28.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 814 í B-deild Alþingistíðinda. (1300)

5. mál, samband Danmerkur og Íslands

Bjarni Jónsson:

Vér höfum nú setið hér um stund og hlýtt á svanasöng minnihlutans yfir frumvarpi því, er millilandanefndin gerði og lagt var fyrir þingið. Mun þess nú skamt að bíða, að svanasöngur þessi deyi út og verði eigi annað en endurminning þessara samningasvana, er syngja sem ákafast í dauðateygjunum. En mörgum mun hugnun í að þessum söng linni, því að stefið er jafnan að bera oss meirihluta menn brigzlum og getsökum um óhreinar hvatir fyrir það, er vér höfum fylgt fram til sigurs sannfæring vorri í þessu máli.

Full þörf væri að minnast á margt, sem hér hefir sagt verið: en þó mun eg forðast sem kostur er að yrðast við einstaka menn. Þó mun eg eigi geta sneitt hjá, að svara einstöku manni að nokkru. Eg mun engan hlut eiga í deilu þeirra þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) og 2. þm. N.-Múl. (Jóh. Jóh.) um umboð það, er þeir höfðu frá sínum flokki, er þeir fóru til samninga við Dani. Þó vil eg eigi láta ógetið þeirra orða hans, að enginn hefði falið nefndinni að innlima eða aflima þetta land Danmörku, heldur hefði þinginu ætið verið ætlað að ráða úrslitunum. Þetta er auðvitað rétt; en hitt er eigi síður rétt, að hann og aðrir honum samþ. nefndarmenn hafa gert sitt til að semja af oss sögurétt vorn til fullveldis og koma herfjötri á eðlisrétt vorn til þess, að ráða öllum málum vorum. Hitt segi eg ekki, að þeir hafi gert það vísvitandi.

Þm. Vestm. (J. M.) taldi frv. nefndarinnar hafa falið í sér fullveldi, að minsta kosti þegar upp væri sagt þeim málum, sem uppsegjanleg eru talin. Bygði hann þessa skoðun sína á því, að fullveldi ríkis væri eigi skert, þótt annað ríki réði málum þess út á við, ef það réði sjálft málum sínum inn á við. Eg veit ekki, hvaðan þm. hefir þessar kenningar, hvort þær eru úr einhverjum lærdómsbókum, eða þær eru hans eigin eign. Hitt sé eg, að þær eru auðhraktar. Því að hverjum manni má vera það í augum uppi, að það ríkið, sem ráðin hefir út á við, getur skuldbundið hitt svo, að tilfinnanlegt verði og að tjóni. Hvar er þá fullveldið?

Ef nokkur viðurkenning hefir fram komið um fullveldi Íslands í þessum samningatilraunum, þá felst hún í því, að Danir hófu að semja við oss. Það hlýtur að byggjast á því, að þeir hafi með sjálfum sér játað, að vér værum fullvaldur samningsaðili. En þá viðurkenning og sögurétt vorn og eðlisrétt til fullveldis hefir nefndin notað til þess að semja af oss fullveldið, að því leyti sem í hennar valdi stóð.

Sami þm. sagði málefnasamband vera í frv. (Realunion). En það er auðsætt að slíkt samband getur eigi verið milli ríkis og ríkishluta, eða milli Íslands og Danmerkur, ef svo er fyrir mælt sem í frv., að Ísland sé í »det samlede danske Rige« eða í dönsku ríkisheildinni. Frv. býður því ekki einu sinni málefnasamband, hvað þá meira. Enda eru líkur til, að einhverjum nefndarmanni hefði komið í hug orðið »Realunion« í stað hins margræða og óákveðna orðs »Statsforbindelse«, ef svo hefði verið til ætlast, að samband landanna yrði svo, að þetta nafn gæti átt við.

Og þótt það kunni svo að vera sem þm. segir, að frv. réttlæti þau orð, sem í aths. standa, að »Ísland sé sett við hliðina á Danmörku sem sérstakt ríki«, þá er þess að gæta, að þar getur ekki verið um annað að tefla en hálfríki (Halbstaat), en þá er ekki um annað að véla en fánýtt nafnatildur. Hugur íslenzku þjóðarinnar var allur annar. Hún vildi gera þá kröfu, að vér yrðum fullvalda ríki, en ekki vinna það til fánýtrar nafnbótar, hálfríkisnafnsins, að vefja fjötrum framtíð sína. Hún sá vel, að sér mundi fara sem Fenrisúlfi, ef hún léti leiðast til þess. Æsir gintu hann til þess að láta leggja á sig fjöturinn Gleipni, er var sléttur og blautur sem silkiræma, og töldu hann mundu geta slitið hann auðveldlega. En því fastar sem hann knýr á, því meir þrengir fjöturinn að úlfinum, og rennur úr munni hans á sú, er Von heitir. Slíka von vildi þjóðin ekki skapa sér. Ef hún hefði samþ. frv., þá hefði hún með því viðurkent yfirvald annarar þjóðar, en sagan, lögin og eðli málsins dæma oss nú réttinn til fullveldis og honum glötum vér eigi, nema vér semjum hann af oss. En það megum vér fyrir engan mun gera. Eins og nú er, getum vér vænst þess, að fá orðafulltingi annara þjóða; en ef vér gerum hinn óvinafagnaðinn, þá er ekki þess að vænta, að þær styrki oss til að vega á veittar trygðir eða ganga á gerðar sættir. — Eg hefi jafnan haft þá trú og hefi enn, að takast muni að ná fullum rétti vorum með fúsu samþykki dönsku þjóðarinnar, en þótt ekkert gengi fram, var þó sjálfsagt að gera þá ítrustu tilraun, því að viðleitnin er öllum boðin og er óþarft að gefast upp fyr en í fulla hnefana.

Og það skil eg aldrei, að millilandanefndar menn vorir þykist sárt leiknir í þessu. Þeir ættu að vera oss allra manna þakklátastir fyrir það, er vér tökum upp og áréttum fyrstu kröfu þeirra í nefndinni. Þótt þeir yrðu að þoka úr því vígi á því þingi, er þá sátu þeir, þá má þó telja víst, að þeir fagni því nú, að þing þjóðarinnar sýni og sanni, að krafa þeirra var ekki fram flutt fyrir fordildar sakir. Enda geri eg lítið úr þeim svörum, sem Danir veita, ef þeir eru spurðir fyrirfram, því að þá gera þeir alt sem þeir mega til þess, að fæla oss frá að heimta rétt vorn, er þeir vilja fyrir oss halda. Þá fyrst er mark takandi á svari þeirra, er þing þjóðarinnar hefir sýnt með atkvæðum sínum, að þessi sé krafa vor og vilji.

Alt var þetta þjóð vorri ljóst. Og þótt bráðan bæri að úrslita-atkvæði um svo mikið mál, þá fór svo um hug þjóðarinnar, sem um gullið í eldinum, að tilreynt varð, hversu hreinn hann var. Hún hafði lítinn tíma til rannsókna, en frv.menn höfðu miklar gyllingar síns verks í frammi og ógnanir eigi síður, og létu einskis ófreistað til þess að vekja beyg og skelk. En hugargull þjóðarinnar þoldi eldraunina, og þótt ljóður kunni að hafa orðið á ráði hennar undanfarin ár, þá sannaðist hér það sem skáldið segir:

Bagar ei brestur í keri,

bara ef gullið er heilt.

En, því sýndi hún vitsmuni sína, að hún sá, að frumv. þetta mundi verða slagbrandur í þeim dyrum, sem vér eigum út að ganga til sjálfstæðis úr þeirri úlfakreppu, sem nú erum vér í.

En heldur þótti mér verða hausavíxl á slagbröndunum hjá 1. þm. Eyf. (H. H.). Hann sagði, að samþykt frv. eins og það varð við 2. umræðu gerði okkur örðugra fyrir inn á við, því að þeir sem hefðu látið til leiðast að fylgja málinu, ætti nú erfiðara með að láta undan síga, og þetta kallaði hann slagbrand. — Með öðrum orðum; hann telur það illa farið, að slagbrandur sé í flóttans dyrum, því að þá geti menn síður runnið frá réttu máli og sinni hjartans sannfæring. Fylgi honum hér að máli hver sem vill, en eg mun sýna, að minn hugur er þar allur annar.

Sami h. þm. Eyf. (H. H.) sagði og, að það mundi koma í ljós, er flokksæsing hjaðnaði, að ekkert væri áunnið með breytingunum. En þá fer að verða torskilið, hvers vegna hann getur ekki orðið breytingunum fylgjandi, Því að úr því þær eru ekki betri fyrir oss, þá eru þær ekki verri fyrir Dani og getur hann þá látið sér vel lynda. (Hannes Hafstein: útúrsnúningur; inn á við, sagði eg). Ekki er það útúrsnúningur, og má þm. sjálfum sér um kenna, ef hann getur ekki orðað hugsanir sínar svo ljóst, að menn skilji. En þótt hér sé rætt um inn á við, þá ber að sama brunni, að hann fer með rangt mál. Það er einmitt áunnið, að þjóðin getur alið þá meðvitund, að hún eigi fullan og óskertan rétt til fullvalda sjálfstæðis, er hún hefir látið þing sitt lýsa yfir því skýrt og skorinort, að hún vilji eigi hverfa að því ráði, að rýra réttindi sín með samningum. Og þá er mikið á unnið inn á við, því að slík meðvitund er í hugskoti þjóðarinnar eins lífgjöful sem sólin gróandi grösum, en úr hugskoti þjóðarinnar kemur alt það, sem hún vinnur gott og fagurt. Hér er því svo mikið á unnið, að enginn mun gera sig svo heimskan eða svo djarfan, að reyna að meta það til peninga; en sá er gróðinn mönnum munntamastur.

Þá sagði sami 1. þm. Eyf. (H. H.), að út á við yrði hagur vor verri og væri háski, að gera slíkan samning við Dani, er þeir gæti sagt upp með eins árs fyrirvara, svo að landið yrði skilið eftir eitt í útsænum — (svo sem skáldið kvað að orði) — og varnarlaust fyrir hverri ránskló, er til þess seildist. Hér þekkjum vér markið á ógnununum síðan í sumar, þegar þeir bræðurnir geigur og beygur áttu að vernda frumvarpið sæla og reka slagbrand fyrir framtíðardyr þessarar þjóðar. Heldur þm., að vér munum eigi geta búið oss undir þessa uppsagnarógn á næstu 25 árum, sem ráðgert er að samningurinn standi? Auk þess veit hann eins vel og eg, að sú ránskló mætti vera smá, sem Danir gæti frá oss bægt.

Enn taldi hann líklegt, að kjósendur mundu kalla það óþarfa af oss, að lofa sér ekki að hugsa sig um aftur, áður vér rendum þessum slagbrandi, sem hann kallar svo, atkvæðagreiðslunni, fyrir flóttans dyr. Eg þekki engan kjósanda svo lítilsigldan, að slíkt mundi mæla, en hitt er víst, að ef vér létum eigi málið fram ganga nú, þá mætti bregða oss um svik í þessu máli, og þá mundi oss verða erfitt um svar. — En 1. þm. Eyf. (H. H.) þarf eigi að óttast þennan slagbrand svo mjög, því að vel veit hann, að engir slagbrandar stöðva flótta þeirra, sem nógu hræddir eru. Má hann því vera vongóður, ef honum tekst að hræða menn með skáldlegum lýsingum á því, hver hætta það sé Íslendingum, að fylgja einarðlega fram sjálfstæðiskröfum sínum.

Hann taldi það enn óhapp og Íslands óhamingju að kenna, að þetta mál hefði verið haft til þess að steypa sér af stóli. Þar til er því að svara, að þetta er ósatt mál. Vér börðumst fyrir góðum málstað, en ekki móti neinum manni, enda var honum sjálfrátt að fylgja oss að málum. Hitt er allóviðfeldið, að heyra sal þennan bergmála slík brigzl á hverjum degi, þótt meiri hlutinn sýni það í orðum og athöfnum, að þau eiga sér engan stað.

Það virðist vera undarlega rík hvöt hjá 1. þm. Eyf. (H. H.) til að tala um yfirboð; eg veit nú ekki, hvort það eru fornar endurminningar frá söluþingunum, er þessu valda, en þessi hvöt virðist óstöðvandi. Þm. viðhafði þetta orð í morgun, þegar var verið að ræða um læknamál — og hann tjaldar því einnig nú.

Eg veit ekki, hvort þm. jafnar sér til Gracchusar, þar sem maður var fenginn til þess að bera fram rífari endurbótakröfu til þess að steypa Gracchusi. En sé svo, þá get eg fullyrt það, að hann á ekkert skylt við slíka menn sem þeir voru bræðurnir.

Eg get og fullyrt það við háttv. 1. þm. Eyf. (H. H.) og aðra þingmenn, að hér hefir ekki verið um neitt yfirboð að tefla; ekki hefir það eitt heldur vakað fyrir meiri hlutanum, sem nú er, að steypa hinni fyrri stjórn, heldur hitt, að vér þykjumst sannfærðir um, að sá málstaður sé réttur er vér höldum fram.

Ef um nokkurt yfirboð væri að tefla, þá ætti háttv. 1. þm. Eyf. (H. H.) og aðrir flokksmenn hans að taka nú saman höndum við meiri hlutann og reyna að fá Dani til að gera yfirboð, ef það þá gæti orðið svo glæsilegt, að viðlit væri að taka því. En betra er að halda því, sem nú höfum vér, en taka því, sem að eins mundi spilla hag vorum. — Að lokum vil eg skora á minni hl. að greiða atkv. með frumv. til þess að veikja eigi málstað vorn með sundrungu.