03.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 368 í B-deild Alþingistíðinda. (126)

6. mál, aðflutningsgjald

Ágúst Flygenring:

Eg álít það ákvæði mjög ranglátt, að lögin komi sumpart í gildi frá þeim tíma, sem nú þegar er liðinn, nfl. 24. fyrra mánaðar. Eftir því eiga menn að borga toll af vörum, sem menn verða búnir að selja út löngu áður en tollinn skal borga, og meira að segja af vörum, sem þeir eru ef til vill nú þegar búnir að selja út. En slíkt er svo ranglátt, að það mætti vel kallast rán, og er alls engin bót mælandi. Eg er því alveg á móti þessu ákvæði. En hitt ákvæðið, um að súr saft skuli tolluð með 30 aurum pr. pott, er þó enn þá vitlausara. Allir vita, að súr saft er nauðsynjavara, sem brúkuð er nálega á hverju einasta heimili. Og þó að einhverjir dónar norður á Siglufirði eða annarsstaðar hafi ef til vill notað súra saft til þess að fylla sig á, þá virðist mér vanvirða fyrir þingið, að vera að hlaupa eftir slíku.