19.02.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 686 í B-deild Alþingistíðinda. (1255)

5. mál, samband Danmerkur og Íslands

Ráðherrann (H. H.):

Það þarf ekki að skýra frá því, hvernig frumv. er til orðið. Texti þess er hinn sami eins og í frumvarpsuppkasti því, sem sambandslaganefndin eða réttara sagt 19/20 hlutar hennar urðu ásáttir um, eftir að hinir dönsku nefndarmenn höfðu með mannúð og velvild slakað til í öllum meginatriðum í óskum og kröfum Íslendinga, eftir því sem ítrast var unt, ef konungssambandið skyldi haldast.

Munurinn er að eins sá, að nú er uppkastið orðið stjórnarfrumv., sem konungurinn lætur leggja fyrir alþingi og ríkisþingið samtímis, og málið er nú endanlega komið úr höndum sambandslaganefndarinnar og hennar manna til þinganna og þeirra nefnda, sem þingin væntanlega setja til þess að íhuga það.

Aðalbreyting frv. frá því sem nú er, er í stuttu máli þessi:

Í stað þess að stjórnarskipun landsins, sú sem nú er í gildi, er bygð á ráðstöfun (delegation) af hálfu hins danska ríkisvalds á löggjöf og stjórn tiltekinna sérmála í óaðskiljanlegum ríkishluta, verður stjórnarskipunin, ef þessi sambandslög verða samþ. eftirleiðis bygð á ráðstöfun Íslands sjálfs, er það gerir sem sérstakt ríki um alla hagi sína, þar á meðal einnig um meðferð þeirra mála, sem í þessu sambandslagafrumv. eru talin sameiginleg og að meira eða minna leyti falin umsjá sambandslandsins fyrir Íslands hönd. Það vald, sem dönsk stjórnarvöld fá til meðferðar í þeim málum, er léð þeim af Íslandi. Þetta kemur og skýrt fram í frumv. því til nýrrar stjórnarskrár fyrir Ísland sem ríki, sem fylgir sambandslagafrumv. frá stjórnarinnar hendi.

Eg álít tilgangslaust fyrir mig að fjölyrða um þetta mál að svo stöddu. En áður en það fer til nefndar þeirrar, sem væntanlega fær það til meðferðar, vil eg nefna nokkur atriði, sem hafa orðið fyrir misskilningi í umr. um málið á undan þingkosningunum í haust, og skýra frá því, hvern skilning höfundar frumv. leggja í þau.

1. Fyrst eru orðin »er eigi verður af hendi látið«, í 1. gr. frumv. Þau hafa verið skilin svo, sem í þeim felist einhver óbein viðurkenning á rétti Dana yfir landinu. Þessi orð eru runnin frá Íslendingum í nefndinni — öllum —, en ekki sett þar eftir ósk dönsku nefndarmannanna. Þau eru tekin eftir sambandslögum Svía og Norðmanna 1814, og tilgangurinn með þeim var að slá því föstu, að Ísland væri ríki, en ekki eign eða hjálenda, sem Danmörk eða Dana konungur sem slíkur gæti ráðstafað. Þetta var sett og samþykt, áður en við fengum framgengt eða vissum, hvort við mundum geta fengið framgengt ýmsum öðrum ákvæðum, sem einnig slá þessu föstu, og merkir að eins frekari áherzlu á orðunum »frjálst og sjálfstætt land«, sem á undan þeim eru.

2. Orðin »veldi Dana konungs« og »det samlede Danske Rige« í danska textanum áttu að vera nýnefni um hið nýja samband milli Danmerkur og Íslands. Tilgangurinn var, að finna annað heiti en hingað til hefir verið notað um Danmörk og Ísland, annað en »den danske Stat«, sem Ísland eftir stöðulögunum á að vera hluti af. Þetta er heiti á hinu nýja ríkjasambandi, en táknar ekki og hefir aldrei átt að tákna neins konar innlimun Íslands í hið danska ríki, heldur þvert á móti. Ef til vill hefði orðið »Monarki« farið betur, en sumir voru á móti því, af því að í því heiti gæti verið sérstök söguleg merking.

3. Orðin í 3. gr. 2. lið: »er snertir Ísland sérstaklega« þýða hið sama eins og þar stæði: »er snerta málefni Íslands, sem ekki er farið með sem sameiginleg mál eftir lögum þessum«; undantekningin nær þannig til allra ríkjasamninga, sem á einhvern hátt koma við mál, sem Ísland sjálft framkvæmir hið æzta vald yfir.

4. Orðið »samþykki« í sama lið þýðir, að íslenzk stjórnarvöld hafi fult synjunarvald, að því er Ísland snertir gagnvart öllum ákvæðum í ríkissamningum, er koma við þessi nýnefndu mál. Það er að eins fyrir máltízku sakir, að orðið »Medvirkning« er notað í danska textanum í þessu sambandi í staðinn fyrir »Samtykke« en þýðir sama. Þetta ákvæði takmarkar svo mjög »delegationina« á meðferð utanríkismálanna, að engan veginn er hægt að segja, að þau séu algerlega sameiginleg.

5. Þar sem stendur í 4. lið 3. gr., að aukning á strandvörnum af Íslands hálfu skuli vera »eftir samkomulagi við Danmörku«, þá á það að eins við hið nánara fyrirkomulag á eftirlitinu. Meðan Danir eftir sambandslögum hafa strandvörzluna á hendi, bera ábyrgð á henni gagnvart öðrum löndum, er nauðsynlegt að samræmi sé í þeim vörnum, er þeir halda uppi fyrir vora hönd og þeim, sem vér gerum út sjálfir. Þetta og ekki annað merkja orðin.

6. Orðið »jafnrétti« í 5. gr. þýðir sama og »sami réttur að öðru jöfnu«, eins og tekið er fram í athugasemdum nefndarinnar við frumv. Það merkir, að þjóðernið út af fyrir sig skuli ekki valda rnisrétti, en að báðir verði að öðru leyti jafnt að fullnægja öllum skilyrðum landslaganna fyrir því, að verða réttindanna aðnjótandi.

7. Ákvæðin í 9. gr. um uppsögn sameiginlegra mála, sem mér fyrir mitt leyti virðast vera full-ljós, merkja, að konungur kveður á um sambandsslit í hinum sameiginlegu málum, sem þar eru nefnd, alt samkvæmt hinni framkomnu tillögu um það, eða, ef bæði alþingi og ríkisþingið gera tillögur um þetta efni, þá samkvæmt þeirri tillögunni, sem lengra fer.

Eftir samkomulagi milli Neergaards forsætisráðherra og mín býst eg við að þjóðþingið hafi sett nefnd í þetta mál, og sé hér sett nefnd í dag geta nefndirnar upp frá þessu með ritsímaskeytum borið sig saman um það, sem vafasamt kann að þykja, og leitað samkomulags, ef svo ber undir,

Eg ætla því ekki að tala um málið frekara að sinni; eg vona fastlega, að það verði af öllum hlutaðeigendum tekið til rólegrar og stillilegrar yfirvegunar, og alt sem að því lýtur athugað með gætni og glöggu auga, án ofurkapps og hleypidóma; vona eg að háttv. meiri hluti muni, að það er ekki að eins á hans valdi, heldur og á hans ábyrgð, hvort landið á að verða aðnjótandi þeirrar stórkostlegu réttarbótar, sem hér er kostur á, eða fara á mis við hana um langan aldur eða að öllu leyti.