28.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 761 í B-deild Alþingistíðinda. (1278)

5. mál, samband Danmerkur og Íslands

Framsögumaður minni hlutans (Jón Ólafsson):

Allur þessi vefur er hreinasti kongulóar-vefur. Meiri hlutinn þykist standa á prógrammi Þingvallafundarins — beinu persónusambandi eða skilnaði. Skilnaðinn þorir flokkurinn nú ekki að hafa á dagskrá sinni og persónusamband geta þeir ekki fengið. Þeir koma því svo búnir heim og halakliptir, vitandi sig hafa ekkert gagnsamlegt aðhafst í þarfir þjóðarinnar. Enda þótt þeir láti glymja hátt og berji óspart skrolltóma landvarnarbumbuna, þá mun íslenzka þjóðin væntanlega úr þessu fara að heyra tómahljóðið í þeim bumbuslætti.