22.02.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 828 í B-deild Alþingistíðinda. (1310)

6. mál, aðflutningsgjald

Ráðherrann (H. H.):

Spurning h. háttv. þm. (J. Ó.) kemur að vísu að mér óvörum, en eg get þó þegar fullyrt, að eg mun ekki sjá mér fært, að fá þetta mál afgreitt í svip með símanum. Konungur á að fá til undirskriftar lögin, eins og þau eru afgreidd af alþingi og mjög hæpið, að símskeyti geti gilt sem frumtexti alþingis; yfir höfuð verður í svo mikilsverðu máli, eins og lagastaðfesting er, að fylgja vissum formum, og eru ekki nein fyrirdæmi til svipaðra afbrigða áður. Afbrigðin við tollhækkunarlögin 1905 voru ekki önnur en þau, að konungur skrifaði undir þau utan ríkisráðs, upp á corroboration eftir á, og eru þess mörg dæmi áður. Vakti það þó talsverða mótspyrnu og efasemdir um gildi laganna, eins og menn munu rekja vitni til.

Að því er snertir tillögu nefndarinnar um að tollhækkunin verki aftur fyrir sig og leggist á allar birgðir, er heldur ekkert fyrirdæmi. Bittertollslögin frá 1907 hljóðuðu að eins um sölutoll af birgðum, jafnóðum og selt væri frá framleiðanda.

Annars sé eg ekki, að úrhættis sé um mál þetta, því nú er bráðlega von á skipi hingað; mun það áður langt um líður fara utan aftur, og má þá senda frumvarpið með því til staðfestingar, á sama hátt og tollhækkunarlögin 1905, og gæti þá þegar fengist vitneskja með símanum um staðfesting laganna, er hún væri fengin. Og verði samþykt tillagan um, að tollhækkunin nái til allra birgða, er blátt áfram þýðingarlaust að flýta staðfestingunni meira en það. Kaupmenn gætu ekki selt það sem þeir kunna að fá á þessu stutta tímabili auk allra birgða, sem þeir hafa; undanbrögð hlytu að komast upp, því lögreglustjórarnir sjá af tollskránum, hvað flutst hefir og geta farið nærri um, hvað sennilegt er að selst hafi á þessu stutta tímabili þangað til lögin næðu staðfesting. Tekjumissir yrði því ekki tilfinnanlegur landssjóði af þessu.

Það er ónákvæmni í viðaukatillögunni að ekki er talað neitt um, hvort prívatmenn skuli einnig greiða þetta gjald af sínum birgðum. Það er að eins naumast unt að skilja orðin öðruvísi; en ákvæðin þurfa að vera vel greinileg, er um svo örðugar og óvinsælar ráðstafanir er að ræða.