19.02.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 696 í B-deild Alþingistíðinda. (1258)

5. mál, samband Danmerkur og Íslands

Ráðherrann (H. H.):

Eins og eg tók áður fram, vona eg að 1. umr. þessa máls verði frestað.

Háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) sagði, að forsætisráðherrann danski hefði ætlað að leggja frumv. fyrir ríkisþingið í haust, en eg veit ekki til að slíkt hafi komið til orða. Þvert á móti mun hinu fremur hafa verið hreift, hvort ekki væri rétt að bíða með að leggja málið fyrir ríkisþingið, þangað til það sæist hvernig alþingi snerist við því. En það varð brátt að samkomulagi, að frumv. skyldi lagt jafnsnemma fyrir bæði þingin. Annars stoðar ekki að eg og háttv. þm. tali um þetta mál okkar á milli, við erum svo margbúnir að því og þekkjum svo vel hvor annars skoðanir á því.

Hins vegar verð eg að mótmæla öllum þeim mótbárum, sem hann hreyfði; hann getur engar sannanir fært fyrir því að við glötum nokkru eftir frumv. Við vinnum, og það á marga lund. Vinnum þar á meðal alveg vafalaust betri aðstöðu í framtíðinni, ef að því skyldi koma, að landið þarfnaðist og þyldi enn frekari sérstöðu, en missum einskis í.

Hann sagði að Danir hefðu ekki viljað hafa orðið: »statsforbund«, af því að þeim hefði þótt það of veglegt, og kosið orðið »statsforbindelse«, af því að það táknaði betur eininguna eða innlimunina.

En hinn háttv. þm. virðist hafa gleymt því, að ástæðan fyrir því að þetta orð var valið var eingöngu sú, að þær upplýsingar komu af hálfu hinna mest metnu lögfræðinga meðal dönsku nefndarmannanna, að »statsforbund« hefði í pólitísku lagamáli aðra fastslegna merkingu en hér væri ætlast til. Það gæti aðeins átt við þar sem sambandsríkin hafa hvert sinn þjóðhöfðingjann. Um hið forna íslenzka alsherjarríki, sem var samband goðorða, er hvert stóð undir sínum goða sem höfðingja, hefði ef til vill mátt nota þetta orð.

»Statsforbindelse« er víðtækara orð og innibindur það sem hér er átt við, realunion, en er alls ekki til rýrðar sett.

Eg get verið hinum háttv. þm. samdóma um það, að engin vandkvæði muni verða á undirskriftinni við ráðherraskifti framvegis, þeir erfiðleikar eru nú úr sögunni; það smáfærðist í lag eftir að íslenzki ráðherrann varð alveg fyrir utan dönsku ráðherrasamkunduna eftir þeirri stjórnarvenju, sem innleidd var 1904 og síðan haldin. Árið 1905 var því lýst yfir í ríkisráðinu af konungi, að ráðherrann skyldi ekki háður neinum dönskum stjórnarskiftum. Og nú er það fyllilega útkljáð mál milli forsætisráðherrans danska og mín með samþykki hans hátignar konungsins, að viðtakandi ráðherra undirskrifi sjálfur framvegis útnefning sína með konunginum. Það er því mjög hægur vandi fyrir háttv. þm. eða hvern sem vera skal að taka við — fyrir þá sök. Það er alt klappað og klárt, og enga baráttu að óttast.

Um þann boðskap h. háttv. þm., að þingsályktun sé í vændum um það, að eg leggi niður embættið, skal eg ekki segja annað en það, að eg bíð rólegur átekta, og samþykki þingið yfirlýsingu um, að það æski ráðherraskifta, mun eg að sjálfsögðu beygja mig fyrir henni.

Hinn háttv. 1. þm. Rvk. (J. Þ.) byggir á alt öðrum grundvelli en eg í þessu máli; sé eg því ekki til neins að svara því, er hann sagði. Hann vill semja við konung einan, en sá er hér gallinn á, að konungur vor getur eftir núgildandi lögum ekki samið öðruvísi en gegnum ráðherra sína, eins og hvarvetna þar sem um þingbundna konungsstjórn er að ræða.

Það hljómar sem rödd úr gröfum forfeðranna, að konungurinn sé einveldiskonungur hér á landi, eftir að við höfum haft þingbundna stjórn og löggjafarþing í landi marga áratugi; það verður ekki hjá því komist að taka til þess ástands, sem í raun og veru er. Og því verður ekki neitað, að Ísland er og hefir um langan aldur verið »de facto« hluti af Danaveldi. Samningur við konung Danaveldis um að það ástand hætti, getur ekki orðið öðruvísi en með samþykki löggjafarþingsins í Danmörk.

Hann tók nokkuð djúpt í árinni, þegar hann líkti gerðardómsákvæðinu um skipun oddamannsins við það ákvæði, að ríkisþingið skyldi skera úr slíkum þrætum. Hér er ekki nokkurri líking til að dreifa, öðru nær.

Hvor þjóðin velur eptir frumvarpsákvæðinu sína menn í gerðardóm, og sá er svo tekinn til oddamanns, er mestar líkur þykja til að sé utan allra flokka, og ætla megi óhlutdrægastan þeirra manna, er völ er á, og dönsk og íslenzk lög geta lagt skyldur á herðar. Háttv. þm. gat þess, að gleymst muni hafa að prenta í athugasemdum við frumv. till. minnihlutans í sambandslaganefndinni með frumv. þessu. Má segja, að svo skýtst svinnum sem ósvinnum, er háttv. þm. kemur með slíkt, því að fátt er það sem fjær liggur, heldur en að rökstyðja stjórnarfrumv. þetta með mótbárunum gegn því. Hitt er annað mál, að því fylgir sem fylgiskjal »bláa bókin«, er inniheldur nákvæma skýrslu um gerðir sambandslaganefndarinnar, þar á meðal einnig till. minni hlutans.