28.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 750 í B-deild Alþingistíðinda. (1271)

5. mál, samband Danmerkur og Íslands

Ráðherrann (B. J.):

Eg vildi leyfa mér að leiðrétta það sem háttv. l. þm. Eyf. (H. H.) sagði um viðtal okkar alþingisforsetanna við Neergaard, yfirráðgjafann danska.

Yfirráðgjafinn vildi segja sem fæst ákveðið um málið, og hann lauk máli sínu við okkur á þá leið, að engar efnisbreytingar fengjust á frumv.

Þó er alls ekki þar með sagt, að ekki kynnu Danir að slaka til í einstaka atriði, en sem sagt er lítil von um það nú að þessu sinni.

Því hefir verið haldið fram, að við forsetar alþ. höfum í utanför okkar spilt fyrir þessu máli. Það er gersamlega tilhæfulaust. Gat heldur ekki verið um neina tilslökun að ræða, frá vorri hálfu, þar sem forsætisráðherrann gaf engan ádrátt.

Það má að vísu segja, að forsætisráðgjafinn hafi ekki haft neitt umboð til þess að gefa nokkra yfirlýsingu þetta mál áhrærandi. En eg get bent á það, að eg átti tal við tvo aðra danska menn, er átt höfðu sæti í sambandslaganefndinni, og voru þeir alveg samdóma forsætisráðgjafanum um það, að engar efnisbreytingar væru fáanlegar.