28.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 797 í B-deild Alþingistíðinda. (1294)

5. mál, samband Danmerkur og Íslands

Framsögumaður minni hlutans (Jón Ólafsson):

Herra forseti! Það væri að bera í bakkafullan lækinn að fara nú að tala mikið um þetta mál, er svo hefir verið þaulrætt bæði við 2. umr. og nú í dag.

Eg ætla heldar ekki að fara að tala um það frv., er nú liggur fyrir hér, en eg ætla að leyfa mér að gera grein fyrir framkomu vorri, minnihlutaflokksins.

Vér ætlum ekki að greiða atkv. um þetta mál; vér viljum ekki taka neinn þátt í þeim leikaraskap, sem allir játa að sé nú verið að fremja, því að það er ekki annað en uppgerðar-skrípaleikur. Vér viljum ekki brjóta skip vort á því eyðiskeri, er nú blasir við afdrifum þessa máls.

Þess skal eg þó geta, að ef nafnakall fer fram, þá munum vér greiða atkv. á móti, því að með þessu frumv. meiri hlutans er, eins og hátt. 1. þm. Eyf. (H. H.) tók réttilega fram, verið að draga slagbrand fyrir alt samkomulag síðar meir.

Eg get þó ekki bundist þess, áður en eg sezt niður, að beina þeirri spurningu að hinum háttv. meiri hluta, hverjar hann ímyndi sér að afleiðingarnar verði, ef frv. þetta verður nú samþ. sem lög frá alþ.; það er auðvitað, að þá neyðir flokkurinn ráðh. til að bera það fram fyrir konung, þótt skýlaust nei liggi þegar víst fyrir af konungs hálfu. Það stóð fyrir skemstu í blaði hins háttv. formanns meiri hlutans, nei, háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.), að ráðh. hefði enga heimild meiri hluta flokksins, til að gefa Dönum neinar vonir um samkomulag með tilhliðrunarsemi, það væri með öllu heimildarlaust.

En í hverja stöðu setur nú hinn hv. meiri hluti ráðherrann með þessu?

Á hann að bera það mál fram, sem fyrir fram er ákveðið að neita og sitja svo kyrr við völdin — halda áfram að vera ráðherra konungs, þó að konungur vilji ekki þýðast ráð hans og geti ekki borið traust til hans?

Eða er ætlast til að ráðh. rjúfi þing, til þess að sýna, hvort þjóðinni er alvara að veita enn þessum flokki fylgi sitt — og leika svo norska leikinn á ný: að ráðherrann leggi niður völd til að sýna konungi í tvo heimana, sýna honum, að hann geti ekki fengið neinn til að vera ráðherra og stýra landinu — því að vel vita þeir, að enginn Íslendingur vill taka að sér ráðherravöld í trássi við meiri hluta þjóðarinnar. Og á þá ekki næsta sporið að vera, að lýsa konunginn afsettan eins og í Noregi og sambandinu slitið við Dani? Þessu vænti eg að hæstv. ráðherra svari. Þjóðin á heimting á að vita, hvert verið er að stefna.