19.02.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 689 í B-deild Alþingistíðinda. (1256)

5. mál, samband Danmerkur og Íslands

Skúli Thoroddsen:

Kvað óþarft að tala langt um þetta mál, svo margrætt sem orðið væri. Þótti landsstjórnin eigi hafa sýnt sig jafn óhlutdræga sem vera átti, er hún hefði að eins látið símrita til Íslands álit meiri hluta nefndarinnar og eins látið sér nægja að birta það eitt í Lögbirtingablaðinu, í stað þess að þjóðin hefði átt heimting á að fá samtímis að heyra álit minni hluta nefndarinnar.

Íslenzku nefndarmenn meiri hlutans hefðu látið mjög drýgindalega yfir því, þegar Sk. Th. bar fram breyt.till. sínar í nefndinni, að þær mundu eiga litlum byr að fagna á Íslandi, og meðal annars hefði einn þeirra kveðið svo að orði við dönsku nefndarmennina: Seks trækker bedre en én; þ. e. að sex dragi meira að sér en einn. Sk. Th. kvað það gleðja sig, að raunin hefði orðið önnur við kosningarnar.

Hann kvað sér hafa gengið það aðallega til, er hann kom fram með br.till. sínar, að í Uppkastinu fælist uppgjöf á þeim réttindum, sem vér nú hefðum, og teldum oss eiga tilkall til. T. d. gætu Íslendingar nú, eftir stöðulögum og stjórnarskrá, skipað fiskiveiðamálum og annari atvinnulöggjöf svo sem þeim sýndist, og því heimilað Íslendingum sérréttindi fram yfir Dani, ef þeim sýndist svo.

Sama væri og um það, að Íslendingar gætu nú tekið sér hvaða verzlunarfána, sem þeim sýndist, en öðru máli gegndi, ef Uppkastið yrði samþ.

Þá veik hann orðum að, hver hætta væri fólgin í jafnréttisákvæði Uppkastsins, ekki sízt þar sem frumv. gerði ráð fyrir, að því yrði aldrei haggað.

Það virðist nokkuð hjáleitt, að fela Dönum hervarnir og utanríkismál vor um aldur og æfi samtímis því, að Danir ætluðu Íslandi að verða fullvalda ríki, og færi svo að sjálfstæði Danmerkur yrði hætt, t. d. af ófriði í Evrópu, þá væru Íslendingar miklu ver farnir, ef frumv. yrði samþ., og viðbúið að Ísland yrði þá ekki talið annað en ríkishluti, er að sjálfsögðu yrði að fylgja Danmörku.

Þrátt fyrir það þó að nefndarmennirnir dönsku hefðu látið svo í veðri í vaka annað veifið, að Íslandi væri ætlað að vera sjálfstætt ríki, hefðu þeir þó verið ófáanlegir til að taka upp um það ljós ákvæði, og felt breyt.-till. sína (Sk. Th.), þess efnis, og ekki fengist til að nota orðið Statsforbund (ríkjasamband) í 1. gr. frumv., en kosið heldur Statsforbindelse (ríkiseining).

Það væri af sömu rótum runnið, að ekki hefði mátt nefna á nafn í frumv. sérstakt, íslenzkt landhelgissvæði, heldur notað orðið »Söterritorium« til þess að alt skyldi benda sem bezt á það, að ríkið væri eitt.

Það væri talinn aðal-ábatinn við Uppkastið, að Ísland fengi full ráð sérmála sinna.

En þetta væri reyndar lítilla þakka vert, er þess væri gætt, að Danir hefðu trygt sér með Uppkastinu jafnrétti til fiskiveiða og atvinnureksturs yfirleitt; en einmitt vegna atvinnumálanna hefðu þeir þótst þurfa til þessa að hafa hönd í bagga með sérmálalöggjöf vorri.

Um undirskrift undir skipun Íslandsráðgjafa væri það naumast vafasamt, að henni mundi nú hér eftir fást hagað svo sem Íslendingar óskuðu sér, og um afskifti Dana af sérmálalöggjöf vorri skifti það mestu, hversu á væri haldið af Íslendinga hálfu.

Aðal-ágreiningur milli stjórnar og sjálfstæðismanna væri sá, að stjórnin teldi ekki meira fáanlegt en það sem í Uppkastinu stæði, og vildi jafnharðan taka því sem fáanlegt væri, þar sem vér sjálfstæðismenn vildum á hinn bóginn eigi loka neinum sundum, en hamra á og bíða betri tíma, í því örugga trausti, að ekki væri til einskis beðið, heldur hlytum vér Íslendingar að ná fullum réttindum vorum, er stundir liðu.

Réttaróvissan sú, sem nú væri á um ríkisréttarlegu stöðu Íslands (ólögleg upptök stöðulaga og stjórnarskrár) væri Íslendingum til hagnaðar í baráttunni.

Skilningur Dana á málinu hlyti að skýrast smám saman, þótt örðugt gengi í fyrstu, og þeim að leiðast þófið og láta undan, svo að vér fengjum siðferðislegan rétt vorn að lokum.

Ráðherra hélt því fast að þjóðinni, að samþ. Uppkastið, og vildi þar með binda hendur eftirkomendanna. En þessari stefnu hans hefði mikill meiri hluti þjóðarinnar tjáð sig andvígan, og kosningaósigur stjórnarinnar 10. sept. síðastliðinn sýndi ótvírætt, að ráðgjafi hefði glatað trausti með þjóðinni, enda mundi framkoma hans í sambandsmálinu ekki eiga hvað síztan þátt í því.

Í samræmi við þennan yfirlýsta þjóðarvilja kvað hann meiri hluta þings hafa falið sér að lýsa yfir því, að væntanlegar væri mjög bráðlega úr báðum deildum þingsins þingsál.till., er lýstu vantrausti meiri hluta þings og þjóðar á núverandi ráðherra.

[Eftir »Þjóðv.« 28. febr. 1909, bls. 29-30].