28.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 792 í B-deild Alþingistíðinda. (1292)

5. mál, samband Danmerkur og Íslands

Jón Magnússon:

Eg er gersamlega samdóma háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) um, að gagnslaust sé að deila frekar um málið að sinni, enda er það ekki skemtilegt verk.

Eg vildi að eins bæta dálítilli athugasemd við það, sem háttv. 2. þingm. N.-Múl. (Jóh. Jóh.) sagði viðvíkjandi því sérstaklega, hvort Ísland verði fullvalda eftir frumv.

Eg vil annars skjóta inn í þeirri athugasemd svo sem í innilokunarmerki, að mér virðist það harla óviðkunnanlegt, að háttv. framsm. (Sk. Th.) í þessu stórmáli skuli hlaupa í burtu meðan á umræðum stendur.

Eg hefi því miður ekki enn þá haft tíma til að lesa alt þetta einkennilega nefndarálit meiri hlutans, en meðal þess sem eg hefi lesið þar er þó ein grein, blaðagrein — fremur ómerkileg

— eftir prófessor Gjelsvik, sem nefndin hefir látið prenta sem fylgiskjal, og hátíðlega lýst yfir að sú grein sé góð og blessuð, »það ljósasta, réttasta og bezta sem skrifað hefir verið í því máli«, sagði framsm. (J. Þ.) nú í ræðu sinni í dag; þetta er því einkennilegra, sem þessi fræðimaður er á alt annari skoðun en meiri hlutinn um aðalatriði í réttarstöðu Íslendinga eftir gamla sáttmála. Hann segir t. d., að Íslendingar hafi gert samband við norska ríkið, (en ekki konung Norðmanna einan, sem meiri hlutinn heldur fram).

Sami maður talar líka um, að hinn norski ríkisforingi (Statschef) hafi drotnað yfir Íslandi, en Íslendingar hafi engin áhrif haft á val hans. Þetta lætur meiri hluti nefndarinnar svo prenta og er heldur en ekki hrifinn af slíkum ummælum. Þessu sama skjali var annars óspart veifað að kjósendum. Það er allhlægilegt — og lítill frami fyrir fræðimenn meiri hlutans — að þeir skuli þykjast vera samdóma þeim manni, sem fer með kenningar, sem í meginatriðum eru svo mjög á móti þeirra eigin. Það hefði verið hyggilegra hjá meiri hlutanum, að gera minna úr og byggja minna á slíkum ummælum, og þar að auki svo flausturslegum og órökstuddum. En það var annar maður miklu nafnkunnari, Bredo Morgenstjerne, sem hafði skrifað rækilega um málið og af mikilli alúð í hið merkasta lögfræðislegt tímarit á Norðurlöndum; til dóms hans tekur meiri hlutinn ekkert tillit, hreytir meira að segja ónotum í hans garð og óvirðingarorðum.

Eg skal geta þess, að það hefir verið mikið deilt um, hvort Ísland væri fullvalda ríki eftir frumv. Eg hygg að ákvæðin um það séu nú svo skýr, að það geti ekki dulist neinum meðallagi skynsömum manni, sem skyn ber á málið, því að ekki að eins sambandsfrumv. ber það ljóslega með sér, heldur líka sést það svo ótvírætt af frumv. því til stjórnskipunarlaga, sem lagt hefir verið fyrir þingið. Til enn frekari skýringar skal eg benda á, að það sem er aðalatriði, þegar um fullveldi ríkja í sambandi er að ræða, að annað eða eitt ríkið eða yfirríki ekki hafi áhrif á stjórnarskipun sambandsríkjanna. Hér er það ljóst, að hvorki annað sambandsríkið, né neitt yfirríki yfir báðum ríkjunum hefir neitt vald yfir stjórnarskipun Íslands. Það er nú alveg ljóst, að væri Ísland ekki fullvalda, þegar búið væri að segja upp hinum uppsegjanlegu málum, þá ætti fullveldi beggja ríkjanna að vera hjá þeim í sameiningu, hjá yfirríki, er myndaðist af þeim báðum, hjá sjálfu ríkjasambandinu (statsforbindelsen), en hitt er eins ljóst, að ekkert slíkt ríki myndast eða verður til, því að hér vantaði fyrstu skilyrðin fyrir því að ríki geti myndast, nfl. eitt ríkisland (terretorium), sameiginlegra ríkisborgara. Ríkislöndin, territoríin, verða tvö, og ríkisborgararnir tvennir, sérstakur ríkisborgararéttur fyrir hvort landið. Þetta eitt er nægilegt til að sýna, að Ísland sé sjálfsætt ríki, fullvalda þjóðfélag; aftur á móti getur ríki verið fullvalda, þótt það feli öðru ríki að fara með sum mál sín útávið. Það missir ekki fullveldi sitt fyrir það.