28.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 790 í B-deild Alþingistíðinda. (1290)

5. mál, samband Danmerkur og Íslands

Skúli Thoroddsen:

Háttv. 2. þm. N.-Múl. (Jóh. Jóh.) mintist á »erindisbréfið«, er Þjóðræðisflokkurinn fékk oss í hendur, er hann kaus í nefndina, og taldi framkomu sína í millilandanefndinni hafa verið að öllu leyti í samræmi við það. — En um þetta get eg als ekki verið honum samdóma. Það eru einmitt orðin í erindisbréfinu: »meðan um semur«, sem eg taldi mér skylt, að fara eftir, enda skoðun minni samkvæmt, þar sem háttv. 2. þingm. N.-Múl. (Jóh. Jóh.) og háttv. þingm. Skagf. (St. St.) á hinn bóginn hurfu frá þeim í nefndinni, vitandi þó að líkindum vel, að þessi margumræddu orð í erindisbréfinu gátu ekki þýtt neitt annað, en það, að öll málin skyldu vera uppsegjanleg.

Háttv. 2. þm. N.-Múl. (Jóh. Jóh.) sagði, að hann og skoðanabræður hans hefðu fengið því framgengt, að Ísland yrði í konungssambandi einu við Danmörk með fullveldi yfir öllum sínum málum; en þessu mótmæli eg algerlega, því að auk þess, sem orðin: »Statsforbindelse«, »Söterritoriet« o. fl. o. fl. sýna, hve ant Dönum er um, að það komi glögt fram í frumv., að ríkið sé eitt, þá tekur síðasta grein frumv. af allan vafa, hvað fullveldið snertir; það er ómögulegt að kalla þá þjóð fullvalda, er eigi getur nokkuru sinni fengið nokkur umráð yfir hermálum og utanríkismálum. Réttindin, sem vér Íslendingar fáum, ef frumv. nær fram að ganga eru næsta lítilvæg. En Danir fá aukin réttindi, að því leyti, að við fullveldi þeirra bætast íslenzk hermál, utanríkismál, sem og jafnrétti við Íslendinga á Íslandi. — Þá var hinn háttv. 2. þingm. N.-Múl. (Jóh. Jóh.) að vitna í grein yfirdómara Jóns Jenssonar um skilning hans á orðum erindisbréfsins: »Meðan um semur«; en skilningur þess manns á greininni hefir í mínum augum eigi meiri þýðingu, en skilningur hvers annars, ekki sízt þegar þess er gætt, hversu hann snerist við frumv., sem mun hafa stafað af því, að honum þótti alt fengið, ef sérmálin yrðu losuð úr ríkisráðinu, enda eigi neitt annað verulegt fyrir honum vakað. — En þar sem Danir hafa með jafnréttisákvæðinu o. fl. trygt sér þau atvinnuréttindi hér á landi, sem ríkisráðinu var ætlað að hafa eftirlit með, að íslenzka löggjafarvaldið svifti þá eigi, þá skiftir þá auðvitað engu, hvort sérmál Íslands eru borin fyrir konung í ríkisráðinu eður eigi.

En hvað nefnt »erindisbréf« snertir, þá hefir það vitanlega enga þýðingu, að vera að gefa það upp, hverjir hafa farið eftir umboðinu og hverjir ekki. Eg býst ekki við því, að geta sannfært háttv. 2. þm. N.-Múl. (Jóh. Jóh.) og hann sannfærir mig líklegast ekki heldur.