganna, og hans skilningur á þessu atriði þeirra er alveg vafalaust rangur. Orðin »eftir tillögum« þýða víða í lögum vorum sama og »eptir að hafa leitað tillögu«, og sá einn skilningur getur hér staðist. Hér var ágreiningur milli framkvæmdarstjóra bankans annarsvegar, og gæzlustjóranna hins vegar. Gæzlustjórarnir hafa aðeins synjunarrétt, ekki rétt til þess að ákvarða framkvæmdir móti vilja framkvæmdarstjórans, sem ábyrgðina ber. Stjórnarráðið varð að skera úr, og það gerði það, eptir því sem það áleit réttast.

Það er orðið svo framorðið, að eg vil ekki tefja fundinn lengur. Eg þakka háttv. flokksbræðrum mínum, sem talað hafa hér í dag, fyrir öll í þeirra góðu ummæli í minn garð, og alla góða samvinnu og endurtek yfirlýsingu mína um það, að eg mun ekki láta undir höfuð leggjast að beiðast lausnar frá því embætti, sem eg hef haft nú um hríð, ef meiri hluti þingdeildarinnar greiðir atkvæði með þingsályktunartillögunni.