28.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 758 í B-deild Alþingistíðinda. (1274)

5. mál, samband Danmerkur og Íslands

Jón Magnússon:

Eg vil að eins leyfa mér að bera litla fyrirspurn upp fyrir háttv. framsm. meiri hlutans (J. Þ.) Eg veit ekki betur, en að meiri hlutinn hafi talið það sem galla á tillögum sambandslaganefndarinnar, að þær nefna sig »frumv. til laga«, og hafa í því efni vitnað til Gjelsviks og Knud Berlins, sem lagt hafa alt kapp á að níða frv. niður fyrir allar hellur og spilla öllu samkomulagi og sem hafa lagt mikið upp úr þessu atriði. Því einkennilegra er, að flokkurinn skuli hafa þetta — af honum áður fordæmda — orðalag. Hefði meiri hlutinn talið það svo mikinn galla, sem hann lét í veðri vaka í sumar, þá hefði hann breytt því.