28.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 812 í B-deild Alþingistíðinda. (1299)

5. mál, samband Danmerkur og Íslands

Framsögumaður meiri hlutans (Jón Þorkelsson):

Orð flestra manna falla svo hér í deildinni í dag, að hvergi er komið nærri efni málsins, en öllu drepið á dreif. Það er verið að eyða tímanum til þess að tala um frumv. það, sem ekki liggur fyrir, millilandanefndarfrumv. stjórnarinnar, og hvað þjóðræðisflokkurinn hafi viljað, ætlað og ákveðið. Menn hafa ekki verið hér í dag að skýra fyrirliggjandi mál, menn hafa verið að ryfja upp gamlar væringar, »afgera gamlar sakir«, gera upp gamla reikninga. Hér er því svo sem engu að svara, sem málefni þetta sjálft snertir, því að menn hafa lítið við það komið. Sá af minni hluta mönnum, sem helzt snerti ofurlítið við sjálfu málinu var háttv. þm. Vestm. (J. M.) Hann bar oss meiri hluta nefndarmenn brigzlum fyrir það, að vér tækjum alt gilt, sem prófessor Gjelsvik hefði sagt. Eg skal játa, að Gjelsvik hefir margt sagt vel. En þó fer þm. með ósatt mál. Það er langt frá, að meiri hlutinn hafi skrifað undir alt, sem Gjelsvik hefir ritað; það stendur hvergi í nefndaráliti meiri hlutans.

Eigi að síður er margt af því, sem Gjelsvik hefir ritað, svo sæmilegt, að eg held að það séu engin illyrði um háttv. þm. Vestm. (J. M.) þótt eg segi, að hann hafi aldrei skrifað neitt það um þetta mál, sem sé jafn ljóst og skilmerkilegt og ritgerð Gjelsviks.

Þgm. sagði, að Gjelsvik hefði ritað, að Íslendingar hefði gengið í samband við Noregs ríki (»den norske Stat«). Meiri hlutinn hefir aldrei skrifað undir það, enda er þetta rangt, nema að svo miklu leyti, sem konungur var fyrirsvarsmaður Noregsríkis. Því þótt konungurinn í Noregi hefði á síðari árum Hákonar gamla mikið vald, þá var hann alls ekki einvaldur. Meginið af valdi hans á þeim tíma lá í hans eigin persónu og dugnaði.

H. 1. þm. Eyf. (H. H.) lagði það til, að málið yrði afgreitt með rökstuddri dagskrá. Eg vil spyrja hinn háttv. þm., hvort honum þyki þingið gera of mikið fyrir málið, ef það samþykkir það og afgreiðir sem lög. Eða á hin rökstudda dagskrá að þýða það, að minni hlutinn ætli á þá leið og í hægðum sínum að fá meiri hlutann til þess að svíkjast undan þeim merkjum, sem kosningarnar í fyrra sumar heimtuðu að haldið væri uppi og borin fram, — og að minni hlutinn ætli sér á þann hátt að vinna sér hagræði og fylgi hjá landslýðnum, er hann gæti sýnt fram á, að meiri hlutinn hefði brugðist heitorðum sínum?

Þetta er í rauninni ekki langt frá því að vera í samræmi við ýmislegt, sem á hefir brytt hina síðustu daga hjá ýmsum fylgismönnum minni hlutans. Allir vita, hvernig sumir minni hluta flokksmenn hafa notað sér það, að landstjórnin skipaði menn til þess að taka út landsbankann — hafa breitt út, að jafnvel sakarannsókn sé hafin, eða eigi að hefja gegn þeim sæmdarmönnum, sem fyrir bankanum standa, og engum manni dettur í hug að hafi framið neitt óheiðarlegt, — og fé manna sé ekki óhætt í bankanum, og heyrst hefir að ýmsir minni hluta menn hafi ráðið mönnum til þess að taka fé sitt út þaðan, — og jafnvel að þessi sómi hafi verið látinn berast til útlanda. Meiri hluta eða stjórninni er það auðvitað ekki gert til sæmdar, en mundi það vera gert almenningi til gagns? Eg segi ekki að hinn háttv. 1. þm. Eyf. hafi sjálfur gert þetta, en hitt er víst, að ýmsir flokksmenn hans hafa gert það.

Háttv. þm. S.-Þing. (P. J.) og 2. þm. S.-Múl. (J. Ó.) voru að leggja fyrir mig og meiri hlutann einhverjar spurningar, sem eg þarf ekki að svara neinu. Þeim hefir verið svarað. En hins vegar vil eg leyfa mér til endurgjalds að leggja fyrir þá spurningu, sem eg vona að standi ekki á þeim að svara.

Geta þeir afdráttarlaust, skýlaust, og ósvikult leitt rök sín hér fyrir þingheimi að því, að frv. minni hlutans nái samþ. ríkisþingsins og konungs staðfestingu, verði það samþ. nú hér á þingi ? H. 1. þm. Eyf. (H. H.) studdi þessa staðhæfing minni hlutans aðeins við hugboð sitt, og enn veikara var um rökin hjá 2. þm. S.-Múl. (J. Ó.). Og — ef frumv. þeirra yrði ekki staðfest af konungi né samþ. af Dönum, hvað ætla þeir þá að gera?

Það gæti verið mönnum nú til athugunar, að það hefir reynst oss holt, að vér höfum ekki æfinlega verið fljótir að gleypa við öllu, sem fáanlegt hefir verið. — 1851 var oss boðið að verða hreppur úr Danmörku. Hverjar þakkir mundum vér gjalda fulltrúum vorum þá fyrir það, ef þeir hefði ginið yfir þeirri flugu ?

Eg skal geta þess, að komin er hér fram br.till. við 6. gr. frumv., sem fer fram á það að breyta nafni »Landssjóðs« í »Ríkissjóð«. Það á betur við og hugsa eg að ekki þurfi að tala fyrir því.

Það hefir lítið komið fram af rökum hér í dag, en nóg af órökstuddum staðhæfingum, og þær taka aldrei öðru svari en mótmælum.