28.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 762 í B-deild Alþingistíðinda. (1280)

5. mál, samband Danmerkur og Íslands

Skúli Thoroddsen:

Eg ætla að láta þess getið, að eg ætlaði ekki að taka til máls í þessu margrædda máli, en vegna ummæla, er fram hafa komið, verð eg að gera fáeinar stuttar athugasemdir.

Háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ó.), heldur því fram, að ef þetta mál strandar í Danmörku, þá bregðist þm. loforðum sínum við kjósendur, og rjúfi heit sín við þá. Eg veit ekki hvað þingmenn hafa sagt kjósendum sínum. En mér hefir skilist svo, sem við síðustu kosningar hafi af hálfu hins núverandi meiri hluta verið aðalatriðið, að fá þjóðina til að afsala sér engum landsréttindum, og sannfæra hana um það, að betra væri, að núverandi ástand héldist óbreytt, en að svo væri gert. Eftir frumv. meiri hluta sambandslaganefndarinnar eiga tvö mál að vera óuppsegjanleg, hermál og utanríkismál, og það hafa blöð sjálfstæðismanna að sjálfsögðu bent á, sem »innlimun« í dönsku ríkisheildina, jafnframt því er bent hefir verið svo ítarlega og þráfalldlega af mér og öðrum á ýmsan réttarmissi, sem af samþykt frumv. myndi leiða, að mér virtist algerlega óþarft að fara að taka það alt upp að nýju. Fyrir mér vakir það í þessu máli, að þjóðin láti Dani heyra óskir sínar og fullar kröfur og uppgefist ekki, þó hún fái nei á nei ofan. Hver þjóð á heimtingu á, að vera sjálfstæð gagnvart öðrum þjóðum. — Danska þjóðin er sjálf smáþjóð, og Dönum þykir leitt, að Danir í Slésvik verða að lúta erlendu valdi, og því ætti þeim að veita enn auðveldara en ella, að gera sér sjálfstæðiskröfur vorar skiljanlegar. — Ágreiningurinn, sem er á milli flokkanna er fólginn í því, að meiri hlutinn vill heldur sætta sig við, að núverandi ástand haldist óbreytt, en að glatað sé nokkru af réttindum landsins, en minni hlutinn lítur á það, hvað fáanlegt er í svip, og vill heldur taka því, en að alt standi í stað.

Á Þingvallafundinum sumarið 1907, var haldið fram hreinu persónusambandi (personalunion), og þá stefnu hefir þjóðin aðhylst á þingmálafundum. Hvað skilnað snertir, þá vil eg í tilefni af því sem tilrætt hefir orðið um hann í Danmörku vekja máls á því, að réttast væri, að leitað væri atkvæða um það hér á landi, að tilstuðlan alþingis, þótt eigi sé til skilnaðar efnt, eða í því skyni gert, hver vilji þjóðarinnar er í því efni, svo að eigi sé verið að segja Dönum sitt í hvert skiftið um það, bygt á ágizkunum.

Út af ummælum háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ó.), skal eg geta þess, að sé litið á sögulega hlið málsins, getur það að minsta kosti verið vafasamt, hvort vér Íslendingar getum eigi talið það rétt vorn, að semja við konung einan, en á hinn bóginn, þá er því svo varið, eins og sakir standa, að hann getur ekki framkvæmt neitt, nema ríkisþingið samþykki það. Vonir mínar byggjast einmitt aðallega á þeirri siðferðiskröfu, sem hver þjóð hefir, til að vera sjálfstæð, án þess eg þó geri lítið úr sögulegum og lagalegum rétti, eins og sumir. Aðalatriðið er, að við séum sammála um, hvað við viljum, og gerum dönsku þjóðinni það aftur og aftur sem skiljanlegast. —

Eg ætla svo ekki að fara fleiri orðum um þetta, en vil að eins minna á það, að alt veltur á þjóðinni í þessu máli. Sýni hún þrautseigju og stöðuglyndi í baráttunni mun alt vinnast að lokum, en ella eigi.