28.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 769 í B-deild Alþingistíðinda. (1285)

5. mál, samband Danmerkur og Íslands

Framsögumaður minni hlutans (Jón Ólafsson):

Það var eitt atriði í ræðu háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.), er gefur mér tilefni til að bera fram nokkrar spurningar.

Hinn háttv. þm. sagði, að vér hefðum rétt til að gefa sjálfir út lög um sérstakan íslenzkan fána. En hvers vegna hefir þá ekki hinn háttv. meiri hluti, annaðhvort hinn háttv. þm. sjálfur eða þá ráðh. komið fram með neitt lagafrumv. í þessa átt? Hverju svara þeir nú kjósendum sínum, er áttu að hafa valið þá einnig með tilliti til þessa máls, hverju svara þessir háttv. þm.? Nei, þeim verður óhægt um svarið — þeir eru nú ekki vissir um að þetta heyri undir núveranda löggjafarvald vort!

Svo að eg snúi mér að því, er hinn háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) var að minnast á danska fánann hér á þinghúsinu, þá vil eg leyfa mér að spyrja hinn háttv. meiri hluta, hvers vegna hann hefir ekki dregið hér niður Danaveldisfánann, þar sem honum væri það nú í lófa lagið, að láta hér blakta þann fána, er hann ber svo mjög fyrir brjósti?

Eg vil að eins benda á, að háttv. meiri hluta þm. virðast helzt til gjarnir á að veifa stóru orðunum og feita fleskinu, og það svo mjög, að jafnvel hinn háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) gat ekki varist þess að láta sér önnur eins orð um munn fara og þessi: að hin síðari kynslóð myndi þeim mönnum þakklát, er eigi hefðu viljað binda hana á höndum og fótum með sambandslagafrumv.

Hinn háttv. þm. hefir játað, að vér gætum verið lausir við allan tilkostnað, þótt vér hefðum hermál og utanríkismál sameiginleg með þeim. (Skúli Thoroddsen: Danir gætu sett hér upp herkastala eftir frumv., ef þeim sýndist svo). Ekki nema sápubóla, sem þm. er að blása upp í skýjunum. Þeir öðlast ekki rétt til eins þumlungs af yfirborði þessa lands.

Þá sagði hann, að vér bindum oss í utanríkismálum. Það er þó svo skýrt og skilmerkilega tekið fram í frumv. 3. gr. 2. lið að »enginn þjóðarsamningur, er snertir Ísland sérstaklega, skal þó gilda fyrir Ísland, nema rétt stjórnarvöld íslenzk samþykki«. Er þetta að binda oss?

Ef svona löguð ummæli, eins og hins háttv. þm., eru á rökum bygð, já — þá held eg að örðugt verði að finna þær fullyrðingar, sem séu rétt nefndar staðleysur.