28.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 799 í B-deild Alþingistíðinda. (1296)

5. mál, samband Danmerkur og Íslands

Skúli Thoroddsen:

Það er undarleg ástríða hjá háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ól.) að vera alt af að titla mig sem formann flokksins, enda þótt eg hafi margsagt, að eg sé það ekki (Jón Ólafsson: Eg leiðrétti líka orð mín sjálfur). Eins og menn vita, þá er það nú annar, sem því nafni ber að kalla, og kæri mig ekki um neina titla, sem eg á ekki.

Ræðu h. 1. þm. Eyf. (H. H.) þykir mér ástæða til að svara fáum orðum, enda þótt háttv. þm. Dal. (B. J.) hafi svarað flestu, sem svars þurfti.

Hinn hv. þm. gerði mikið úr þeirri hættu, er stafað gæti af því, að Danir gætu sagt upp sameiginlegu málunum, hve nær sem þeim sýnist, svo að vér yrðum þá að sigla vorn eigin sjó.

Hinn háttv. þm. gerir meira úr vernd Dana, en eg get gert; það er öllum kunnugt, að Danir eru ekki færir um að verja sjálfa sig, hvað þá heldur aðra. Eg byggi þá skoðun mína á vaxandi réttlætistilfinning þjóðanna, að vér myndum í engu ver farnir, þótt Danir sleptu af oss verndarhendi sinni.

Þá talaði hinn háttv. þm. mikið um það, að hinn núverandi meiri hluti væri í sífellu að gera ný og ný yfirboð, og gat hann þess, að þetta hefðum vér aðallega gert til þess, að koma honum frá völdum.

Eg hefi áður lýst því yfir í blaði mínu, hvílík fjarstæða það væri, að gera mér slíkar getsakir, því að það var svo langt frá, að eg í fyrstu gæti búist við því, að stefna sú, er eg fylgdi í millilandanefndinni yrði ofan á, þótt sú hafi nú orðið raunin á, að eg taldi þess enga, eða þó sárlitla von. Eg stóð ekki í símasambandi við neinn hér heima, og þegar þess er gætt, að 2 af nefndarmönnunum, er til þjóðræðisflokksins töldust fylgdu þáverandi stjórnarflokki að málum í nefndinni, sem og auk þess einn þeirra þm., er staðið hafði mjög framarlega í þjóðræðisflokknum dr. Valtýr Guðmundsson, — þá ætti öllum að geta verið það ljóst, að slík hugsun hlaut að vera mér mjög fjarri, að ágreiningsatkvæði mitt í millilandanefndinni væri vegur til að steypa stjórninni, enda leið nokkur tími, eftir að álit millilandanefndarinnar varð hljóðbært hér á landi, unz kunnugt varð um, hvernig sum þjóðræðisblöðin myndu snúast í þessu máli.

Að því er snertir spurningar háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ól.) um það, hvað meiri hlutinn ætlast fyrir, eða hvað ráðherranum sé ætlað að gera, þá get eg sagt það fyrir mitt leyti — og líkt mun vera um marga aðra —, að eg vænti þess, að hæstv. ráðherra (B. J.) leggi fram alla sína krafta, til þess að vinna konung vorn, og hið danska löggjafarvald á vort band. Um undirtektir úr þessari átt er enn ekki fullreynt, og þinginu er því áríðandi að samþ. frumv., þar sem kröfur þess koma skýrt í ljós. En fari nú svo, sem allar horfur eru á, að kröfum vorum verði ekki sint að þessu sinni, þá er sjálfsagt að halda þessu máli vakandi, og nauðsynlegt að þingið samþ. þetta frumv. aftur og aftur, — unz til sigurs leiðir.

Eg hefi áður bent á einn veg í þessu máli, en hann er sá, að einhverntíma bráðlega fari fram atkv.gr. hér á landi um það, hve margir vilji aðhyllast sambandið við Dani, og hve margir vilji að því sé slitið. Að því má ganga sem vísu, að Danir vilja sízt af öllu, að upp úr því slitni, en það getur haft sína þýðingu, að vilji þjóðarinnar komi sem glöggvast fram í þessu efni, og að danska þjóðin sé hans eigi dulin, þótt eigi sé í framkvæmdaskyni fyrst um sinn.

En færi nú svo — sem eg tel einna líklegast — að meiri hluti þjóðarinnar kærði sig ekki um þessa vernd Dana, sem háttv. 1. þm. Eyf. (H. H.) gerir svo mikið úr (Jón Ólafsson: Á þetta að verða bráðlega?), og þó að baráttan standi í 10—20—30 ár, þá vekur hún þjóðina til sjálfsmeðvitundar, og gæti því orðið henni þarfur skóli til að læra að stæla vöðvana, reyna á krafta sína.

Þessi barátta mundi því ekki verða til einskis, heldur til mikils gagns, enda þótt ekki sé þegar séður ávöxturinn, sem af henni kann að verða.

Hinn háttv. þm. S.-Þing. (P. J.) gat þess, að þrautseigja þessarar þjóðar hefði verið lítil, er um landstjóra fyrirkomulagið var að ræða. Já, hún var þá of lítil, og var mér það sérstaklega tilfinnanlegt, er horfið var frá því árið 1895, með því að alveg sérstakar ástæður voru til þess, að eg hlaut að skilja það betur, en flestir aðrir, að undanhaldið var óheppilegt, ekki sízt eins og stjórnarástandinu þá var háttað. Þá var þingið máttlaust, og jafnan mátti búast við, að þeim frumv., er þingið samþ., yrði synjað staðfestingar, enda var þá ráðgjafinn útlendur, og hafði lítinn áhuga á íslenzkum málum, enda ókunnugur högum vorum, svo að undirbúningur þingmála af hálfu stjórnarinnar var mjög ónógur og ófullkominn.

Það stóð heldur ekki á lagasynjununum, og það var ekki nema eðlilegt, að slíkt hlyti að draga úr kjarki þjóðarinnar og áhuga þingsins. Þing var þá ekki til líka eins öflugt, eins og það er nú.

En þótt nú fari svo, að dráttur verði á, að fá því framgengt, sem sambandslagafrumv. vill veita, þá stendur oss það ekki fyrir þrifum í svipuðum skilningi, sem hið óheppilega stjórnarástand, sem var, áður en stjórnarskrárbreytingin var staðfest árið 1903.

Eg vildi óska, að háttv. minni hluti gæti nú felt sig við þessa hugsun, og tekið höndum saman við meiri hlutann til þess að bera fram sem fylstar kröfur Íslendinga, því að það er deginum ljósara, að ef vér erum sundraðir sjálfir, þá er miklu minni von sigurs, heldur en ef vér stæðum jafnan, sem einn maður.

Hitt er líka jafnljóst að ef alt af er hér uppi flokkur manna, er hallast að því er Danir vilja, þá veikir það kraftana eigi all-lítið.

Það væri því æskilegt að hinn hv. minni hluti gæti nú felt sig við að víkja frá undanfarandi stefnu sinni.

Hinum háttv. 1. þm. Eyf. (H. H.) fórust orð í þá átt, að samþ. þessa frumv., er nú liggur hér fyrir, gæti varnað því, að þjóðin vitkaðist aftur.

Eg vildi nú óska, að þjóðin ætti ekki eftir að vitkast í þeim skilningi, er fyrir hinum háttv. þm. vakir.

Eg óska, að þjóðin láti ekki staðar numið, fyr en hún hefir fengið það, sem hún að réttu á heimting á. Og það er undir sjálfum oss komið, hvort það tekst, eða ekki; það er undir því komið, að vér með þrautseigju og öllum heiðarlegum meðulum reynum að gera málstað vorn gagnvart Dönum skiljanlegan þeim og öðrum þjóðum, og látum sjálfir eigi hugfallast.

Þá mintist hinn háttv. þm. á það, að stjórnarskrármálið svæfi enn í nefndinni. En það stafar af því, að fyrir meiri hlutanum hefir ekki vakað, að það mál ætti fram að ganga að þessu sinni, með því að vonirnar um það, að sambandsmálið verði leitt til heppilegra lykta, nái samþykki danska löggjafarvaldsins, eru mjög litlar, en þýðingarlaust að gera stjórnarskrárbreytingar, sem á ýmsan hátt eru samtvinnaðar sambandsmálinu.

Hitt er á hinn bóginn mikilsvert að fá stjórnarskránni breytt, bæði að því er snertir kosningarréttinn, konungkjörna þingmenn o. s. frv. Það mál ætti því að verða tekið til meðferðar á næsta þingi; en ekki veit eg, hvað hæstv. ráðherra hefir hugsað sér í þessu efni.

Þykist eg svo ekki þurfa að tala meira um þetta mál að sinni.