26.02.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 833 í B-deild Alþingistíðinda. (1316)

6. mál, aðflutningsgjald

Jón Sigurðsson:

Það vakti fyrir nefndinni, að með breytingarákvæðum hennar væri að nokkru leyti girt fyrir það misrétti, sem eiga mundi sér stað, ef tollhækkunin legðist að eins á vín, sem flyttist inn eftir að lögin gengu í gildi, því að sumir hafa fyrirfram fengið að vita, að lög þessi voru í aðsigi og því getað pantað til fleiri ára, en aðrir aftur á móti ekki. Nefndinni var einmitt kunnugt, að sumir myndu hafa haft veður af þessum lögum, og því hefir hún lagt til, að lög þessi skuli ná yfir allar vínbirgðir, sem fluttar eru inn eftir 24. febr. Að þetta ákvæði sé ósanngjarnt eða ranglátt fæ eg eigi séð, því að það kemur eingöngu niður á mönnum, sem hafa ætlað að ná í vínbirgðir, áður en lögin gengu í gildi, en hins vegar vill nefndin ekki halda því lengur fram, að sá nýi tollur leggist á allar birgðir, sem fyrir liggja á staðfestingardegi laganna, því að það gæti komið niður á mönnum, sem hefðu birgðir frá fyrri árum.

Annars hélt nefndin, að gegnum ritsímann mundi vera hægt að fá staðfestingu konungs, svo að lagasmíði þetta hefði getað hlaupið sem fyrst af stokkunum, en hæstv. ráðh. hefir talið ýms vandkvæði á því, en með því að nefndinni hins vegar finst ástæða til, að vinda bráðan bug að þessu máli, því að annars geta kaupmenn búið sig svo undir, að lögin komi ekki til að fá neina verulega þýðingu — að minsta kosti ekki í bráð — þá leggur nefndin fastlega með að tollhækkunin reiknist strax frá 24. febr.