28.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 738 í B-deild Alþingistíðinda. (1270)

5. mál, samband Danmerkur og Íslands

Hannes Hafstein:

Hinn háttv. frsm. meiri hlutans (J.Þ.) vildi fá að vita, hvaðan minni hlutanum kæmi vitneskja um, að gengið mundi að breyt.till. hans, og kastaði hann fram þeirri spurningu, hvort eg, sem fyrv. ráðherra, hefði í síðustu utanför minni fengið tilboð um breytingar, og þagað yfir þeim fram á þennan dag. Því er skjótsvarað þannig, að eg hefi engin tilboð né loforð fengið um breytingar á frumv., og hefi ekkert umboð til þess að bera þinginu nein skilaboð um slíkt. Eg hefi aldrei ætlað mér að gerast forgöngumaður að breytingum á efni þess, því að eg er ánægður með það eins og það er; en eitt hefi eg viljað reyna eftir megni: að ryðja steinum úr götu þess og létta fyrir þeim orðabreytingum, er verða máttu til þess að efnið kæmi enn skýrara fram. Þegar eg kom til Kaupmannahafnar síðast, var þar allmikill óhugur vaknaður út af frumv.-undirtektunum; lét eg það því vera meðal minna fyrstu og fremstu verka, að ná tali hinna dönsku nefndarmanna, skýra fyrir þeim, hvað fundið hefði verið frumv. til foráttu í kosningahríðinni hér heima, og benda á, hvernig mætti girða fyrir hinar algengustu rangfærslur og útúrsnúninga út úr orðum frv. Eg átti skömmu fyrir jól fund með þeim öllum saman, og reyndi þá að útskýra eins vel og eg gat gang málsins allan og skilning frumvarpsandstæðinga hlutdrægnislaust, jafnframt og eg skýrði þeim frá afstöðu okkar íslenzku nefndarmannanna, hversu vér höfðum skilið og skýrt frumv. og einstök ákvæði þess, og hverjar orðabreytingar mundu nægja til þess að taka af allan vafa og girða fyrir öll tvímæli um samræmi textanna; þessar breytingar hnigu mjög í sömu átt og breyt.-till. minni hlutans nú.

Þessi fundur var eingöngu kallaður saman til þess að hlýða á skýrslu mína, en alls ekki til þess að ræða málið né gera neinar ályktanir, enda tóku eigi aðrir til máls, svo að á honum byggi eg ekkert að því er snertir afstöðu dönsku nefndarmannanna til þessara atriða. En síðar héldu þeir fund með sér, sem eg var ekki viðstaddur, og eg talaði bæði fyr og síðar við mjög marga þeirra einn og einn, og enginn af nefndarmönnum eða öðrum málsmetandi mönnum atkvæðisbærum um málið, sem eg átti tal við, vefengdu það, að skilningur minn á ákvæðum frumv. væri réttur og í samræmi við niðurstöðu nefndarinnar í heild sinni.

Á því, sem dr. Knud Berlin hefir verið að leggja til málanna í seinni tíð, er alls ekkert byggjandi. Hann er æstur mótstöðumaður okkar Íslendinga í sambandsmálinu og sjálfstæðismáli voru yfir höfuð, ramdanskur þjóðbelgur, sem fyrir hvern mun vill halda Íslandi undir Danmörk, sem hjálendu. Það var mjög óheppilegt, að hann skyldi vera gerður að skrifara nefndarinnar. Auðvitað átti hann þar engan atkvæðisrétt; hann átti að eins að útvega skjöl og skilríki fyrir nefndarmenn og ganga nefndinni til handa. En hann gat þó ekki á sér setið að sletta sér fram í umr. og yfir höfuð gang málsins, og reyndi að spilla sem mest fyrir því, að Danir yrðu við óskum vorum, enda var hann að loknu starfi nefndarinnar mjög argur út af því, hve eftirgefanlegir Danir hefðu verið, og að við hefðum fengið alt of mikið. Það muna víst fleiri en eg, að þegar nefndarstörfunum var lokið, þóttist hann vera alveg hissa á því, að ekki hefði verið sett með berum orðum í frv., að Ísland væri sérstakt ríki, úr því að Danir hefðu látið svo mikið undan, að enginn vafi væri á því, að það væri það í raun og veru. Þegar hann svo heyrði um mótbárurnar og útúrsnúningana hér, þá hefir hann talið þann kostinn líklegastan til þess að eyðileggja málið, að taka upp bardaga aðferð frumvarpsfénda hér, og séð sér leik á borði í því, að gera sem minst úr því er fengið var, og neita því, sem hann áður staðhæfði.

Eg hefi, þótt eg hafi ekki tilboð eða samþyktir, nægilega vissu fyrir því, — án þess að eg nefni nein nöfn — að svo framarlega sem frumv. hefði verið samþ. hér á þinginu með þeim breytingum eða svipuðum breytingum, eins og minni hluti nefndarinnar vill aðhyllast, þá hefðu þær ekki orðið frumv. til foráttu hjá Dönum. Eg veit raunar ekki, hversu skipast hefir við forsetaförina. En eg legg ekki svo mikið upp úr því, þó forsetarnir telji ófáanlegar allar breytingar. Eftir þeirri einu skýrslu, sem eg hefi séð um viðtal forsetanna við Neergaard forsætisráðherra, dylst mér ekki, að hann hefir þegar á fyrstu kröfu þeirra um uppsegjanleika allra mála — þótst sjá, að um alls ekkert samkomulag gat verið að ræða, og var þess þá engin von, að hann færi að bjóða upp á tilhliðranir í smærri atriðum. Enda stóð það aldrei til, að Danir færu að halda að okkur neinum breytingum á frumv. Það eru ekki Danir, sem sækjast eftir umbótum á sambandinu við Ísland; það erum vér Íslendingar, sem breyting viljum, það er í vora þágu, Danir eru ekki að troða upp á oss breytingum. Hitt er annað mál, þótt þeir hefðu til samkomulags getað gengið inn á breytingar til skýringar, ef alþ. hefði farið þess á leit, og málinu þar með verið borgið.

Frá mínu sjónarmiði eru breyt.till. minni hluta nefndarinnar formbreytingar einar, því að eg hefi alt af lagt þann skilning í frumv., sem felst í þessum skýringarbr.till. En frá sjónarmiði hinna, sem hafa neitað því, að þetta feldist í frumv. get eg ekki annað skilið, en að breytingarnar hljóti að vera mikils verðar. Það hefði því mátt teljast sigur fyrir þá, að koma þeim fram. Og þess sigurs, að bjarga málinu við, vildi eg unna þeim.

Eftir því sem fram er komið er það naumast ólíklega til getið, að það mundi ekki hafa orðið til að greiða götu samkomulagsleitana í þessa átt, ef það hefði vitnast, að eg ætti einkum þátt í þessum breytingum Eg áleit mér því skylt að halda mér til baka og vita hvort nefndin sjálf eða einhverjir af hinum samningsfúsari meiri hluta mönnum fyndu ekki upp á því, að leita hófanna um þetta. Hið eina, sem eg hefi getað gert, án þess að eiga á hættu að draga mínar óvildir yfir málaleitanir í þessa átt, er því það, að láta einstaka menn í nefndinni fá njósn af því, að þessar breytingar mundu vera reynandi. Það munu þeir menn kannast við. Nú er loks útséð um það, að engar tilraunir verða gerðar af meiri hlutans hálfu í þessa átt, og því hefi eg fyrst getað sagt þetta opinberlega. Þótt eg sem sagt geti ekki ábyrgzt, hvernig skipast kann að hafa eftir forsetaförina, þá held eg þori samt enn að fullyrða, að ef þingið samþykkir frumv., þá mundu þessar breyt.till. eða svipaðar ekki verða þess valdandi, að frumv. færi forgörðum, heldur mundi þá málinu borgið.

Þetta svar læt eg nægja fyrirspurn háttv. framsm. meiri hlutans (J. Þ.); meira get hvorki eg né væntanlega heldur ekki háttv. framsm. minni hlutans (J. Ó.) sagt honum um þetta efni. Eg ætla mér ekki að tala margt né mikið um þetta mál. Það er ekki til neins, enda er háttv. frsm. minni hlutans (J. Ó.) einfær um að halda uppi svörunum gagnvart háttv. frsm. meiri hlutans (J. Þ.). Það eru að eins örfá atriði, sem eg vil minnast stuttlega á.

Háttv. framsm. meiri hlutans (J. Þ.) sagði, að breyt.till. minni hlutans við 3. gr. 2. væri »óbótatillaga«. Í frumv. stendur: »Enginn þjóðarsamningur, er snertir Ísland sérstaklega, skal þó gilda fyrir Ísland, nema rétt stjórnarvöld íslenzk samþykki«. Þetta var af sumum andstæðingum frumv. talið þýðingarlaust ákvæði. Menn sneru út úr þessu á ýmsar lundir, sem eg ekki nenni upp að telja; meðal annars fettu menn fingur út í orðið »sérstaklega«, og sögðu að ákvæðið ætti ekki við aðra samninga en þá, sem væru gerðir sérstaklega eða eingöngu fyrir Ísland, en þeir væru engir til. Til þess að girða fyrir alla þessa útúrsnúninga hefir minni hlutinn komið fram með þessa tillögu, sem framsm. nefnir »óbótatillögu«. Hún segir ekkert nýtt, en breytir að eins um orð, þannig, að sagt er berum orðum, að enginn samningur skuli gilda fyrir Ísland, ef hann snertir eitthvert sérmál þess ?: íslenzkt mál, sem ekki er farið með sem sambandsmál eftir sambandslögunum, nema rétt íslenzk stjórnarvöld eigi þátt í því og leggi á samþykki sitt. Yfir höfuð þarf samþykki Íslendinga, eða réttra stjórnarvalda þeirra að koma til í öllum samningum, sem snerta einhver mál, sem Ísland sjálft fer með. Í þeim sameiginlegum málum eða sambandsmálum, sem Danir í umboði voru fara með valdið fyrir Íslands hönd t. d. um peninga láttu, fyrirkomulag utanríkisstjórnar o. s. frv. eigum vér auðvitað ekki atkvæði. Aftur á móti hljóta allir verzlunarsamningar og siglingasamningar, alt sem snertir atvinnumál, réttarfar eða hegningarlöggjöf á einhvern hátt, að falla undir fyrirmæli ákvæðisins. Þetta er svo mikil takmörkun á umboði því, er vér veitum Dönum til þess að fara með utanríkismálefni vor, að vér höfum tögl og hagldir í flestu, sem fyrir getur komið. Þeir geta ekki upp á sitt eindæmi gert utanríkisráðstafanir viðvíkjandi neinum málum, sem oss varða, öðrum en þeim, sem þeim eru falin af oss sem sambandsmál. Þetta er nú »óbótatillagan«.

Háttv. framsm. meiri hlutans (J. Þ.) kallaði það hneykslunarhellu, eða jafnvel hneyksli, að dómstjóri hæstaréttar væri oddamaður í gerðardóminum, sem kveðið er á um í 8. gr. Eg efast um, að háttv. meiri hluti finni þó nokkurt betra ráð, þegar öllu er á botninn hvolft. Eg hefi séð ýmsar tillögur frá háttv. meiri hluta um þetta atriði, en sú hefir þó orðið niðurstaðan, að þeir hafa ekki haft önnur úrræði eftir alt saman en að sleppa gerðardóminum alveg. Eg sé ekki að meiri hlutinn hafi getað haft neina ástæðu aðra til þess að sleppa 8. gr. en einmitt þessa, að hann hefir þótst vera búinn að finna helzt til mikið að oddamannsákvæðinu, sem hann gat ekki bætt sig á. Annars er ekki mikið um þessa 8. gr. frumv. að gera. Gerðardómurinn átti að eins að vera um ágreining, er rísa kynni um það, hver mál væri sameiginleg eftir 3. gr. frumv., og gat naumast til slíks ágreinings komið, því ákvæðin eru svo skýr. En vér Íslendingarnir í nefndinni lögðum áherzlu á, að fá þessi ákvæði tekin inn í frumvarpið, til þess þar með að fá því slegið föstu óbeinlínis, að Ísland væri sérstakt ríki við hlið Danmerkur, og þetta ákvæði meðal annars leiddi síðar til þeirrar viðurkenningar af dönsku nefndarmannanna hálfu. Gerðardómur er óhugsanlegur nema um sérstakt ríki sé að ræða. Meðan Ísland er óaðskiljanlegur hluti Danaveldis, sker ríkisvaldið úr ágreiningsmálum milli heildarinnar og hlutans. Þannig ályktuðu dönsku nefndarmennirnir. En þegar sérstakur gerðardómur á að skera úr ágreiningi milli landanna, gerðardómur, sem bæði löndin hafa stofnsett og tilnefnt, þá er auðstætt, að um tvo jafnréttháa aðila er að ræða. En þegar til þess kom að ákveða oddamanninn, varð það bert, að það varð að tiltaka einhvern, sem löggjafarvald Danmerkur og Íslands náði yfir. Það var hvorki hægt að ákveða í lögunum, að útlendur þjóðhöfðingi né útlendur sendiherra skyldi takast þetta á hendur, því þeir gátu auðvitað neitað því. Þegar útlendir þjóðhöfðingjar hafa skorið úr þrætum milli annara þjóða, hefir það auðvitað verið eftir beiðni í hvert skifti; og stundum hefir þjóðum, sem þó hafa viljað leggja ágreining í gerð, ekki lánast að fá neinn þjóðhöfðingja til þess. Þess vegna urðu Bandamenn og Englar hér um árið að leggja ágreiningsmál sitt í gerð — dómenda úr hæstarétti Bandaríkjanna. Eftir vandlega íhugun komumst vér Íslendingarnir að þeirri niðurstöðu, að eftir atvikum væri bezt að taka dómstjóra hæstaréttar, og man eg ekki betur en háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th .) væri þessu samþykkur. Vér töldum víst, að slíkur maður mundi ekki hætta heiðri sínum fyrir öllum heiminum með því að sýna hlutdrægni, enda bjuggumst ekki einu sinni við, að tækifæri mundi verða til slíks, þar eð slíkt gerðardómsákvæði átti, eins og eg áður tók fram, aðallega að vera sönnun fyrir stöðu Íslands sem hliðstæðs aðila. Eg skal játa, að þessa gerðardómsákvæðis er síður þörf nú, eftir að vér fengum það viðurkent með berum orðum í athugasemd nefndarinnar við frumvarpið, að Ísland yrði sérstakt ríki, en það var það takmark, er vér þokuðumst smám saman að í nefndinni, fet fyrir fet.

Háttv. andmælendur hafa stundum sagt, að vér íslenzku nefndarmennirnir höfum byrjað vel og á réttum grundvelli, en gugnað síðar og horfið frá réttum grundvelli af ótta við Dani eða meðfæddum heigulskap (Jón Þorkelsson: Það stendur ekki í nefndarálitinu). Nei, að vísu. Háttv. framsm. meiri hlutans (J. Þ.) er svo kurteis maður, að hann segir auðvitað ekki slíkt með berum orðum, en það hefir komið fram bæði á fundum og í blöðunum, og eg hygg að hér í salnum séu nokkrir þeir menn, sem látið hafa sér eitthvað slíkt um munn fara. En þetta er ástæðulaus getsök, eins og allir geta fullvissað sig um, sem lesa gerðir sambandslaganefndarinnar.

Í fyrsta skjali voru íslenzku nefndarmannanna, undirstöðuskjalinu, sem háttv. meiri hluta hefir litist svo vel á, að hann hefir tekið allmikið af því upp í nefndarálit sitt, er einmitt algerlega sneitt hjá því að slá neinu föstu um uppsegjanleik sameiginlegra mála. Eg skal með leyfi hæstv. forseta því til sönnunar lesa upp niðurlagsatriðin úr þessari grundvallarstefnuskrá vorri, sem prentuð er í »bláu bókinni á bls. 26. Þar segir svo: ». . . . maa vi som Basis for Forhandlinger angaaende Islands forfatningsmæssige Stilling í det samlede danske Rige fastholde, . . . at Island de jure bör opfattes som et frit Land under Danmarks Kongekrone, sammen med Kongen fuldt raadigt over alle sine Anliggender, med mindre nogle af disse ifölge Overenskomst mellem Danmark og Island matte være eller blive overdragne til Danmarks særlige Varetægt«. Hér er gert ráð fyrir málum, sem Dönum séu falin og alls ekki sagt neitt um, að þau skuli vera uppsegjanleg.

Þetta grundvallarskjal vort, sem vér skrifuðum allir undir hinir íslenzku nefndarmenn 7 saman, sýnir ekki, að vér höfum haft aðra skoðun þá en nú. Vér höfum í engu frá því vikið. Þegar það var lagt fyrir Dani, þótti þeim of langt farið, og þóttust þá þegar finna, að skoðunarmunurinn væri meiri en þeir hugðu. Kröfðust þeir þess, að vér legðum kröfur vorar fram í frumvarps formi, og það gerðum vér. Sem fulltrúar fyrir alla flokka á Íslandi töldum vér það skyldu vora að byrja með því að taka í frumv. hið ítrasta, sem krafizt hafði verið, þótt vér vissum fyrirfram, að sumt af því væri ekki þannig vaxið, að halda bæri því til streitu, ef samkomulag ætti að geta náðst. En vér álitum rétt að láta ekki sjást gagnvart Dönum neinn skoðanamun okkar á milli, er vér settum fram almenna uppsegjanleika-kröfu — þótt sumir okkar að minsta kosti væru henni ósamþykkir. Við vildum haga

svo samningaleitununum, að enginn gæti eftir á sagt, að þetta eða hitt hefði ekki fengist, af því að þess alls ekki hefði verið farið á leit eða þá ekki einróma af Íslendinga hálfu. Við vildum halda hópinn í lengstu lög, með því varð staða okkar sterkari, en hefði hver haldið fram sinni sérstöku skoðun í hverju smáatriði hefði staða vor orðið veikari en raun varð á. Það kom nú skjótt í ljós, að ekki var auðið að ná samkomulagi á þessum grundvelli. Nú vita það allir, að þess eru ekki dæmi í samningum milli þjóða, nema um yfirunna þjóð sé að ræða, að annar aðilinn fái alt en hinn segi já og amen við öllu. Til þess að samkomulag verði, verða báðir að láta undan í einhverju. Eg ímynda mér, að enginn, sem les gerðir nefndarinnar, geti verið í vafa um það, hvorir voru nær sínum upphaflegu kröfum og grundvallarsetningum, við Íslendingarnir eða Danir í nefndinni, þegar nefndarstarfinu lauk, og niðurstaðan var komin í ljós. Eg vísa því algerlega á bug til höfundanna þeirri ákæru, að vér höfum hopað frá þeim grundvelli, sem vér lögðum fyrst. Vér stöndum á honum enn þann dag í dag, og í samningaviðskiftunum álít eg, að beitt hafi verið réttri aðferð og hún hafi reynst affarasæl og sigurvænleg.

Það er handhægt vopn að slá um sig með þessu »innlimunar« orði, sem nú er svo mjög tíðkað; það er hægt að brúka það orð um alt, enda er farið til þess í seinni tíð. En sé það, sem sambandslaganefndin samþykti og vér núverandi minni hluta menn höfum fylgt, innlimun, þá býst eg við, að fleiri verði innlimunarmenn en margan grunar. Eg skal leyfa mér að minna á það, að bæði 1867 og 1869 samþykti alþingi undir forustu Jóns forseta Sigurðssonar stjórnarskrárfrumvörp, sem

höfðu inni að halda ákvæði um sömu atriði, eins og þau, sem ágreiningi hafa valdið í frumvarpi sambandslaganefndarinnar. Eg ímynda mér, að þeir menn sem þá sátu á þingi, hafi ekki síður haft það hugfast en vér nú að glata ekki réttindum landsins, að þeir hafi ekki síður en vér sett sóma sinn og stolt í það, að vér Íslendingar höfum aldrei spilað réttindum vorum úr höndunum, eins og hv. framsm. meiri hlutans (J. Þ.) komst svo vel að orði.

Þá var barist undir merkjum þess manns, Jóns Sigurðssonar, sem eg býst ekki við að neinn kalli föðurlandssvikara eða innlimunarmann. En sjáum til, hvað það var, sem þeir börðust fyrir og samþyktu þá, forvígismennirnir fyrir frelsis- og sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar:

Í stað þess, er í frumv. sambandslaganefndarinnar er ákveðið, að Ísland skuli vera frjálst og sjálfstætt land í ríkjasambandi (Statsforbindelse) við Danmörku, er í báðum þessum frv. Jóns Sigurðssonar og alþingis kveðið svo á, að Ísland sé óaðskiljanlegur hluti Danaveldis með sérstökum landsréttindum.

Eftir frumvarpi sambandslaganefndarinnar eru, auk konungssambandsins, engin mál óuppsegjanlega sameiginleg með Íslandi og Danmörku önnur en hermál og utanríkismál, hin síðarnefndu þó með stórmikilli takmörkun Íslandi í vil. En eftir báðum hinum frumvörpunum, er nefnd voru, eru óuppsegjanlega sameiginleg mál, auk þess, er að konungdóminum lýtur: viðskifti ríkisins (?: Danmerkur og Íslands) við önnur lönd, vörn ríkisins á landi og sjó, ríkisráðið, réttindi innborinna manna, myntin, ríkisskuldir og ríkiseignir og — póstgöngur milli Danmerkur og Íslands. Hvorki í löggjöf né stjórn þessara mála átti Ísland neinn þátt að taka, fyr en slíkt yrði ákveðið með lögum, sem ríkisþing Dana og alþingi samþyktu. Um hluttöku af Íslands hálfu í ákvörðun um ríkiserfðir eða um það, er konungdómurinn er laus, var ekkert ákveðið í þessum frumvörpum, fremur en í sambandslagafrumvarpinu. (Sbr. Alþ.tíð. 1867, 2. bls. 618-632 og Alþ.tíð. 1869, 2. bls. 385—400). Það er því auðsætt, að sé innlimun fólgin í ákvæðum sambandslagafrumvarpsins, eður afsal fornra réttinda eftir Gamla sáttmála, þá er það miklu fremur í þessum tveimur frumvörpum, sem þjóð og þing einhuga hafa barist fyrir að fá framgengt.

Undir forustu Benedikts Sveinssonar voru fjórum sinnum (1885, 1886, 1893 og 1894) samþ. á alþ. til fullnustu frv. til endurskoðaðrar stjórnarskrár, og í þeim öllum er gengið út frá því, að Ísland sé hluti ríkisins (Danaveldis) og öll mál Íslands, að undanskildum 9 tilgreindum málaflokkum, með berum orðum talin »almenn ríkismál«, þar á meðal auðvitað alt um ríkiserfðir og ráðstafanir um nýja konungsætt, öll utanríkismál óskorað, varnir til lands og sjávar, innborinna manna réttur o. s. frv., og ákveðið, að það sé komið undir bæði hinu sérstaka löggjafarvaldi landsins og löggjafarvaldi ríkisins, hvort Ísland skuli senda fulltrúa á ríkisþingið í Danmörku og borga fé til »almennra ríkisþarfa«.

Þetta var hvað eftir annað lögformlega samþ. af alþ. eftir frumkvæði og eindreginni ósk þjóðarinnar sjálfrar og helztu trúnaðarmanna hennar og réttarvarða. Það vantaði ekkert annað en undirskrift konungs til þess, að þetta yrði að stjórnarskipunarlögum. Og þá hefðu allar kenningar um, að Íslendingar hefðu eigi samþ. nein afskifti Dana af málum vorum, allar skírskotanir til Gamla sáttmála sem þess einasta, er Ísland hefði samþ. gagnvart konungi og Danmörku, verið gersamlega úr sögunni. Enginn lifandi maður hefði getað komið fram með slíkt, ef eitthvert af alþingisfrumv. frá 1867, 1869, 1886 eða 1894 hefði náð staðfesting konungs, og þá hefði gersamlega skort grundvöllinn undir allar þær mótbárur, sem nú hafa komið fram gegn frumvarpi sambandslaganefndarinnar.

Hepnir hafa þeir verið Jón Sigurðsson og Benedikt Sveinsson, að Danir skyldi hafa vit fyrir þeim, og neita að samþ. þessi lög, sem þeir vörðu æfi og kröftum til að berjast fyrir. Hefðu Danir ekki verndað fyrir oss landsréttindin með lagasynjunum og neitun á kröfum vorum, þá hefðu þeir Jón Sigurðsson og aðrir íslenzkir stjórnmálamenn nú orðið að liggja undir ámæli núverandi stjórnmálagarpa, sem innlimunarmenn og réttindaglatarar. Mikið megum við þakka Dönum fyrir handleiðsluna!

En eins og eg þegar hefi tekið fram, ætla eg ekki að þreyta sjálfan mig né aðra með því að tala langt um þetta mál á þessum stað, eins og nú er komið málunum. Það mundi ekki breyta atkv. nokkurs manns.

En það vil eg segja, að þótt við nú hættum að tala um málið hér að sinni, og heiðruðum meiri hluta takist að hefta framgang þess í bráð, þá er málið ekki dottið niður. Það er eftir að tala um það aftur síðar; þjóðin á eftir að líta á það enn á ný, og yfirlíta gerðir þeirra herra. Þeir eiga eftir að bíta úr nálinni.